Borgarvefsjá - Hjálp

Þegar Borgarvefsjá er opnuð blasir við kort af Reykjavík. Efst til vinstri er hnappurinn „Opna valglugga“ þar fyrir neðan er hnappur sem á stendur „Loftmynd“. Efst á skjánum er tólastika með 18 hnöppum. Nánari útlistun á þessum hnöppum er hér að neðan.

Til hægri í kortaglugganum er +/- hnappur sem hægt er að nota til að þysja inn og út úr kortinu (sjá einnig kafla um „þysja“ í tólastikunni). Þar fyrir neðan er hnappur með mynd af húsi. Þegar smellt er á hann fer kortið á upphafsreit. Þar fyrir neðan er hnappur sem þysjar inn á þína staðsetningu. Þessa virkni er einungis hægt að nota þegar Borgarvefsjá er skoðuð í snjallsíma eða spjaldtölvu og kveikt er á gps staðsetningu tækisins.

Opna valglugga

Ef smellt er á „Opna valglugga“ sprettur upp gluggi með ölllum upplýsingaþemum sem tiltæk eru á hverjum tíma. Þeim er skipt í 14 flokka.  Hægt er að virkja þemu með því að smella á flokk og haka í þau þemu sem þú vilt láta birtast. Þegar hakað hefur verið í þema þá birtist það beint á kortinu. Stundum þarf að þysja inn í kortið til þess að sjá gögnin. Til þess að slökkva á þemum er ýtt á „Slökkva á þemum“. Efst í glugganum er þekjuleit. Þar er hægt að slá inn leitarorð og stingur leitarvélin þá upp á þemum sem passa við leitarorðið. Þegar hakað er við þema birtist það á kortinu.

Lýsing á einstökum þemum í valglugganum

Borgarskipting

Í þessum flokki eru ýmsar svæðisskiptingar borgarinnar, en þær eru fjölmargar. Grunnskólahverfi sýna umdæmi grunnskólanna ásamt upplýsingum um fólksfjölda og aldursdreifingu íbúa í hverju skólahverfi fyrir sig. Borgarhlutar sýnir opinbera skiptingu borgarinnar í 10 borgarhverfi. Fólksfjöldi og aldursdreifing íbúa er einnig birt eftir þessari skiptingu. Önnur þemu eru til dæmis Hverfahlutar, sem sýnir skiptingu í minni hverfi, t.d. eftir endingu götunafna eins og Skjól, Rimar og Fell, eða örnefnum eins og Selás og Skerjafjörður.

Götur og stígar

Í þessum flokki er eins og nafnið gefur til kynna ýmislegt sem sem viðkemur götum og stígum borgarinnar. Miðlínur allra gatna og stíga, upplýsingar um eignarhald og teikningar. Einnig eru þarna upplýsingar um snjóhreinsun gatna og stíga og forgangsröðun, upplýsingar um hvar eru upphitaðar götur og stígar og ýmislegt fleira.

Hús og lóðir

Í þessum flokki er ýmislegt sem varðar hús og lóðir sérstaklega.

Lagnir

Þarna eru birtar upplýsingar um lagnir, borholur o.fl. sem Reykjavíkurborg eða Orkuveitan ber ábyrgð á auk lagna Mílu ehf (áður Símans). Athugið að ekki er leyfilegt að ráðast í framkvæmdir eingöngu á grundvelli upplýsinga úr Borgarvefsjá, heldur skal haft samband við hlutaðeigandi stofnanir/fyrirtæki.

Lýðfræði og fasteignir

Þessi flokkur birtir ýmsar tölulegar upplýsingar eftir svæðum.

Menningarminjar

Flokkurinn um Menningarminjar geymir ýmsar upplýsingar um friðun og verndun bygginga og gatna ásamt upplýsingum um fornleifar og gömul hús. Þarna eru líka upplýsingar um útilistaverk í borginni, örnefni og annað.

Myndefni

Hér er að finna myndkort (orthomyndir) en það eru hnitsettar myndir unnar eftir loftmyndum, en teknar hafa verið lágflugsloftmyndir af borginni árlega frá 2004. Einnig er aðgengileg milliflugsloftmynd af öllu höfuðborgarsvæðinu frá 2012 ásamt fleiri myndum.

