Sérsöfnun lífræns eldhúsúrgangs í Hamrahverfi

Umhverfi

""

Undirbúningur er hafinn á sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi í Hamrahverfi í Grafarvogi. Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar um sérsöfnun á lífrænum eldhússúrgangi og endurvinnslu á honum.

Brún 140 lítra tunna bætist við öll hús í Hamrahverfi í haust. Einnig verður litlu söfnunaríláti til að nota í eldhúsi dreift til allra heimila sem og maíspokum til að nota fyrstu vikurnar. Fyrirhugað er að byrjað verði að safna úrgangi úr brúnum tunnum fyrir lok september.

Sérsöfnun á lífrænum úrgangi hefur staðið yfir á Kjalarnesi frá því síðastliðið haust og hefur verkefnið gengið vel.

Áætlun um áframhaldandi tilraunaverkefni á sérsöfnun lífræns eldhúsúrgangs í Hamrahverfi var samþykkt á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs þann 27. maí síðastliðinn. Í viðhorfskönnun frá 2018 töldu 78% íbúa Reykjavíkur mjög líklegt eða líklegt þeir myndu nýta sér tunnu undir lífrænan úrgang við heimili.

Þegar farið er að flokka frá lífrænan eldhúsúrgang til viðbótar við aðra flokkun má gera ráð fyrir að efnið sem fer í grátunnuna geti minnkað. Þá getur skapast tækifæri til að skipta út hefðbundinni grátunnu fyrir spartunnu og þannig draga úr kostnaði heimilisins vegna sorphirðu. Hægt er nota reiknivélina á ekkirusl.is  til að skoða gjöldin miðað við fjölda og tegund íláta.

Hvers vegna ætlum við hætta að urða lífrænan úrgang og endurvinna hann frekar?

• Til að uppfylla markmið ríkis og sveitarfélaga um að hætta urðun lífræns úrgangs og mæta kröfu um aukið endurvinnsluhlutfall.

• Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun.

• Nýta orku og næringarefni í eldhúsúrgangi en útkoman er metan og jarðvegsbætir.

• Flokkun og skil til endurvinnslu hvetur til aukinnar meðvitundar um úrgang og getur leitt til breyttrar neysluhegðunar.

Hér má finna upplýsingar um hvað má fara í brúnu tunnuna.