Sorphirða um páska og sumardaginn fyrsta

Sorphirða

Unnið verður aukalega á skírdag og sumardaginn fyrsta eftir þörfum. Mynd/Róbert Reynisson
Gulur sorphirðubíll úti á götu.

Sorphirða hefur gengið vel að undanförnu. Starfsfólk sorphirðunnar hefur unnið sér í haginn í dymbilviku til að klára að hirða sorp fyrir páskafrí en frí verður hjá starfsfólki föstudaginn langa og annan í páskum. Unnið verður aukalega á skírdag og sumardaginn fyrsta eftir þörfum.

Þjónusta á grenndarstöðvum um páska 

Gámar fyrir pappír og plast verða losaðir miðvikudaginn 16. apríl og laugardaginn 19. apríl. Gámar fyrir gler og málma voru tæmdir í vikunni. 

Gámar fyrir pappír og plast eru nú staðsettir á öllum stærri grenndarstöðvum. Minnum líka á að með nýja flokkunarkerfinu hófst söfnun á glerumbúðum og málmum í grenndargámakerfinu. Gáma fyrir þessa flokka má finna á öllum grenndarstöðvum höfuðborgarsvæðisins en kort yfir þær er hægt að skoða á vef Sorpu. 

Endurvinnslustöðvar Sorpu verða opnar á skírdag og sumardaginn fyrsta. Lokað er föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum. 

Minnum á moltuna 

Tími vorverkanna í garðinum er að ganga í garð, lóan er mætt og minnir okkur á bjartari tíma. Moltan er líka mætt en fyrr í mánuðinum hófst dreifing á ókeypis moltu, sem er öflugur jarðvegsbætir. Framleiðsla á moltunni í GAJU er með starfsleyfi frá Matvælastofnun. Athugið að hægt verður að sækja stærri farma í GAJU fyrsta laugardag hvers mánaðar. 

Reykjavíkurborg býður íbúum enn fremur að sækja sér moltu á sjö grenndarstöðum í hverfum borgarinnar. Minnum á að taka skóflu með í verkið! 

Hvar verða gámarnir? 

  • Við Klambratún, á bílaplani við Flókagötu.  

  • Laugardalslaug, á bak við stúkuna, við  Sundlaugaveg. 

  • Spönginni 

  • Við Breiðholtslaug 

  • Selásbraut við Norðurás 

  • Kjalarnes, vestan við hverfastöðina 

  • Þjóðhildarstíg 

Fyrir þau sem ætla sér að vera í garðverkum yfir páskana minnum við á að tekið er á móti garðaúrgangi á endurvinnslustöðvum Sorpu.