Menning í mögnuðu myrkri – Vetrarhátíð 2026
Mögnuð Vetrarhátíð verður sett fimmtudaginn 5. febrúar 2026. Hátíðin lífgar upp á borgarlífið og allir viðburðir tengjast ljósi og myrkri með einum eða öðrum hætti. Ríflega 150 viðburðir eru í boði og frítt inn.
Vetrarhátíð verður sett 5. febrúar klukkan 19:00 í garði Listasafns Einars Jónssonar, Hallgrímstorgi 3.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjórinn í Reykjavík mun setja hátíðina ásamt því að Logi Einarsson, menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra mun segja nokkur orð í tilefni af því að Listasafn Einars Jónssonar og Listasafn Íslands hafa nú sameinast.
Opnunarverk hátíðarinnar er verkið Synergy 2.0 eftir listhópinn Mercury Maze Studio, sem samanstendur af Owen Hindley, Katerinu Blahutova og Þorsteini Eyfjörð og verður frumsýnt við setninguna. Verkið er gagnvirkt vídjó, ljós- og hljóðverk sem varpað verður á Hnitbjörg, bygginguna sem hýsir safn Einars Jónssonar. Í þessu marglaga verki geta áhorfendur rannsakað arkitektúr byggingarinnar og hljóðvist umhverfisins í gegnum umbreytingu efnis og anda.
Verkið verður til sýnis í garðinum alla daga Vetrarhátíðar frá kl. 18.30 – 22.30.
HyperOrgel í Hallgrímskirkju
Strax að lokinni setningu í garði Einars Jónssonar eða klukkan 19.30 hefjast tónleikar í Hallgrímskirkju. Flutt verða 4 gagnvirk tónverk fyrir tölvustýrt orgel. Tölvustýrð hljóðfæri lúta öðrum lögmálum en hljóðfæri sem leikið er á af mennskum flytjendum og opnar á nýja vídd í flutningi túlkun, hljóðáferð og upplifun áheyrenda.
Í Hallgrímskirkju verða kvöldtónleikar, hádegistónleikar, fyrirlestur og sömuleiðis tölvustýrð tónverk á opnunartíma kirkjunnar á meðan Vetrarhátíð stendur.
Tónleikar í Ráðhúsi Reykjavíkur öll kvöld Vetrarhátíðar
Boðið verður upp á tónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem bæði innlent og erlent tónlistarfólk stígur á svið. Listamenn sem koma fram eru:
Fimmtudaginn 5. febrúar klukkan 21.00:
Coby Say er lagahöfundur, pródúsent, söngvari, hljóðfæraleikari og plötusnúður frá Suðaustur-Lundúnum sem hefur mótað sér skýra og sérkennilega stöðu sem listamaður og flytjandi. Útgefið efni hans spannar lifandi hljóðfæraleik og tilraunatónlist.
Föstudagur 6. febrúar klukkan 20.00:
Cryptic Freedom Duo er skipað þeim Brian DeGraw (Gang Gang Dance) og Professor Bear (Sean Linezo). Með sameiginlegan bakgrunn í tónlist, kvikmyndum og gjörningalist vinnur dúóið með lágstemmdar nálganir á hrynjandi og bergmálstíðnir sem byggja á flautu og hljómborðum.
“Sleepy“ Doug Shaw er lagahöfundur sem er fæddur í London, en hefur búið í New York síðan 2003. Hann vefur flóknum gítarmynstrum saman í hugvíkkandi hljóðheim og sækir innblástur í eyðimerkurblús og gamlan kalýpsó.
Laugardagur 7. febrúar klukkan 20.00
Benni Hemm Hemm og kórinn ætla að bjóða upp á sneisafullt prógramm af lögum sem spanna allan feril hópsins sem hefur unnið saman frá árinu 2024. Þau ætla að smella sér inn í ævintýralega sjónræna umgjörð Abigail Portner undir leiðsögn Ásrúnar Magnúsdóttur. Það verður dulúðleg stemmning, myrkur og ljóstýra og fullur poki af tónlist til að ylja sér við.
Ljósaslóð
Ljósaslóð Vetrarhátíðar í ár er prýdd 18 verkum sem lýsa upp skammdegið á skapandi hátt og myndar gönguleið frá Hallgrímskirkju að Ráðhúsi Reykjavíkur.
Tvö ljóslistaverk voru valin í samkeppni Reykjavíkurborgar og Veitna, á síðasta ári, fyrir Vetrarhátíð 2026. Það eru verkin Ljóslifandi og Í NÝJU LJÓSI.
Ljóslifandi
Verkið er einhvers konar upplifun frekar en hlutur eða skúlptúr á víðavangi. Verkið býður gestum að ganga inn í rými, heim sem blandar saman efni og birtu. Hálfgerður gangur, hálfgerður hljómur, þar sem ljósið sjálft verður leiðarljós á ferðinni um ganginn. Að verkinu standa Sigurður Bogi Ólafsson, Gunnlaugur Eiður Björgvinsson, Vikar Máni Þórsson, ljósahönnuður. Verkið er á Austurvelli.
Í NÝJU LJÓSI
Verkið er tilraun til að varpa nýju ljósi á birtuna innra með okkur öllum í von um að hún nái að lýsa upp skammdegið. Með verkinu vill listamaðurinn bjóða áhorfandanum að skipta um sjónarhorn í augnablik og horfa á sjálft sig með augum einhvers sem ber hlýju og ást í brjósti til viðkomandi. Verkið er á brúnni við Ráðhús Reykjavíkur. Að verkinu stendur Björt Sigfinnsdóttir, listakona
Ljósmót á Hallgrímskirkju
Hallgrímskirkja verður upplýst á Vetrarhátíð og nefnist verkið Ljósmót eftir Örn Ingólfsson. Kirkjan umbreytist í lifandi ljósform þar sem litir, mynstur og hreyfing leika um bygginguna og draga fram kraftmikla arkitektúr hennar. Verkið er samtal ljóss og forms, þar sem rýmið titrar milli kyrrðar og orku.
