Leiðinlegasta ráðleggingin: Allt er gott í hófi
Ellen Alma Tryggvadóttir, doktor í næringarfræði, hefur starfað hjá Reykjavíkurborg síðastliðin fjögur ár. Hún vann í fyrstu við innleiðingu matarstefnunnar á skrifstofu borgarstjóra en hefur eftir það unnið bæði fyrir skóla- og frístundasvið og velferðarsvið. Nú er komið að starfslokum hennar hjá borginni en hún er að taka við sem verkefnastjóri næringar á lýðheilsusviði hjá Embætti landlæknis.
Samstarf við kokkana í grunnskólunum
Stór hluti af hennar vinnu hefur verið samstarf við kokkana í grunnskólum borgarinnar og eldhúsið á Vitatorgi. Á meðal þess sem hún hefur komið að er eldhúsumsjónarkerfi fyrir bæði sviðin, sem verið er að innleiða sem stendur. Að innleiðingu lokinni getur hver sem er séð næringargildi máltíða á netinu og jafnframt nálgast upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvalda.
Hún hélt einnig fræðslu fyrir yfirmenn frístundaheimila um hvaða mat væri sniðugt að bjóða uppá og er grundvöllurinn fyrir því alltaf ráðleggingar embættis landlæknis. Útkoman úr því var myndrænt skjal með hugmyndum. „Ég gerði síðan dæmi um fjölbreyttan frístundamatseðil í nokkrar vikur. Þarna voru þau komin þá með eitthvað tól til að nýta sér til að vera í samræmi við ráðleggingar,“ segir Ellen Alma.
Næsta verkefni var samstarf með kokkunum, þeim sem elda ofan í grunnskólabörn borgarinnar. „Við smöluðum í hitting með kokkunum, vorum með fræðsludag eitt sumarið áður en skólinn byrjaði, sem heppnaðist vel. Það var mikill áhugi hjá þeim að hittast,“ segir hún en eftir það hefur fræðsludagurinn verið árlegur.
Þetta skiptir máli því um 70% grunnskóla eru með kokk sem eldar matinn fyrir börnin. „Þau höfðu ekki haft vettvang til að hittast, bera saman bækur sínar og skiptast á góðum ráðum,“ segir hún.
Ráðleggingarnar eru ekkert að umbyltast
Nýverið voru kynntar nýjar ráðleggingar hjá Embætti landslæknis um mataræði. „Ráðleggingarnar eru alltaf uppfærðar reglulega. En þær eru aldrei að umturnast. Vísindalega þekkingin er ekkert að umbyltast en það eru alltaf að bætast við rannsóknir og sönnunin verður sterkari varðandi suma þætti,“ segir Ellen Alma en hluti af því nú er að verið að bæta í neyslu á ávöxtum og grænmeti og D-vítamíni.
„Það eru svo mikil jákvæð heilsufarsáhrif af því að borða mikið af grænmeti og ávöxtum. Það var mælt með að minnsta kosti fimm skömmtum á dag,“ segir hún og bætir við að skammturinn sé um 100 grömm, en „ekki heilt brokkolí. Eitt epli er oft 160 grömm,“ bætir hún við. „Þetta er ekki óyfirstíganlegt magn sem verið er að mæla með,“ segir hún en ráðleggingin nú er 500-800 grömm á dag.
„Það sést í þessum rannsóknum að þetta er skammtastærðarháð. Því meira magn, því jákvæðari áhrif á heilsuna,“ segir hún en aðeins tvö prósent Íslendinga ná því að borða fimm skammta á dag samkvæmt nýjustu landskönnun á mataræði.
Ég brenn fyrir því að koma þessu til skila til barna sem þurfa á því að halda.
Máttur samfélagsmiðla mikill
Ellen Alma segir að stundum sé flókið að eiga við þau sem vilja bæta úr málum með því að selja einhverja vöru, bætiefni eða vítamín, til að bæta heilsu fólks. Máttur samfélagsmiðla geti verið mikill og ekki alltaf til góðs. „Þarna er hópur sem tranar sér mikið fram og kemur með staðhæfingar sem við sem erum næringarfræðingar og heilbrigðisstarfsmenn mættum ekki gera. Við myndum missa starfsleyfið. Þetta er fólk sem er ekki með slíkt starfsleyfi og er að reyna að selja einhverja vöru eða þjónustu. Eina sem maður getur gert er að benda á þetta sé ekki eitthvað sem er byggt á vísindum,“ segir hún.
