Nemendur Dalskóla kynntu sér fæðuhringinn
Nemendur í Dalskóla kynntu sér fæðuhringinn og nýjar ráðleggingar Embættis landlæknis um mataræði. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og María Heimisdóttir landlæknir hittu krakka í 8. bekk skólans í dag, ræddu mataræði og hengdu upp nýtt plakat með fæðuhringnum og ráðleggingunum á vegg í stofunni.
Harðfiskur fínasta snarl!
Borgarstjóri talaði fyrir fjölbreytni í mataræði og það sé mikilvægt að hlusta á líkamann og borða það sem manni líði vel af. Það sé ástæða fyrir því að skólamatur sé ekki bara pizzur og hamborgarar! Heiða Björg hvatti nemendurna að drekka vatn og taka D-vítamín og minnti á að harðfiskur væri fínasta snarl, það þætti henni að minnsta kosti þó að alls óvíst sé hvort lyktin yrði vinsæl í skólanum.
„Það skiptir máli að njóta þess að borða og gefa sér tíma til að borða,“ sagði borgarstjóri.
Landlæknir minnti unglingana á að það skipti máli hvað þau láti ofan í sig og hvatti þau til að gera það besta fyrir þau sjálf. Hún ræddi um að ráðleggingarnar séu ekki reglur heldur hvað sé best að gera oftast og hvað eigi heima meira spari.
„Skoðið, sýnið þetta heima hjá ykkur og takið þatt í að ákveða hvað eigi að vera í matinn,“ sagði María og hvatti nemendurna til að æfa sig í að „taka góðar ákvarðanir strax“.
Meira grænmeti og ávextir
Helstu breytingarnar í uppfærðum ráðleggingum, sem voru kynntar fyrr á árinu, eru að nú hefur verið aukið við græmetið, ávextina og heilkornin og dregið úr áherslu á rautt kjöt, mjólk og mjólkurvörur. Margir kannast við frasann „fimm á dag“ en nú er ráðlagt að borða fimm til átta skammta af ávöxtum og grænmeti á dag og helst þrjá skammta af heilkorni. Ekki er ráðlagt að borða meira en 350 g af rauðu kjöti á viku eða neyta meira en 350 til 500 ml af mjólk og mjólkurvörum á dag.