Myndlistarsýning í Gamla Landsbankahúsinu
Gestum Vetrarhátíðar gefst nú tækifæri á að fara á opnun málverkasýningar í Gamla Landbankanum í Austurstræti þann 5. febrúar frá klukkan 18.00 til 20.00. Anna Jansdóttir, Jón Múli, Jón Sæmundur, Narfi Þorsteinsson og Sindri Dýrason sýna málverk sín og teikningar í þessari sögulegu byggingu, við Austurstræti 11. Sýningin verður opin 6. - 9. febrúar á milli kl. 18.30-22.30
Ljóslistaverk og viðburðir þeim tengdum verða í gangi öll kvöld yfir hátíðina frá klukkan 18:30-22:30.
Safnanótt
Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 6. febrúar 2026 og þá býðst gestum Vetrarhátíðar að fara á fjölmörg söfn (um 40 talsins) á öllu höfuðborgarsvæðinu. Boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Söfnin verða opin frá klukkan 18:00 til 23.00 og frítt inn.
Í Listasafni Reykjavíkur verður boðið upp á stútfulla dagskrá af spennandi viðburðum fyrir alla aldurshópa. Í Hafnarhúsi verður boðið upp á leiðsagnir um sýningar Blómstrandi framtíð, Hraunmyndanir og Erró Remix. Tvær sjónsveitir Unfiled og MOTET verða með tónleika sem bjóða upp á örvun augna og eyrna.
Á Kjarvalsstöðum verður Útsaumsveisla – Saumum saman í risastórt listaverk innblásið af sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur: Ósagt
Í Ásmundarsafni verður vasaljósaleiðsögn um höggmyndagarð Ásmundar og inni í safninu verður listamannaspjall við listamanninn Finn Arnar sem hefur sett upp tjaldbúðir og segir gestum frá verki í vinnslu.
Töfrandi tré í mögnuðu myrkri
Boðið verður upp á fróðlega og ævintýralega göngu um heim töfrandi trjáa í Grasagarðinum. Á göngunni verður fjallað um galdra, goðsagnir og menningarhefðir sem tengjast ákveðnum trjátegundum sem finna má í garðinum. Vinsamlegast takið með ykkur vasaljós eða símavasaljós og munið að klæða ykkur eftir veðri því gangan fer fram utandyra.
Finndu sjávardýrin! er léttur og skemmtilegur ratleikur í Sjóminjasafninu sem leiðir ykkur um sýninguna Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár. Markmiðið er að finna ýmis konar sjávardýr sem hafa falið sig víðsvegar um sýninguna. Um leið og leitað er að sjávardýrunum má fræðast um sögu fiskveiða á Íslandi,
Glerperlugerð að hætti víkinga. Á Landnámssýningunni verður glerblásarinn Fanndís Huld Valdimarsdóttir á staðnum en hún sérhæfir sig í endurgerð glerperla frá tíð Víkinga. Á Safnanótt mun hún sýna hvernig gler er brætt og mótað í perlur yfir opnum eldi. Einnig verður boðið upp á leiðsögn um Landnámssýninguna, gestir geta hoppað í tímavél og orðið margs vísari um sögu Reykjavíkur.
Það er líka hægt að skella sér á Ljóðaslamm í Grófinni. Þekkt skáld, tónlistarfólk og sviðslistafólk hafa stigið sín fyrstu skref í slamminu, enda listform sem útfæra má á fjölbreyttan máta. Langar þig að taka þátt skráðu þig þá til leiks.
Rottukórinn í Safnahúsinu
Rottur gefa frá sér sextán mismunandi hljóð til að tjá gleði á tíðni sem mannseyrað nemur ekki. Þær gefa hver annarri nöfn og leika félagslega leiki samkvæmt reglum sem þær tjá með hljóðum, þar sem þær lifa að mestu í myrkri. Gunnhildur Hauksdóttir útsetur og stjórnar kórverki fyrir mannsraddir byggt á þessum sextán hljóðum. Á Safnanótt mun hópur kvenna flytja útsetninguna í lessal Safnahússins við Hverfisgötu.
Á Þjóðskjalasafni verður erindi um Strand spítalaskipsins Sankti Páls á Meðallandsfjörum 1899 sem var þrímastra seglskip sem strandaði í sinni þriðju ferð til Íslands.
Á Þjóðminjasafninu verður meðal annars boðið í sundlaugabíó og Kvöldvöku við baðstofuna með kvæðamannfélaginu Iðunni.
Sundlauganótt
Sundlauganótt verður haldin laugardaginn 7. febrúar 2026 en þá verður frítt í sund í Laugardalslaug, Vesturbæjarlaug, Grafarvogslaug, Dalslaug og á Ylströndinni frá klukkan 17:00 til 21.00.
Gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Glæsilegar sirkuslistir, sundballett, róandi hvalahljóð og plötusnúðar sjá um að halda uppi stuðinu. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi og eru gestir hvattir til að slaka á og njóta stundarinnar.
Í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu verður boðið upp á skemmtidagskrá í tilefni af Vetrarhátíð.
Upplýsingar um dagskrá Vetrarhátíðar má nálgast á vetrarhatid.is
Frítt inn á alla viðburði Vetrarhátíðar. Öll velkomin!