Hún segir að það ætti að duga fólki að borða mat til að fá næringu og vítamín, fyrir utan D-vítamínið sem allir Íslendingar eigi að taka aukalega. „Við fáum orku og vítamín úr mat. Í dag er búið að selja fólki það að þú þurfir að kaupa þér bætiefni út í búð til að fá vítamín. Fólk er hætt að tengja þetta við mat. Það er bara alls ekki rétt að þú þurfir að kaupa bætiefni ef þú borðar fjölbreytta fæðu,“ segir hún og útskýrir að staðan sé einhvern veginn þannig að fólk kaupi dýrt próteinduft og bætiefni en tími kannski ekki að kaupa bláber. Sölumennskan sé mikil. Skilaboðin séu þau að ef þú kaupir próteinduft og bætiefni fáirðu meiri orku og heilbrigði fyrir vöðvana. Hófsöm skilaboð eins og að segja ef þú borðar meira af grænmeti og ávöxtum, þá verður þú mjög heilbrigður mjög lengi, hitti ekki í mark á sama hátt.
„Fólk vill þessar skyndilausnir en ekki endilega innleiða matarvenjur hjá fólki til æviloka eins og við erum að reyna að gera. Stóra myndin skiptir meira máli heldur en akkúrat það sem þú gerir í dag,“ segir hún.
Fólk vill þessar skyndilausnir en ekki endilega innleiða matarvenjur hjá fólki til æviloka eins og við erum að reyna að gera. Stóra myndin skiptir meira máli heldur en akkúrat það sem þú gerir í dag.
Mikilvægt að fá næringarríkan hádegismat í skólanum
Hún segir skólamatinn skipta miklu máli en hádegismaturinn í skólanum sé kannski 30% af orkunni sem börnin fái yfir daginn. Markmiðið sé að börnin fái þá að minnsta kosti eina næringarríka, gæðaríka máltíð á hverjum degi. „Börn eru að fá ótrúlega mismunandi fæði heima hjá sér. Það fer eftir aðstöðu, getu og þekkingu heima hjá þeim. Það þarf að vera einn staður þar sem hægt er að tryggja það að þau fái mat sem inniheldur öll næringarefni sem þau þurfi til að fúnkera vel í skólanum, stækka og þroskast eðlilega. Þarna þarf að vera að tryggt að þau fái næringarríkan mat því við vitum ekki hvað er að gerast annars staðar. Við getum ekki stýrt því hvað fólk gefur börnunum heima hjá sér. Það sorglega er að börn hafa ekkert um það að segja hvað þau fá að borða heima hjá sér. Þau eru alveg upp á fullorðna fólkið komið, sem hefur mismunandi aðstöðu og getu til að velja rétt fæði fyrir börn.“
Henni finnst gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa verið heillaskref. „Þegar skólamáltíðirnar urðu gjaldfrjálsar, þá fóru miklu fleiri börn að borða hádegismat í skólanum,“ segir hún.
Í boði í skólanum er kjöt eða fiskur og líka grænmetisréttir. „Það á helst að vera salatbar líka sem þau geta valið sér úr,“ segir hún og rifjar upp rannsókn úr Rimaskóla þar sem blönduðu salati var skipt niður í aðgreinda bakka og grænmetisneyslan jókst fimmtánfalt í kjölfarið. Þannig að framsetningin skiptir líka máli.
„Skilaboðin frá okkur eru að aðskilja grænmetið. Þá eru þau líklegri til að taka sér smá til að smakka og meiri líkur á því að mataræðið verði fjölbreyttara,“ segir hún og rifjar upp dæmi af skóla þar sem byggi var bætt við í salatbarinn. „Því lengur sem það er þarna, þeim mun líklegra er að krakkarnir smakki,“ segir hún.
