Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Mannauður
Á árinu 2024 var lögð áhersla á að efla starfsandann, styðja við starfsfólk með fjölbreyttri fræðslu og stefnumótun og skapa vinnuumhverfi sem stuðlar að vellíðan og faglegri þróun.
Fræðsla og starfsþróun
Fræðsla og þekkingarmiðlun voru lykilþættir í starfsemi sviðsins á árinu. Haldið var áfram með vikulegar örfræðslur í opna fundarrýminu Hringleikahúsinu. Þar fóru fram 16 fræðslur, flestar haldnar af starfsfólki sviðsins fyrir samstarfsfólk. Að auki komu fulltrúar ráðgjafateymis mannauðs- og starfsumhverfissviðs og fluttu fræðsluerindin Listin að vera maður sjálfur og Breytingaskeið kvenna.
Í júní hlaut sviðið Regnbogavottun, sem fól meðal annars í sér að uppfylla 4,5 klukkustunda fræðsluskyldu um hinsegin málefni. Sú fræðsla hélt áfram í fjölbreytileikaviku í ágúst, þar sem Bjarni Snæbjörnsson flutti erindi um hinseginleikann í íslensku samfélagi. Einnig hélt Kristín Þóra Haraldsdóttir fræðsluna Á rauðu ljósi.
Stjórnendur sviðsins tóku virkan þátt í fræðslu, meðal annars á stjórnendadögum, þar sem unnið var með hópefli og faglega þróun. Ásdís Eir kom nokkrum sinnum yfir árið með fræðsluerindi um endurgjöf og erfið samtöl. Stjórnendaviðburðir voru einnig haldnir reglulega, þar á meðal Barborðið, sem var ætlað millistjórnendum og haldið tvisvar á árinu, og Hringborðið, sem var haldið einu sinni fyrir alla stjórnendur.
Stefnumótun og starfsdagar
Vinna við stefnumótun sviðsins var einnig í brennidepli árið 2024. Í apríl voru ný stefnuljós kynnt á stefnumótunarfundi stjórnenda. Í framhaldinu var haldin þemavika í byrjun maí, þar sem teymi og deildir settu sér markmið og aðgerðir í takt við þemað.
Starfsdagur var haldinn í apríl og heppnaðist einstaklega vel. Dagskráin innihélt kynningu á nýju rekstrarlíkani, fyrirlestur Halldóru Geirharðsdóttur um starfsmann mánaðarins, örkynningar frá öllum deildum og kynningu um ábata. Árshátíðin var haldin daginn eftir.
Í október var áfram unnið að stefnumótun sviðsins, þar sem fókusinn var á markmiðavinnu stjórnenda og starfsfólks. Markmið og aðgerðir voru kynnt á Workplace með svokölluðum markmiðasögum, og vikunni lauk með stefnuljósagleði, þar sem starfsfólk fékk vatnsbrúsa með stefnuljósi sviðsins og borðspjöld með nöfnum sínum.
Vellíðan starfsfólks
Ný útgáfa af viðverustefnu Reykjavíkur var kynnt fyrir starfsfólki á deildar- og teymisfundum, en stefnan var samþykkt í borgarráði 2023. Á sama tíma var í fyrsta sinn samþykkt heilsustefna í borgarráði fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg og hún einnig kynnt fyrir starfsfólki.
Lögð var áhersla á heilsu og vellíðan starfsfólks með ýmsum aðgerðum. Alls nýttu 89 starfsmenn sér heilsuræktarstyrk og 54 gerðu samgöngusamninga.
Mannauður tók vel á móti nýju starfsfólki með nýliðadögum í febrúar og október, þar sem ný andlit fengu tækifæri til að kynnast vinnustaðnum og samstarfsfólki.
Vel heppnaðir viðburðir og vottanir
Árið 2024 tók sviðið þátt í ýmsum viðburðum sem stuðluðu að jákvæðum starfsanda. Haldið var upp á bæði Bleika daginn og Gula daginn með litríku samstarfi starfsfólks.
Í nóvember hlaut sviðið viðurkenningu sem frábær vinnustaður frá Great Place to Work. Þessi alþjóðlega stofnun rannsakar vinnustaðamenningu og viðurkenningin staðfestir þá markvissu vinnu sem lögð hefur verið í að skapa jákvætt og gott starfsumhverfi.