Heiða Björg borgarstjóri heimsækir Breiðholt

Breiðholtið loftmynd.
Breiðholtið loftmynd

Hverfadagar Heiðu Bjargar borgarstjóra hófust í Grafarholti og Úlfarsárdal þann 8. september síðastliðinn nú er komið að Breiðholti og hefst dagskráin þar mánudaginn 29. september.

Á Hverfadögum í Breiðholti heimsækir borgarstjóri skóla og stofnanir borgarinnar, kynnir sér fjölbreytta starfsemi og hittir starfsfólk borgarinnar í hverfinu, ræðir við íbúa og fulltrúa félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrafélaga. Að auki verður boðið upp á opna viðburði þar sem fólk getur rætt málin við hana.

Fjölbreytt mannlíf

Breiðholtshverfið er fjölmennasta hverfi borgarinnar, en nafn hverfisins er dregið af samnefndum bæ, sem stóð þar sem Skógarsel er nú.

Í Breiðholti er lögð áhersla á öflugt hverfastarf með fjölbreytni mannlífsins í fyrirrúmi. Í Mjódd er þjónustukjarni og samgöngumiðstöð. Hverfið státar af kröftugu skóla,- frístunda- og íþróttastarfi og má sem dæmi nefna glæsilega aðstöðu til íþróttaiðkunar á svæðum ÍR og Leiknis. 

Gerðubergið er miðstöð menningar í hverfinu. Þar er gott bókasafn, kaffihús og fríbúð svo eitthvað sé nefnt auk þess er boðið upp á fjölbreytta viðburði og sýningar.  

Breiðholt

Nálægð hverfisins við Elliðaárdal og Heiðmörk skapar fjölbreytt tækifæri til hreyfingar og útivistar, og hestamennsku má stunda í næsta nágrenni, í Víðidal og efst í Elliðaárdalnum er frisbígolfvöllur.

Boðið upp á spjall við borgarstjóra

Heiða Björg mun bjóða í listaverkagöngu ásamt Sigurði Traustasyni hjá Listasafni Reykjavíkur klukkan 17:00 þann 29. september. Gangan byrjar við Gerðuberg og mun einnig gefast tækifæri til að ræða málin við borgarstjóra.

Miðvikudaginn 1. október býður borgarstjóri upp á kaffi og spjall í Mjóddinni klukkan 16:00. Hvetjum öll sem sjá sér fært, til að koma og taka þátt í spjalli.

Öll velkomin

Næst verða hverfadagar haldnir í Vesturbænum og hefjast þeir mánudaginn 13. október.