
Tími vorverkanna í garðinum er að ganga í garð, lóan er mætt og minnir okkur á bjartari tíma. Moltan er líka mætt en laugardaginn 5. apríl hefst dreifing á ókeypis moltu, sem er öflugur jarðvegsbætir.
Moltan er meðal annars framleidd úr matarleifum sem íbúar safna í tunnur við heimili. Úr matarleifunum er unnið gas sem er til dæmis notað á alla sorpbíla Reykjavíkur og molta. Framleiðsla á moltunni í GAJU er með starfsleyfi frá Matvælastofnun.
Hægt verður að sækja stærri farma í GAJU fyrsta laugardag hvers mánaðar.
Reykjavíkurborg býður íbúum enn fremur að sækja sér moltu á sjö grenndarstöðum í hverfum borgarinnar.
Hvar verða gámarnir?
- Við Klambratún, á bílaplani við Flókagötu.
- Laugardalslaug, á bak við stúkuna, við Sundlaugaveg.
- Spönginni
- Við Breiðholtslaug
- Selásbraut við Norðurás
- Kjalarnes, vestan við hverfastöðina
- Þjóðhildarstíg

Molta nærir jarðveginn og gefur plöntum þannig næringu. Mikilvægt er að blanda moltuna við mold í hlutföllunum einn á móti þremur. Moltan er kraftmikil og getur brennt viðkvæmar plöntur og grös ef hún er ekki blönduð.
Íbúar hafa staðið stórvel í flokkun á matarleifum og eiga mikið hrós skilið fyrir! Með því að nota moltu er verið að styðja við hringrás næringarefna umhverfi, loftslagi og efnahag til góða. Takk fyrir að flokka matarleifar og nota moltu.