Fjallkonan 2024

Fjallkonan 2024

Fjallkona árið 2024 var Ebba Katrín Finnsdóttir en ávarp fjallkonunnar var eftir Berg Ebba. 

Fjallkonan 2024, Ebba Katrín Finnsdóttir

Ávarp Fjallkonunnar á áttatíu ára afmæli lýðveldisins, 17. júní 2024

Kæra þjóð. Ég hef verið að reyna að ná í þig. Rétt missti af þér á Hverfisgötunni. Þú hoppaðir upp á rafskútu og renndir þér inn í blauta og dimma nóttina. Ég stóð eftir böðuð í bleiku neonljósi. Ég missti líka af þér á Lækjartorgi. Sá þig stíga upp í fölgrænan strætó í útvíðum buxum með ljóðabók í úlpuvasanum eftir skáld sem missti vitið. Ég hef elt þig út um allt. Upp í gnauðandi glerhýsin og inn í reykfylltar gullnámur á fjarlægum ströndum en alltaf gripið í tómt.

Ég hef verið að reyna að ná í þig til að segja þér að ég elska þig. Ég elska ekki bara leikskólabörn sem eru leidd í beisli í endurskinsvestum. Ég elska líka leigubílstjóra sem segja reynslusögur. Ég finn leiðir til að elska því ég er úrræðagóð ástrík fjallkona sem kyndir ofninn þinn og passa að rúmfötin á öldrunardeildunum séu ávallt tandurhrein og allir fái í skóinn í skammdeginu og ég skil varla hvernig ég hef tíma því oftast er ég frávita af áhyggjum að leita að þér og svo þarf ég líka að halda mig sem mest á fjöllum og vera ekki fyrir.

Gæjalega, grobbna þjóð, leyndardómsfull sem mannshvarf, úfin eins og hafið sem umlykur þig. Ég vildi bara segja þér að þrátt fyrir allt mun ég aldrei gefast upp á þér. Ef þú vilt finna mig þá er ég spegilmynd þín í vötnunum efst á Arnarvatnsheiði, ég er ýlfrið í sprungunum og tikkið í fánastöngunum. Þú getur fundið mig í hverju skrefi því jörðin undir fótum þínum eru kristölluð tárin sem ég hef grátið vegna þín.