Byggingarréttur á Nauthólsvegi 79 hefur verið auglýstur til sölu á ný og nú er hann á föstu verði. Enginn tímafrestur er á sölunni heldur verða boð meðhöndluð jafnóðum og í þeirri röð sem þau berast.
Lóðin er áhugaverð meðal annars vegna þeirrar miklu uppbyggingar íbúðarhúsnæðis og þjónustu sem á sér stað í næsta nágrenni eða er fyrirhuguð á næstunni. Hlíðarendasvæðið er vel á veg komið og til suðurs við Nauthólsveg hafa stúdentaíbúðir HR risið og fleiri fyrirhugaðar. Sagt var frá þessum áformum á kynningarfundi borgarstjóra um húsnæðisuppbyggingu nýverið, sem og í kynningarritinu uppbygging íbúða í borginni. Á svæðinu við Loftleiðir eru einnig komnar á teikniborðið hugmyndir um íbúðir og þjónustu, en Reitir kynntu þær á fundi í haust um Lífsgæðakjarna framtíðarinnar.
Heimild fyrir 65 íbúðum
Heimilt er á Nauthólsvegi 79 að byggja allt að 65 íbúðir í þriggja til fimm hæða randbyggðu húsi, auk tveggja stakstæðra húsa sem mega vera tveggja til þriggja hæða. Byggingarmagn í heild eru rúmlega 5.000 fermetrar ofanjarðar og nærri 2.400 fermetrar neðanjarðar. Gert er ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð meðfram hluta Nauthólsvegar og Flugvallarvegar.
Lóðin er byggingarhæf.
Lögaðilum er heimilt að bjóða í byggingarréttinn og eru nánari upplýsingar á lóðavef Reykjavíkurborgar. Verð fyrir byggingarétt á lóðinni er 715.700.000 kr. Auk greiðslu fyrir byggingarrétt þarf lóðarhafi að greiða gatnagerðargjald í samræmi við gildandi samþykkt Reykjavíkurborgar um gatnagerðargjald.
Nánari upplýsingar:
-
Auglýsing á lóðavef: Byggingarréttur á lóðinni Nauthólsvegur 79
-
Uppbygging íbúða í Reykjavík – Kynningarfundur og húsnæðisblað