Sérsöfnun á eldhúsúrgangi í Reykjavík hefst í haust

Sorphirða

""

Sérstök söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi hefst í Reykjavík í september. Byrjað verður í þremur hverfum borgarinnar en stefnt er á að geta boðið öllum íbúum þjónustuna fyrir mitt ár 2022.

Reykjavíkurborg tók ákvörðun þegar á árinu 2015 að fara í sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Þegar farið var að vinna þarfagreiningu fyrir gas- og jarðgerðarstöðina GAJA óskaði Reykjavíkurborg eftir að stöðin gæti tekið við sérsöfnuðum lífrænum eldhúsúrgangi frá íbúum í Reykjavík án þess að hann blandaðist við annan úrgang.  Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar samþykkti síðan á fundi 17. mars síðastliðinn að innleiða brúna tunnu til að safna í flokkuðum lífrænum eldhúsúrgangi.

Byrjað í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal, Árbæ og Norðlingaholti

Þar sem GAJA er nú kominn í rekstur eru innviðir fyrir hendi til að byrja að bjóða upp á þjónustuna. Byrjað verður að bjóða upp á þjónustuna í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal, Árbæ og Norðlingaholti í september 2021. Auk þess verður þjónustan áfram í boði á Kjalarnesi og í Hamrahverfi en þar hefur verið safnað lífrænum eldhúsúrgangi sem hluti af tilraunaverkefni. Stefnt er á að geta boðið íbúum í öllum hverfum borgarinnar upp á brúna tunnu fyrir mitt ár 2022.

Sérsöfnun hámarkar gæðin – flokkun heimila góð

Tilgangurinn með sérsöfnun er að hámarka gæði afurða sem hægt er að vinna; það er auk þess að vinna  metangas yrði unninn jarðvegsbætir sem stenst kröfur um notagildi og hámarksinnihald mengunarnefna. Þannig fást fjölbreyttari möguleikar á endurnýtingu næringarefna sem finnast í lífrænum eldhúsúrgangi. Tilraunaverkefni með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi á Kjalarnesi og í Hamrahverfi hafa sýnt fram á að flokkun heimila er almennt góð og frekar lítið um aðskotahluti í brúnu tunnunni.

Brúntunna á stærð við spartunnu

Til að byrja með er þjónustan valkvæð og er byrjað að taka á móti pöntunum á ekkirusl.is. Einnig er hægt að senda póst á sorphirda@reykjavik.is. Gert er ráð fyrir að brúntunnan verði að skyldu við öll heimili innan nokkra ára á næstu árum í takt við samræmda flokkun á landsvísu.

Í fyrstu verður boðið upp á brúna tunnu sem frístandandi 140 lítra ílát. Það er sama stærð og á spartunnu sem staðið hefur íbúum til boða og er minni en hefðbundin grá tunna. Þessi stærð íláta hentar við flestar gerðir húsnæðis í borginni, en rúmlega 80% af íbúðarhúsnæði í borginni er í fjölbýli.

Einnig verður boðið upp á að sækja lífrænan eldhúsúrgang í djúpgáma sem hafa verið að ryðja sér rúms við fjölbýli á undanförnum árum.

Leitað fleiri lausna samhliða endurnýjun bílaflota

Áfram verður unnið að skoðun á hentugum ílátum fyrir smærra húsnæði þar sem minni úrgangur fellur til og lítið pláss er við húsvegg til að bæta við ílátum. Unnið verður að því samhliða endurnýjun bílaflota sorphirðunnar að bjóða upp á fleiri valkosti fyrir íbúa.

Ef skipt er í spartunnu er hægt að halda kostnaði óbreyttum

Gjaldið fyrir brúna tunnu án 15 metra gjalds verður 10.700 á ári og tunnan tæmd á 14 daga fresti að jafnaði.  Þar sem hægt er breyta úr 240 lítra grátunnu í spartunnu verður hægt að halda kostnaði vegna sorphirðu óbreyttum.  Gjald vegna spartunnu án 15 metra gjalds er 18.400 krónur. Þannig er gjaldið vegna brúntunnu og spartunnu samtals 29.100 krónur á ári sem er sama gjald og er innheimt af einni 240 lítra grárri sorptunnu í dag. Þar sem aðstæður skapast til að fækka gráum tunnum verður hægt að lækka sorphirðugjöld.

Í takt við loftslagsstefnu

Þessar breytingar eru í takt við loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar. Í aðgerðaráætlun borgarinnar í loftslagsmálum 2021-2025 er hringrásarhugsun ein af megináherslum áætlunarinnar. Ein af fimmtán aðgerðum er að urðun verði hætt og mótuð verði heildstæð aðgerðaráætlun um hringrás og endurvinnslu til að styðja við sjálfbærari meðhöndlun úrgangs.

Skoða nánar og panta brúntunnu á ekkirusl.is

Rafrænt sorphirðudagatal Reykjavíkurborgar

Kolefnishlutlaus borg

Tengdar fréttir:

Um tilraunaverkefnið á Kjalarnesi.

Um tilraunaverkefnið í Hamrahverfi. 

Grein um söfnun lífræns eldhúsúrgangs í Borgarsýn, sjá blaðsíðu 17-18.