Velferðarstefna Reykjavíkurborgar
Reykjavík - fyrir okkur öll
Velferðarstefna Reykjavíkurborgar er rammi utan um metnaðarfulla velferðarþjónustu sem hefur það að markmiði að auka lífsgæði, stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn og tryggja að Reykjavík sé sannarlega fyrir okkur öll. Stefnan gildir til ársins 2030. Henni fylgir einnig ítarleg aðgerðaáætlun fram til ársins 2025.
Grunnur velferðarstefnunnar
Vegvísir í velferðarþjónustu
Velferðarþjónusta er veitt margskonar þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur með forvarnir, menningarnæmi og mannréttindi í fyrirrúmi. Velferðarstefnan er hugsuð sem vegvísir í þessari mikilvægu þjónustu, jafnt fyrir borgarbúa sem starfsfólk velferðarsviðs.
Framtíðarsýn stefnunnar
Í Reykjavík er veitt velferðarþjónusta sem stuðlar að góðri líðan íbúa og við upplifum að Reykjavík sé fyrir okkur öll.
Hlutverk velferðarsviðs
Velferðarsvið stuðlar að auknum lífsgæðum sérhvers íbúa Reykjavíkur með því að sýna frumkvæði og bregðast við fjölbreyttum þörfum einstaklinga og fjölskyldna fyrir velferðarþjónustu.
- Velferðarstefna Reykjavíkurborgar – íslenska
- Velferðarstefna Reykjavíkurborgar – enska
- Aðgerðaáætlun velferðarstefnu
Um gerð velferðarstefnunnar
Stefnan var samþykkt í borgarstjórn þann 15. júní 2021.
Unnið var að gerð hennar í tæplega tvö ár en það var á fundi velferðarráðs þann 20. september árið 2019 sem samþykkt var að móta heildstæða stefnu í velferðarþjónustu. Haft var víðtækt og ítarlegt samráð við borgarbúa, starfsfólk, samstarfsaðila og kjörna fulltrúa.
Innleiðing og utanumhald
Velferðarstefnunni, áherslum hennar og aðgerðaáætlun, verður fylgt úr hlaði á markvissan hátt innan velferðarsviðs. Framkvæmdastjórn sviðsins, sem skipuð er lykilstjórnendum af sviðinu, verður stýrihópur um innleiðingu stefnunnar. Stöðumat á aðgerðaáætlun verður gert tvisvar sinnum á ári auk þess sem áætlunin sjálf verður endurskoðuð á ári hverju.
Stefnumarkandi áherslur í velferðarstefnu
1. Engin tvö eru eins
Það, að engin tvö eru eins, er grundvallarnálgun í velferðarþjónustu borgarinnar. Í því felst að mál hvers einstaklings er metið á eigin forsendum og þess gætt að greining og leiðir til lausna og þjónustu séu sniðnar að hverjum og einum. Horft er til aðstæðna íbúa sem þurfa á velferðarþjónustu að halda, meðal annars til fjölskyldu og nærumhverfis.
Þetta er sérstaklega mikilvæg nálgun í því margbreytilega samfélagi sem Reykjavík er.
2. Nálægð og aðgengileiki
Velferðarþjónustan er aðgengileg og nálæg þeim sem á þurfa að halda.
Íbúar eiga að geta nálgast upplýsingar og þjónustuna sjálfa hvernig og hvar sem þeim hentar.
Forsendan er einfalt skipulag sem er hannað út frá þörfum notenda.
3. Þjónustulipurð og skilvirkni
Velferðarþjónusta er margþætt og fjölbreytt. Því skiptir öllu máli að hún sé skipulögð á notendavænan, heildstæðan og skilvirkan hátt þar sem hver þjónustuþáttur gegnir mikilvægu og skýru hlutverki í gangverki þjónustunnar.
Fagleg sérhæfing og frumkvæði starfsfólks eru lykilþættir í góðri velferðarþjónustu. Mikilvægt er að gæðaviðmið og verklag styðji starfsfólk við að veita skilvirka og góða þjónustu.
Leitast skal við að tryggja virkt notendasamráð við skipulagningu og framkvæmd þjónustunnar. Áhersla er lögð á að mynda sterkar tengingar við samstarfsaðila innan og utan Reykjavíkurborgar.
4. Virðing og umhyggja
Þjónusta sem snýr að heill og hamingju skal einkennast af samkennd, umhyggju og umfram allt virðingu fyrir einstaklingnum.
Ekki er gefist upp á neinum og áhersla lögð á hjálp til sjálfshjálpar.
Þessi áhersla á sér birtingarmynd í skipulagi, stjórnun og mannlegum samskiptum.
5. Frumkvæði og forvarnir
Lögð er áhersla á forvarnir í allri velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar.
Þjónustan hvílir á fyrirbyggjandi aðgerðum þar sem traustar upplýsingar og vísbendingar eru nýttar í forvarnir.
Ef tölfræðigreiningar eða upplýsingar gefa til kynna að grípa þurfi inn í aðstæður hjá einstaklingum og hópum sýnir starfsfólk frumkvæði.
6. Samtal og samráð
Árvekni gagnvart fjölbreyttum þörfum fólks er lykillinn að trausti í garð velferðarþjónustu borgarinnar.
Áhersla er lögð á reglubundið og markvisst samtal og samráð við ólíka en vel skilgreinda hagsmunaaðila, notendur og aðra borgarbúa.
7. Fagmennska og framsýni
Mikilvægt er að í velferðarþjónustu starfi faglegt og framsýnt starfsfólk sem vinnur saman að árangursríkum lausnum í takt við nýjustu þekkingu og tækni.
Hlutverk starfsfólks er að koma til móts við fjölbreyttar þarfir notenda og stuðla þannig að auknum lífsgæðum þeirra.
Styðja þarf frumkvæði starfsfólks og tryggja því tækifæri til að vaxa og dafna í starfi. Þverfaglegt samstarf og aukin sérhæfing starfsfólks eru lykilatriði til að ná þeim markmiðum.
Fyrirspurnir og ábendingar
Fyrirspurnir má senda á Dís Sigurgeirsdóttur skrifstofustjóra á dis.sigurgeirsdottir@reykjavik.is.