Fjölbreytt verkefni fá úthlutað úr hverfissjóði

Hverfahátíð Holtsins, Klambrafest, vor- og sumarhátíðir, dagskrá á sumardaginn fyrsta, hlaup, skjólbelti, útimarkaður, vegglistaverk og smíðaverkstæði fyrir eldri borgara eru meðal fjölda verkefna sem fá úthlutað út hverfissjóði Reykjavíkurborgar að þessu sinni.
Hverfissjóður Reykjavíkurborgar styrkir hverfisbundin félagasamtök, íbúa og önnur sem vilja leggja sitt af mörkum og standa fyrir hverfistengdum verkefnum og/eða viðburðum. Þetta getur til dæmis átt við um hverfahátíðir, viðburði tengda jólahaldi eða öðrum hátíðum, sumarviðburði og samstarfsverkefni íbúa af öðrum toga.
Úthlutun tvisvar á ári
Tilgangur hverfissjóðs er að efla félagsauð, samstöðu og samvinnu íbúa í hverfum borgarinnar, stuðla að fegrun hverfa, auka öryggi og auðga mannlíf með fjölbreyttum hætti með mið af þörfum íbúa. Lögð er áhersla á að styrkja verkefni sem nýtast sem flestum íbúum hverfanna, stuðla að þátttöku fjölbreyttra hópa í mannlífi þeirra eða miða að fegrun eða uppbyggingu svæða sem nýtast stórum hluta íbúa.
Umsóknarfrestur að þessu sinni var til 15. apríl síðastliðins. Úthlutun fer fram tvisvar á ári og er ávallt auglýst eftir umsóknum á vef og samfélagsmiðlum borgarinnar.
Fjölmargar áhugaverðar umsóknir bárust að þessu sinni og var fjölbreytni mikil. Ofangreindar hugmyndir voru samþykktar í borgarráði í gær. Þakkir færum við öllum sem vilja taka þátt í að glæða borgina og hverfin okkar gleði og lífi.