Mælipunktar

Í þessum flokki er að finna fastmerki borgarinnar sem og hæðarmerki, notuð til landmælinga.

Náttúrufar

Í þessum flokki er þema sem kallast grunnmynd. Það hefur að geyma ýmsar viðbótarupplýsingar sem ekki fást annarsstaðar, til dæmis um girðingar, skurði og aðstæður inni á lóðum. Þarna eru einnig 1 m hæðarlínur, uppýsingar um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og önnur verndarsvæði.

Íþróttir

Þessi flokkur hefur að geyma upplýsingar um aðstöðu til íþróttaiðkunnar í borginni, svo sem sundlaugar, íþróttahús, velli og þessháttar.

Saga og þróun

Hér eru sýnd lögbýli 1703 í núverandi borgarlandi, þó ekki á Kjalarnesi (byggt að mestu á bókinni Reykjavík, Sögustaður við Sund, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf 1989). Þá er ógegnsætt kort danska herforingjaráðsins af Reykjavík skv. mælingu 1902, birt 1903, kort af Reykjavík 1947, loftmynd af vesturhluta borgarinnar frá 1954. Kortið frá 1902 í gegnsærri útgáfu undir heitinu "Samanburður við 1902" sem gefur kost á að bera gömlu byggðina saman við núverandi byggð, þá kemur Strönd 1900, 2024, sem sýnir annars vegar ströndina á fyrrnefndu korti frá 1902 og hins vegar væntanlega strönd 2024 skv. núgildandi Aðalskipulagi og loks kort sem sýnirþróun lögsögu borgarinnar frá stofnun kaupstaðar í Reykjavík 1786.

Umferð

Í þessum flokki eru ýmisleg gögn sem varða umferð. Svo sem einstefnugötur, forgangsreinar, bílastæðahús, hámarkshraða, biðstöðvar strætó, strætóleiðir og fleira

Þjónusta

Þessi flokkur geymir upplýsingar um ýmsa þjónustu borgarinnar. Þar má nefna staðsetningu á bekkjum, drykkjarfontum og ruslastömpum, hverfisbækistöðvar, grunnskóla og fleira.

Þungamiðjur búsetu

Þungamiðjurnar eru tvær. Önnur fyrir höfuðborgarsvæðið, hin fyrir Reykjavík. Miðjurnar eru reiknaðar út árlega í byrjun apríl út frá staðsetningarhnitum heimila í borginni þar sem tekið er tillit til hvers heimilismanns. Þungamiðjan er meðaltal hnita allra íbúa.

Loftmynd / Kort

Hér er hægt að víxla á milli þess að skoða borgarvefsjánna annarsvegar með hefðbundnu korti í bakgrunni eða loftmynd. Sjálfgefnar eru nýjustu lágflugsloftmyndirnar en þær eru teknar seinni part sumars ár hvert.

Skipulagssjá

Þegar smellt er á þennan hnapp, sem er efst á skjánum vinstra megin, opnast Skipulagssjáin í nýjum glugga. Skipulagssjáin lítur nánast eins út og Borgarvefsjáin og virkar eins. Þegar hún opnast þá er kveikt á þema sem sýnir deiliskipulag í Reykjavík. Með því að nota „Skipulagsupplýsingar“ hnappinn er hægt að smella á svæði og skoða þannig deiliskipulag í viðkomandi reit. Vinstra megin á skjánum er hægt að skipta á milli deiliskipulags og aðalskipulags.

Hnappar á tólastikunni

Efst hægra megin á skjánum er tólastika með 17 hnöppum. Ef Borgarvefsjáin er skoðuð á litlum skjá, til dæmis í snjallsíma, þá færist tólastikan undir einn yfirlitshnapp í hægra horninu og kemur í ljós þegar smellt er á hann. Virkni hnappanna í tólastikunni er  lýst hér að neðan.

Hliðra

Gefur kost á að færa kortið til í kortglugganum með hjálp örvakrossins.

Leita

Finnur valið heimilisfang á kortinu. Í gluggann sem opnast skráir notandi heimilisfang. Þegar byrjað er að slá inn götunafn birtast tillögur um nokkur heimilisföng sem hægt er að velja, en ef rétta heimilisfangið er ekki þar á meðal, er lokið við að slá það inn í fullri lengd. Þegar þessu er lokið þysjast kortið sjálfkrafa upp með valið heimilisfang á miðju korti og rauðum depli á viðkomandi lóð.

