Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Velferðarsvið
Velferðarsvið veitir fjölbreytta og metnaðarfulla velferðarþjónustu sem hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknum lífsgæðum íbúa Reykjavíkurborgar. Á undanförnum misserum hefur verið lögð rík áhersla á innleiðingu velferðartækni í þjónustu borgarinnar.
Fyrirmynd innan borgarkerfisins
Á árinu var áfram unnið að því að bæta stafrænt aðgengi, einfalda vinnuferli og styðja bæði starfsfólk og íbúa með notendavænni þjónustu. Velferðarsvið hefur lengi verið leiðandi á sviði stafrænnar þróunar innan borgarinnar, meðal annars sem fyrsta svið borgarinnar til að ráða stafrænan leiðtoga.
Sviðið hefur sýnt frumkvæði og verið fljótt að tileinka sér nýjungar, og með því hefur það orðið að fyrirmynd innan borgarkerfisins. Samstarf við þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur dafnað og einkennist af gagnkvæmri virðingu, trausti og skýrri sameiginlegri sýn.
Dala.care
Innleiðing dala.care hófst á árinu, nýs kerfis fyrir heima- og búsetuþjónustu. Um er að ræða umfangsmesta innleiðingarverkefni sem ráðist hefur verið í á velferðarsviði enda snertir það fjölda starfsfólks og notenda þjónustunnar, til dæmis eldra fólk, fatlað fólk, börn og fjölskyldur. Kerfið var tekið í notkun í heimastuðningi og stoðþjónustu allra miðstöðva og innleiðing hófst einnig í búsetuúrræðum og hjá Keðjunni.
Dala.care gerir skráningu einfaldari og yfirsýn betri. Þannig verður auðveldara að halda utan um þjónustu við fólk og tryggja að upplýsingar séu réttar og aðgengilegar þegar mest á reynir. Markmiðið er að draga úr tíma sem fer í gagnainnslátt og utanumhald, svo starfsfólk hafi meiri tíma til að veita persónulega og mannlega þjónustu.
Akstursþjónusta
Í september voru umsóknir um akstursþjónustu fyrir eldra fólk og fatlað fólk færðar yfir á Mínar síður. Umsóknirnar voru áður í sérstöku kerfi á akstur.reykjavik.is en eru nú aðgengilegar í sama umhverfi og önnur þjónusta borgarinnar.
Jafnframt var akstursþjónustan tekin inn í úrvinnslukerfið Veitu, sem heldur einnig utan um fjárhagsaðstoð. Þar getur starfsfólk sótt um fyrir hönd íbúa, fylgst með stöðu mála og sent samþykktar umsóknir sjálfvirkt til þjónustuaðila, annars vegar Pant og hins vegar Blindrafélagsins. Með þessu varð ferlið skilvirkara, einfaldara og notendavænna.
Aðrar nýjungar á árinu
Vefþulan (ReadSpeaker)
Á árinu var vefþulan innleidd á öll viðeigandi vefsvæði borgarinnar. Hún les upp texta af vefnum og eykur þannig aðgengi, meðal annars fyrir fólk með sjónskerðingu. Innleiðingin er liður í því að bæta upplýsingagjöf og þjónustu fyrir fjölbreyttan hóp íbúa.
Mathilda
Innleiðing hófst á nýju eldhúsumsjónarkerfi, Mathilda, sem verður tekið í fulla notkun um mitt ár 2025. Kerfið verður notað í framleiðslu- og móttökueldhúsum velferðarsviðs til að halda utan um uppskriftir, leiðbeiningar um matreiðslu og hitastig, matseðla, verðlista birgja og heimsendan mat til þjónustuþega. Einnig heldur það utan um upplýsingar um næringarinnihald og ofnæmisvalda í uppskriftum, sem og sérþarfir notenda eins og ofnæmi og fæðuóþol. Grunnskólar sem elda mat á staðnum munu einnig nýta.
Kerfið einfaldar auk þess innkaup þar sem hráefni í uppskriftum eru tengd við rétta vöru frá birgja. Þegar búið er að útbúa matseðil vikunnar er hægt að keyra út innkaupalista til viðeigandi birgja og spara þannig talsverðan tíma.
Stafrænt pósthólf
Öll svarbréf sem áður voru send í pósti eru nú komin í stafrænt pósthólf. Þetta nær til samskipta úr kerfunum Veita, S5 og málaskrá velferðarsviðs og eykur bæði yfirsýn og skilvirkni í samskiptum við íbúa.
Búi
Áfram var unnið að þróun Ráðgjafahluta Búa sem mun taka við af málaskrá velferðarsviðs. Sérstök áhersla var lögð á hluta kerfisins sem snýr að málaflokknum „Virkni og ráðgjöf“. Grunnvirkni var bætt með uppfærðri tæknihögun og hafin vinna við að skipta út WebMethods bakenda fyrir nýja og skilvirkari lausn.
Tölfræði velferðarsviðs
Gagnaþjónusta vann að því að koma gögnum úr kerfum velferðarsviðs í sjálfvirkar gagnapípur sem flytja upplýsingarnar beint í vöruhús gagna. Þessi vinna styður við betri yfirsýn, greiningu og gagnadrifna ákvarðanatöku á sviðinu.