Aukin samvinna stjórnenda grunnskólamötuneyta

Heilsa Skóli og frístund

Stjórnendur grunnskólamötuneyta sitja í Vindheimum í Borgartúni á starfsdegi í upphafi skólaárs

Framboð grænmetisrétta, nýtt eldhúsumsjónarkerfi og leiðir til að auka þátttöku barna við gerð skólamatseðla var meðal þess sem rætt var á starfsdegi stjórnenda skólamötuneyta í grunnskólum Reykjavíkur nú nýverið. Þetta er í annað sinn sem starfsdagur er haldinn stuttu fyrir skólasetningu að hausti og er markmiðið meðal annars að þétta faghópinn, ræða matarframboð, fara yfir sigra og hindranir og bjóða upp á sí- og endurmenntun.

Að þessu sinni var boðið upp á fræðslu um fæðuofnæmi- og óþol og ræddi Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmissamtakanna, meðal annars um hvað þarf að forðast og hvað má nota í staðinn til að viðhalda fjölbreytni og góðri næringarsamsetningu máltíða. Farið var yfir þá fjölgun sem orðið hefur á tilfellum ofnæmis og óþols og mikilvægi þess að fólk fái vottorð vegna ofnæmis. Hópnum verður síðan boðið upp á verklega kennslu í framleiðslu á ofnæmisfæði. 

Þátttaka barnanna rædd 

Síðar tóku við opnar umræður um skólaárið sem er að hefjast og ýmislegt tengt rekstri eldhúsanna. Var þar til dæmis talað um nýtt eldhúsumsjónarkerfi sem væntanlegt er í byrjun næsta árs, framboð grænmetisrétta í mötuneytum og mikilvægi þess að fá aðstoð skólaliða á álagstímum. Þá voru ræddar leiðir til að leyfa börnunum að hafa áhrif á matseðla, en til dæmis má leyfa þeim að nefna nokkra uppáhaldsrétti og vinna svo matseðla út frá þeim upplýsingum. 

Vilji til að hittast oftar 

Mikil ánægja ríkti með starfsdaginn og óskaði hópurinn eftir því að reynt yrði að hittast mánaðarlega héðan í frá. Dr. Ellen Alma Tryggvadóttir, verkefnastjóri matarstefnu Reykjavíkurborgar og Ólöf Kristín Sívertsen, verkefnastjóri lýðheilsu á skóla- og frístundasviði, stóðu að starfsdeginum og Ellen tekur undir gagnsemi þess að hittast reglulega. 

„Það er svo mikilvægt að auka samvinnu og efla lærdómssamfélag í þessari stétt,“ segir hún. „Það felst mikil ábyrgð í því að gefa börnunum okkar að borða. Góð næring er nauðsynleg fyrir góða heilsu, vöxt og þroska barna auk þess sem næringin er mikilvægur áhrifaþáttur hvað varðar hegðun, einbeitingu, vellíðan og námsgetu barnanna.“

Stjórnendur grunnskólamötuneyta sitja í Vindheimum í Borgartúni á starfsdegi í upphafi skólaárs