Það lítur út fyrir að það snjói aðfararnótt laugardags og í fyrramálið. Starfsfólk vetrarþjónustunnar okkar er alltaf á vaktinni og metur stöðuna í nótt. Allar líkur eru á því að tæki verði kölluð út um klukkan fjögur í bæði götur og stíga. Þessi tæki geta bæði saltað og rutt og verður því hægt að bregðast við samkvæmt aðstæðum. Áfram verður kalt í veðri og það hvessir líka svo það gæti orðið fjúk og mögulega þörf á snjóruðningi í einhverjum götum. Förum varlega og fylgjumst með veðurspánni.
Hugum að aðstæðum fyrir sorphirðu
Verum einnig vakandi gagnvart umhverfi okkar. Það er mikilvægt að salta eða sanda ef þarf og tryggja gönguleiðir svo sorphirðufólk Reykjavíkurborgar geti sinnt starfi sínu og komist að til að tæma tunnur fyrir jólin. Að ýmsu fleiru þarf að huga en hér er hægt að sjá tékklista fyrir veturinn.