Þysja

Þetta tól gefur kost á að þysja (zoom) inn á ákveðið svæði. Bendillinn er notaður til að draga kassa utan um svæði sem á að þysja inná. Einnig er hægt að nota skrunhjólið á músinni til að þysja inn og út. Þá þarf að staðstetja bendilinn yfir það sem á að þysja að. Hægra meginn í jaðri skjásins eru svo +/- hnappar sem einnig er hægt að nota til að þysja inn og út.

Mæla

Gefur kost á að mæla vegalengdir, flatarmál og finna hnit. Þegar tólið er valið opnast valgluggi þar sem hægt er að velja á milli þessara þriggja kosta.

Teikna

Þegar smellt er á „Teikna“ opnast gluggi þar sem hægt er að velja á milli ýmissa forma til að teikna ásamt lit, stærð og gegnsæi. Til þess að hreinsa kortið aftur er ýtt á „Hreinsa“.

Prenta

Þegar búið er að setja saman kort þá er hægt að vista það til prentunar. Þegar ýtt er á „Prenta“ opnast gluggi til stillinga. Hægt er að velja á milli blaðsíðustærða og gerð skjala. Einnig er hægt að setja titil á kortið.

Meira

Þetta tól er lykiltól þegar skoða á upplýsingarnar sem Borgarvefsjá hefur að geyma. Þegar búið er að velja þau þemu sem á að skoða í valglugganum er hægt að velja „Meira“ og smella svo á eitthvað á kortinu sem maður vill meiri upplýsingar um. Þá verður það sem valið er gult með rauðum útlínum og upp sprettur gluggi með nánari upplýsingum um viðkomandi atriði á kortinu.

Eigindaleit

Þegar smellt er á þennan hnapp opnast leitargluggi. Byrjað er á að velja þema í flettiglugganum. Þegar það er búið opnast annar flettigluggi þar sem eigind er valin. Þegar hún hefur verið valin þá opnast gluggi með öllum mögulegum gildum fyrir þá eigind. Þar er hægt að velja gildi en einnig er hægt að leita að gildi. Þegar allt hefur verið valið þysjar kortið að niðurstöðum leitarinnar.

Tengill

Þegar búið er að velja þemu og staðsetningu til að skoða er hægt að smella á þetta tól og fá þannig tengil á kortið. Þannig er hægt að deila því með öðrum.

Teikningar

Þetta tól gerir þér kleift að sækja teikningar fyrir staðinn sem smellt er á.

GPS

Þetta tól gerir þér kleift að hlaða upp gpx hnitaskrá úr gps tæki og birta gögnin í Borgarvefsjánni.

Prófíll

Þetta tól gerir þér kleift að teikna línu á kortið og fá upp hæðarprófíl eftir þeirri línu (hæð á móti lengd).

Skýringar

Þegar ýtt er þennan hnapp þá opnast skýringar fyrir þau þemu sem eru valin.

Tímavél

Þetta tól gerir þér kleift að bera saman gögn frá mismunandi tíma. Hægt er að skoða grunnkort Borgarvefsjár og þróun þess frá 1999 til dagsins í dag (2004 til dagsins í dag þegar loftmyndin er valin). Þegar smellt er á hnappinn þá opnast tímalína þar sem hægt er að velja mismunandi ár. Þegar smellt er á „Samanburður“ þá birtist lóðrétt stika yfir kortið sem hægt er að draga til hliðar og bera saman mismunandi ár. Þá stillir þú tímalínuna á árin sem þú villt bera saman og getur dregið stikuna yfir skjáinn til að sjá muninn.

Götusýn

Opnar nýjan glugga sem sýnir götusýn já.is af götunni sem smellt er á.

Hreinsa

Þessi hnappur hreinsar kortagluggann og tekur út allt sem teiknað hefur verið á kortið.

Hjálp

Opnar þessa síðu.

Þungamiðjur búsetu

Þungamiðjurnar eru tvær, önnur fyrir Höfuðborgarsvæðið, hin fyrir Reykjavík.Miðjurnar eru reiknaðar út árlega, í byrjun apríl, út frá staðsetningarhnitum heimila í borginni, þar sem tekið er tillit til hvers heimilismanns. Þungamiðjan er meðaltal hnita allra íbúa.