The Lady of the Mountain 2021

Hanna María Karlsdóttir was the Lady of the Mountain in 2021. Anton Helgi Jónsson wrote her address.

 

Ein vil ég mæla fyrir okkur öll. Setjum grið.

Virðum tifandi mosann

mosabreiðuna

mosalagið sem hjúpar jörð og nærir líf.

 

Setjum grið á öllum stöðum

nefndum og ónefndum

milli okkar og mosans. Setjum grið

í móum. Setjum grið í mýrum. Í tjörnum.

Í glitrandi lækjum og lindum.

Á hraunbungum

og í snjódældum.

Á þurrum melakollum og í votlendi.

Setjum grið á brunahrauni

og í botni skógar

þar sem söngvarinn ljúfi tyllir sér á grein.

 

Hægt, hægt vex undramjúkur mosinn

vex dúandi mosinn sem fæstir kunnu áður að nefna

viðkvæmur mosinn sem margur vild' ei neitt af vita

glóandi mosinn sem breiddi úr sér

fyrir augum allra án þess að sjást.

 

Engin mannskepna skal fara með óþarfa traðki út á mosann

enginn málmdreki ógna honum með eiturgufum

og ekki skal ógætileg framrás beittra klaufa

skera í mosann sár

sem óheftir vindar vilja ýfa upp.

 

Setjum grið á láglendi

setjum grið á hálendi.

alin og óborin,

getin og ógetin,

nefnd og ónefnd

veitum tryggðir og ævitryggðir

mætar tryggðir og megintryggðir

sem skulu haldast meðan mosi og manneskjur lifa.

 

Allt það líf sem enginn minntist á fyrrum kalla ég fram.

Komið þið silfurhnokki, snúinskeggi, kelduskæna!

Komið dýjahnappur, lindaskart, rauðburi, móabrúskur.

Komið tildurmosi og hraungambri

komið og breiðið úr ykkur til allra átta.

 

Verum sátt hvert við annað, við jörðina, við gróskuna

við umhverfið sæla, við fjölbreytnina.

Setjum grið, verum ólík en sátt

nemum kyrrð, nemum þolinmæði mosans

sem breiðir lifandi mýkt yfir harðneskju hraunsins.

 

Ég mæli fyrir mig, fyrir okkur öll. Setjum grið.

Við mælum öll sem ein og setjum grið.