Ekki fara af stað á vanbúnum bifreiðum
Íbúar í Reykjavík eru beðnir um að fara ekki af stað á vanbúnum bílum, sérstaklega ekki í efri byggðum eða austan Elliðaáa.
Vetrarþjónusta Reykjavíkurborgar vinnur öll að því ryðja götur borgarinnar en það hefur snjóað stíft í dag og gul veðurviðvörun verið í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Í kvöld mun hreyfa vind og þá er líklegt að það snjór safnist í skafla.
Fólk er beðið um að fara ekki út á vanbúnum bílunum, bæði vegna þess að bílar á slitnum dekkjum spóla í þessari ófærð og líka vegna hættu á að festast í sköflum. Það tefur verulega fyrir snjóruðningstækjum sem nú fara um götur og þurfa að nota plássið sem gefst.
Búast má við að stofngötur verði ruddar í kvöld og á morgun og eftir það verði hægt að sinna húsagötum.
Verum áfram vakandi gagnvart nærumhverfi okkar. Það er mikilvægt að salta eða sanda ef hægt er og tryggja gönguleiðir svo sorphirðufólk Reykjavíkurborgar geti sinnt starfi sínu í næstu viku og komist að til að tæma tunnur fyrir jólin.
Að ýmsu fleiru þarf að huga en hér er hægt að sjá tékklista fyrir veturinn.