Umsókn um rof á yfirborði

Sækja þarf um afnotaleyfi í rafræna umsóknarkerfinu Rosy. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á því að afla fylgigagna og er umsókn ekki tekin til afgreiðslu fyrr en öll gögn liggja fyrir. 

Samráð 

Í mörgum tilfellum þarf að leita umsagnar annarra aðila sem málið varðar, s.s. Strætó bs., lögreglu, íbúa og annarra hagsmunaaðila og í þeim tilvikum getur afgreiðslutími lengst. Þegar um er að ræða stærri framkvæmdir er kallað til sérstaks samráðsfundar með leyfishafa og viðeigandi hagsmunaaðilum.

Framlenging leyfis 

Ef í ljós kemur að ekki náist að ljúka framkvæmd innan gildistíma leyfis skal leyfishafi sækja tímanlega um framlengingu leyfis og tilgreina af hvaða ástæðum óskað er framlengingar. Sótt er um framlengingu í RoSy. Ef upp koma ófyrirsjáanlegar tafir eða breytingar á framkvæmd skal leyfishafi einnig upplýsa viðbragðsaðila og Strætó bs. ef um er að ræða strætóleið.  

Tilkynnt lok og yfirborðsfrágangur 

Leyfishafi skal tilkynna um lok framkvæmda undir flipanum mínar síður í RoSy. Þegar tilkynnt er um lok framkvæmdar skal yfirborð vera toppfyllt og tilbúið til yfirborðsfrágangs sem er á höndum Reykjavíkurborgar á kostnað leyfishafa. Frá 15. október – 31. mars skal toppfylling gerð með köldu malbiki.  

Gögn með umsókn

  • Merkingaráætlun um afmörkun og merkingar vinnusvæðis. Ef öryggi og aðgengi að borgarlandi skerðist vegna afnotanna (s.s. lokanir eða þrengingar á götum, gangstéttum, göngustígum eða hjólastígum) þarf að leggja fram teikningu sem sýnir afmörkun vinnusvæðis, merkingar á og við vinnusvæðið, og hvort og hvernig hjáleiðir eru skipulagðar. Merkingaráætlun getur ýmist verið staðalteikning í leiðbeiningum Vegagerðar og Reykjavíkurborgar, eða sérteikning í tilfelli framkvæmda sem hafa mikil áhrif á nærumhverfi. Merkingaráætlun skal vera unnin af aðila sem lokið hefur prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar og þannig uppfylla reglur um vinnusvæðamerkingar. 
  • Ábyrgðarmaður merkinga. Nafn, símanúmer og netfang ábyrgðarmanns merkinga á vinnusvæðinu. Það er skilyrði að ábyrgðarmaður hafi lokið prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.  
  • Dagsett ljósmynd sem sýnir yfirlit og yfirborð fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis á borgarlandi. 
  • Ljósastaurar, götugögn eða gróður, ef við á. Upplýsingar um hvort fjarlægja þurfi ljósastaura, götugögn eða gróður vegna framkvæmdanna. 
  • Lagnateikningar. Teikningar eru pantaðar á heimasíðu Veitna og Mílu.  
  • Framkvæmdaleyfi skipulagsfulltrúa ef um er að ræða meiriháttar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og ásýnd þess.  
  • Greinargerð vegna stærri framkvæmda og byggingaframkvæmda (ef leyfishafi þarf að nýta borgarland vegna framkvæmda innan lóðar).

Greinargerð

Í greinargerð skulu fylgja upplýsingar um:

  • Tímasetta framkvæmdaáætlun ef um áfangaskiptingu er að ræða. 
  • Upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga en öll vinnusvæði þar sem framkvæmdir vara til lengri tíma verða að uppfylla ákvæði um upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga. Fjöldi upplýsingaskilta fer eftir stærð vinnusvæðis. Hér má nálgast skapalón fyrir eitt skilti og tvö skilti.   
  • Upplýsingagjöf til nærumhverfis. 
  • Málsetta teikningu yfir afmörkun svæðis vegna hvers byggingarstigs fyrir sig (s.s. niðurrif, jarðvegsframkvæmdir o.s.frv.), ef við á. 
  • Flutninga efna, tækja og búnaðar til og frá byggingarlóð, ef við á. 

Fyrirspurnir og ábendingar

Frekari upplýsingar um afnotaleyfi má nálgast í þjónustuveri borgarinnar í síma 411 1111 eða á upplysingar@reykjavik.is.

Einnig má senda fyrirspurnir og ábendingar á netfangið afnotaleyfi@reykjavik.is eða hringja í þjónustuver borgarinnar í 411 1111 og skilja eftir skilaboð.