Vesturmiðstöð flytur í Borgartún 12–14
Vesturmiðstöð flytur úr tímabundnu húsnæði við Austurstræti í Borgartún 12-14. Í Vesturmiðstöð starfa um 90 manns sem veita þjónustu, upplýsingar, stuðning og ráðgjöf á sviði velferðar-, skóla- og frístundamála. Vesturmiðstöð er ein fjögurra miðstöðva í Reykjavík. Jafnframt er starfrækt Rafræn miðstöð, sem er fyrsta snerting notenda við þjónustuna.
Gott að fá varanlegt húsnæði eftir langa leit
Vesturmiðstöð hefur verið í húsnæðisvanda um nokkurt skeið. Frá því í apríl í fyrra hefur miðstöðin verið í Austurstræti 8–10 en hún var áður á Laugavegi 77. Húsnæðið í Borgartúni hentar starfseminni mun betur, hvað varðar staðsetningu, vinnurými og móttöku íbúa.
Fyrir er Reykjavíkurborg með umfangsmikla starfsemi í Borgartúni 12–14. Þar eru meðal annars velferðarsvið, skóla- og frístundasvið og Rafræn miðstöð. „Það er gott að við höfum fundið lausn á húsnæðisvanda Vesturmiðstöðvar. Það felast spennandi tækifæri og samlegðaráhrif í því að fá starfsfólk Vesturmiðstöðvar í húsið. Við munum leggjum okkur fram um að efla og bæta þjónustu Vesturmistöðvar á nýjum stað,“ segir Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.
Margir kostir fylgja nýju húsnæði
Í Borgartúni er aðgengi gott fyrir fatlað og eldra fólk, staðsetning er nálægt almenningssamgöngum og með ásættanlegan fjölda bílastæða. Til stendur að móttaka miðstöðvarinnar verði samnýtt með þjónustuveri Reykjavíkurborgar sem staðsett er á jarðhæð. Á næstu vikum verða breytingarnar útfærðar frekar í samvinnu við þjónustuverið, aðra starfsemi í Borgartúninu og starfsfólk sem málið varðar.
Markmiðið er að hanna örugga, vel skipulagða og hlýlega móttöku sem mætir þörfum íbúa og starfsfólks. „Fram undan er vinna við að hanna og útfæra það rými sem ætlað verður starfsfólki og notendum þjónustunnar. Við ætlum að taka vel á móti fólki hér og vanda okkur við þetta verkefni, þannig að vel takist til. Við höfum trú á að hér verði um framþróun að ræða í þjónustu borgarinnar,“ segir Rannveig.
Stefnt er að því að flutningum ljúki fyrir árslok.