Fjallkonan 2019
Fjallkona árið 2019 er Aldís Amah Hamilton en ávarp fjallkonunnar er eftir Bubba Morthens.
Landið flokkar ekki fólk
sjáðu
landið okkar allra
með mosamjúkan opinn faðminn
tekur okkur öllum eins og við erum
landið okkar flokkar ekki fólk
sjáðu
við stiklum á hálum arfinum
kærleikurinn vex uppúr rauðu hafi hjartans
í kvöld er stjörnurnar falla á spegilinn
og rökkurmjúk aldan ber þær að landi
skal ég tína upp þó ekki væri nema eina
til þess að minnast sumarkvölda norður í dumbshafi
við skulum drekka sólargeisla saman að norðan
og sáldra yfir hann blágrýtismylsnu úr esjunni
og fagna fjölmenningu hér í miðnætursólinni
múrar gera það sem múrar gera
loka þig inni
rammgerðastir eru þeir
sem reistir eru í höfðum manna
rífum þá niður og göngum inní víðáttu frelsisins
og fögnum lífinu
sjáðu
sífellt bætast við blóm í garðinn
undursamlega fögur
hér eru auð rúm sem bíða barna
og drauma þeirra
júníbjört nóttin mun þvo af þeim martröðina
og dögunin mun leiða þau inní bjarta framtíð
regnboginn hefur blessað börnin
silfurtært er málið í munni þeirra
hlustum á orð þeirra
því dag einn
munum við hin eldri ganga í spor þeirra
ég veit ekki alveg
hvað það þýðir
að vera íslendingur
nema ég vakna dag hvern
með landið mitt á tungunni
það dugar