Fjallkonan 2023

Fjallkona árið 2023 var Arndís Hrönn Egilsdóttir en ávarp fjallkonunnar var eftir Jónas Reynir Gunnarsson

 

þegar Hrafna-Flóki og félagar sigldu aftur til Noregs

voru þeir spurðir hvernig staður þetta væri

eyjan sem þeir kölluðu Ísland

 

skítapleis

sagði Flóki

Herjólfur sagði að hún væri la-la

Þórólfur sagði smjör drjúpa af hverju strái

 

Flóki minntist á kuldann

Herjólfur tók undir með honum

en sagði þó að til að gæta sanngirni

þyrfti að minnast á þessa yndislegu helgi í júlí

þegar þeir böðuðu sig í ánni

lögðust í mosann

og leyfðu sólinni að þurrka sig

Þórólfur sagði veðrið vera frábært

en það hentaði vissulega ekki aumingjum

 

Flóki talaði um fábreytni

hann talaði um einangrun og myrkur

Herjólfur sagðist geta hugsað sér að búa þarna hluta úr ári

fámennt en góðmennt

sagði Þórólfur

 

svona gengu rökræðurnar fram eftir kvöldi

og Norðmennirnir skemmtu sér svo vel við að hlusta á þær

að sú hugmynd kviknaði að heyra í hrafninum

 

hinum eina sanna

þeim sem Flóki sleppti úr búrinu

og hafði vísað þeim á klettinn

 

hvað fannst þér? spurði einhver

hvað fannst þér um þessa eyju?

 

nóttina áður en við komum

sagði hrafninn

dreymdi mig að búrið opnaðist

 

það var myrkur

og þegar ég blakaði vængjunum

bylgjaðist rökkrið eins og haf sem er að ókyrrast

 

mér fannst ég vera fyrsta hugsunin í heiminum

mér fannst ég slíta mig frá myrkrinu í líkamanum

og losna frá honum

 

ég flögraði um í leit að landi

og fyrir neðan mig voru fortíðin og nútíðin og framtíðin

hver ofan á annarri eins og stafli af skinnum

 

ég sá jökla

gróður

dýralíf

 

ég sá ísbíltúra

barnavagna

bárujárn

 

ég sá túnfífla spretta upp úr gangstéttum

ég sá fólk sem fór í kvöldsund

með náttfötin í bakpokanum

ég sá pípandi snjóruðningstæki í kófi

 

þetta sá ég

og allt í einu fannst mér að ég ætti að líta undan

ég fann fyrir þessum skringilega ótta

sem er bara til í draumum

samt hélt ég áfram að horfa

 

ég sá veðurspána

ég sá óþægilegar fréttamyndir

ég sá fólk dæmt í útlegð

ég sá ótrúlega mikinn fisk

 

ég sá í gegnum það sem mér hafði verið sýnt

 

Flóki leit niður í gólfið

Herjólfur skimaði í kringum sig

Þórólfur starði í augun á hrafninum

 

hvað gerðirðu?

spurði einhver eftir langa þögn

hann lenti

svaraði annar

 

nei

sagði hrafninn

ekki í draumnum

í draumnum flaug ég upp í myrkrið

 

ég blakaði vængjunum

og fann að fyrir aftan mig

bylgjaðist rökkrið eins og svört segl

 

ég rann saman við myrkrið

síðan vaknaði ég og sá að búrið var opið

 

það var bjart

ég vissi hvert ég átti að fara

 

þó að ég hefði aldrei komið þangað áður

fannst mér ég vera á heimleið

 

ég flaug þangað með lokuð augun