Austurmiðstöð flytur á Bíldshöfða 20
Austurmiðstöð opnar á nýjum stað að Bíldshöfða 20 á 4. hæð, næstkomandi mánudag, 26. janúar. Miðstöðin er ein fjögurra slíkra í Reykjavík en þar er veitt þjónusta, upplýsingagjöf og ráðgjöf á sviði velferðar-, skóla- og frístundamála.
Á miðstöðvunum er lögð áhersla á faglegt starf og farsælt samstarf við íbúa, félagasamtök og stofnanir þeirra hverfa sem tilheyra miðstöðinni. Austurmiðstöð sinnir íbúum Grafarvogs, Árbæjar, Ártúnsholts, Norðlingaholts, Grafarholts, Úlfarsárdals og Kjalarness.
Austurmiðstöð hefur verið staðsett að Gylfaflöt í Grafarvogi um árabil. Leigusamningur, sem rennur út um næstu mánaðamót, var ekki endurnýjaður og því hófst leit að nýju húsnæði. Húsnæðið á Bíldshöfða er stærra og hentar starfseminni ágætlega. Þar er aðgengi fyrir fatlað og eldra fólk gott, auk þess sem staðsetningin er góð hvað samgöngur varðar. Þar er jafnframt nóg af bílastæðum.
Síðasti opnunardagur Austurmiðstöðvar að Gylfaflöt er fimmtudagurinn 22. janúar. Lokað verður föstudaginn 23. janúar vegna flutninganna.
Austurmiðstöð verður opin milli 9 og 15, líkt og aðrar miðstöðvar Reykjavíkurborgar.
Hluti Vesturmiðstöðvar kominn í Borgartún
Áður hafði verið tilkynnt að Vesturmiðstöð flytji í Borgartún 12–14 úr tímabundnu húsnæði í Austurstræti 8–10. Þeir flutningar standa nú yfir og er hluti starfseminnar þegar kominn í Borgartún. Afgreiðsla Vesturmiðstöðvar er enn sem komið er í Austurstræti og verður þar næstu vikur eða mánuði. Notendum þjónustunnar verður tilkynnt þegar hún hefur verið flutt að fullu.