Umhverfis- og skipulagssvið

Umhverfis og skipulagssvið (USK) stendur á gömlum grunni en það tók formlega til starfa í janúar 2013 þegar umhverfis-og samgöngusvið, skipulags- og byggingarsvið og framkvæmdahluti framkvæmda- og eignasviðs voru sameinuð.

 

Um sviðið

Umhverfis- og skipulagssvið (USK) vinnur að fjölbreyttum verkefnum sem auðga lífsgæði í borginni. Þar er unnið með kjörnum fulltrúum að stefnumótun í umhverfis-, skipulags-, samgöngumálum og borgarhönnun. Sviðið stýrir framkvæmdum og viðhaldi og sinnir almennum rekstri í borgarlandinu eins og garðyrkju og grasslætti, snjómokstri og hreinsun.

Lögbundin verkefni byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tilheyra sviðinu. Sorphirða Reykjavíkur, Bílastæðasjóður og Grasagarður Reykjavíkur og ræktunarstöðin í Fossvogsdal eiga heima á sviðinu. Aðalskipulag Reykjavíkur og skuldbindingar í loftslagsmálum eru leiðarljós í allri vinnu sviðsins en í aðalskipulaginu til 2040 er lagður grunnur að mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar sem nú stendur yfir. Áherslan er á sjálfbærni, jafnt umhverfislega sem félagslega.

Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs býr yfir einstakri fagþekkingu í þeim málaflokkum sem sviðið sinnir og gegnir lykilhlutverki í því að gera Reykjavík að enn betri borg með framúrskarandi þjónustu. Sviðið er umhverfisvottað og starfsfólk leggur metnað sinn í að veita borgarbúum og öðrum viðskiptavinum góða þjónustu. 

Skrifstofa sviðsins er í Borgartúni 12-14. 

Sviðsstjóri er Ólöf Örvarsdóttir.

Sviðsstjóri - aðalskipulag og loftslagsmál

Sviðsstjóri hefur umsjón með stefnumótun á ábyrgðarsviðum USK og tryggir samræmi í málaflokknum innan borgarinnar. Sviðsstjóri er yfirmaður langtímastefnumótunar, þróunar og greiningar ásamt stýringu uppbyggingar í gegnum mótun aðalskipulags og svæðisskipulags sem og miðlun upplýsinga um niðurstöður og áherslur stefnumótunar. Loftslagsmál, Græna borgin og fleiri verkefni heyra undir sviðsstjóra.

Skrifstofa þjónustu og samskipta

Skrifstofan hefur það hlutverk að styðja skrifstofur sviðsins við að veita framúrskarandi þjónustu í samræmi við þjónustustefnu borgarinnar. Starfsfólk hennar styður við framþróun á þjónustu og stafrænni umbreytingu í samvinnu við stjórnendur, veitir stuðning við gerð markaðs- og kynningarefnis, ber ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni samskipta og miðlar upplýsingum og fréttum af verkefnum sviðsins.  Auk þess að sér skrifstofan um að miðla hagnýtum upplýsingum sem nýtast starfsfólki og íbúum í vefsjám borgarinnar.

Landupplýsingar

Landupplýsingar hafa umsjón með öllum gagnagrunnum sem innihalda landtengdar upplýsingar og leggja aðaláherslu á að hafa réttar og lifandi upplýsingar, byggðar á traustum grunni. Öflun, viðhald, úrvinnsla og afgreiðsla landupplýsinga eru aðalverkefnin, en deildin ber einnig ábyrgð á stjórn og rekstri landupplýsingakerfis, borgarvefsjár og skipulagssjár, landmælinga, staðsetningu lóðamarka, útgáfu korta, mæliblaða og lóðauppdrátta.

Skrifstofa stjórnsýslu og gæða

Skrifstofa stjórnsýslu og gæða heldur utan um miðlæga þjónustu, almenna rekstrarþjónustu og stoðþjónustu fyrir sviðið. Skrifstofan ber ábyrgð á þjónustu við skipulags- og samgönguráð og umhverfis- og heilbrigðisráð, stjórnsýslulegum málum, lögfræðiþjónustu, gæða- og öryggismálum og eftirliti með byggingar-, afnota- og framkvæmdaleyfum. Umsýsla fjármagns vegna samninga um kirkjugarða og þjóðvegi í þéttbýli heyrir undir skrifstofu sviðsstjóra. Einnig umsýsla og samskipti við B-hluta, fyrirtæki, nefndir og stjórnir.