Í einum skóla var fiskitvenna reglulega á boðstólnum, það er bæði hvítur fiskur og bleikja. Í fyrstu vildu krakkarnir ekki bleikjuna en núna er bleiki fiskurinn vinsælli. Þannig að þrautseigja er mikilvæg, ef eitthvað er á boðstólum nógu lengi, smakka krakkarnir frekar. Hún veit um aðra svipaða sögu af hýðishrísgrjónum. „Þarna er staðurinn sem maður á að venja þau við að smakka og prófa,“ segir hún.
Ekki fókusa á það sem er bannað
Það eru því mörg tækifæri til mataruppeldis í skólum, til dæmis í heimilisfræðinni. „Heimilisfræðikennari sem var í verkefni hjá mér í háskólanum, gerði tilraunir með að elda uppskriftir samkvæmt ráðleggingum,“ segir hún en um var að ræða krakka í kringum tíu ára gamla sem höfðu yfirleitt ekki séð hvítan, óeldaðan fisk fyrr. „Þau smökkuðu fiskinn af því það voru þau sem elduðu hann.“
Ellen Alma er andsnúin boðum og bönnum. „Það á alls ekki að fókusa á það sem er bannað heldur frekar leggja áherslu á það sem á að borða meira af, eins og ávexti og grænmeti. Ef þú vilt vita hvaða matur er hollur og bestur fyrir þig að borða fyrir heilbrigði á líkama og sál, þá er best að fylgja ráðleggingum um mataræði frá Embætti landlæknis.
Fólk kannist við úr fjölmiðlum að einn daginn sé kaffi allra meina bót og þann næsta sé það eitthvað sem enginn eigi að láta ofan í sig. Það sé vegna þess að aðeins sé horft á eina vísindagrein í einu. „Það sem er gert varðandi ráðleggingarnar er að þar eru teknar saman allar rannsóknirnar og heildaráhrifin skoðuð,“ segir hún.
„Ef þú horfir á matardiskinn þinn þá á hann að vera um það bil samsettur eins og fæðuhringurinn er. Um það bil helmingurinn á að vera grænmeti og ávextir. Ef þú fylgir ráðleggingunum þarftu ekki að hafa áhyggjur, en það er líka óþarfi að hafa áhyggjur ef þú nærð ekki að fylgja þeim algjörlega alla daga,“ segir hún.
Hefði sjálf viljað betri upplýsingar um næringu sem barn
Hún hefði sjálf viljað búa yfir betri upplýsingum um næringu sem barn. „Ég brenn fyrir því að koma þessu til skila til barna sem þurfa á því að halda. Mér finnst því þetta svo mikilvægt, það sem ég er búin að vera að gera í skólunum.“
Að lokum, ef þú hefðir tækifæri til að koma bara einum skilaboðum á framfæri til allra, hver væru þau?
„Það væri þessi óþolandi leiðinlega setning, allt er gott í hófi. Þetta er svo leiðinlegt en er svo satt. Þú mátt borða hvað sem er og þarft ekki að hafa áhyggjur af því svo lengi sem þú leggur áherslu á það að reyna að borða næringarríkan og fjölbreyttan mat eins oft og þú getur. Ekki fara í þessa allt eða ekkert hugsun heldur er mikilvægt að vera sveigjanlegur.“
Stutt í Katrínartún
Hún ætlar að halda góðum tengslum við samstarfsfólkið hjá borginni enda ekki langt að fara, en Embætti landlæknis er staðsett í turninum í Katrínartúni, rétt við hliðina á húsnæði Reykjavíkurborgar í Borgartúni.
„Þessi reynsla sem ég hef fengið hér hefur verið svo dýrmæt, því nú átta ég mig á því hvernig hlutirnir virka í stóru sveitarfélagi. Það er ekki nóg að bara búa til ráðleggingar og senda út í kosmósið heldur þarf að fylgja þessu eftir,“ segir hún og sér fyrir sér samstarf í fræðslu í framtíðinni. „Ég er búin að ná til svo margra í gegnum starf mitt hjá Reykjavíkurborg en þetta nýja starf er á landsvísu. Nú getur maður farið að sá fræjum á stærra svæði.“