Mannauðsþjónusta

Mannauðsþjónusta umhverfis- og skipulagssviðs veitir stjórnendum ráðgjöf og aðstoð varðandi mannauðsmál svo sem ráðningar, kjaramál, réttindi og skyldur starfsmanna, samvinnu og liðsheild og sinnir eftirliti þar sem við á. Mannauðsþjónustan heldur utan um starfsþróun, þjálfun og fræðslu og veitir stjórnendum og starfsstöðum ráðgjöf og stuðning í samskiptamálum.

Verkefnastofa

Verkefnastofa umhverfis- og skipulagssviðs hefur umsjón með verkefnastýringu stærri fjárfestingarverkefna þvert á skrifstofur sviðsins og sinnir verkefnum og verkefnastofnum frá upphafi til enda. Verkefnastofa vinnur að því markmiði að efla og bæta verkefnastýringu, minnka sóun og auka gæði og veitir stjórnendum og starfsmönnum stuðning við verkefnastjórnun. Enn fremur býður verkefnastofa upp á fræðslu og ráðgjöf til allra starfsmanna sviðsins.

Fjármáladeild

Fjármáladeild umhverfis- og skipulagssviðs hefur umsjón með fjármálum sviðsins og veitir starfsmönnum ráðgjöf og aðstoð varðandi fjármál.  Helstu verkefni deildarinnar eru fjárhags- og launaáætlun, fimm ára áætlun,  fjárhags- og verkbókhald, reikningagerð og innheimta,  kostnaðareftirlit, mánaðar- og árshlutauppgjör.

Samgöngustjóri og borgarhönnun

Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar vinnur að borgarhönnun og þróun samgangna út frá samþykktri stefnumörkun borgaryfirvalda. Nánari stefnumörkun, skipulag og undirbúningur verkefna næstu ára í þessum málaflokkum er á ábyrgð skrifstofunnar.

Meðal verkefna skrifstofunnar má nefna samgönguskipulag í nýrri og eldri byggð, framfylgd almenningssamgöngustefnu og hjólreiðaáætlunar borgarinnar, torg í biðstöðu og sumargötur auk hönnunar opinna svæða í miðborginni, frumathuganir breytinga á gatnakerfi, umferðartalningar, umsjón umferðarljósastýringa, umferðaröryggismál, orkuskipti í samgöngum og hljóðvist vegna umferðar. Bilastæðasjóður heyrir undir skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. 

Byggingarfulltrúi

Byggingarfulltrúi starfar samkvæmt mannvirkjalögum 160/2010 og byggingarreglugerð 112/2012 og sér um að samþykkja leyfisskyldar framkvæmdir mannvirkjagerðar og uppdrætti vegna þeirra, gefur út byggingarleyfi og hefur eftirlit með að mannvirki séu byggð í samræmi við samþykkt gögn, uppdrætti, lög og reglugerðir.

Þá ber byggingarfulltrúi ábyrgð á skráningu mannvirkja, hefur eftirliti með viðhaldi, staðfestingu eignaskiptayfirlýsinga, gjaldtöku, skráningu, varðveislu og miðlun upplýsinga um mannvirki.

Afgreiðsla leyfisumsókna er rafræn. Í þjónustuveri að Borgartúni 12-14, sem opið er alla virka daga frá kl. 08:30-16:00 nema föstudaga til kl. 14.30, er einnig móttaka og afhending gagna sem hafa verið afgreidd á pappír. Þar má einnig nálgast afrit uppdrátta en fyrirliggjandi rafrænir uppdrættir eru aðgengilegir á teikningavef Reykjavíkurborgar

Skipulagsfulltrúi

Undir liðnum skipulagsmál er að finna fundargerðir frá embættisafgreiðslum skipulagsfulltrúa, mál í kynningu í þjónustuveri í Borgartúni 12 - 14, svo sem breytingar á aðalskipulagi, nýtt deiliskipulag og breytingar á deiliskipulagi og mál sem eru í grenndarkynningu, mál í vinnslu, nýjar og nýlega samþykktar deiliskipulagsáætlanir, yfirlit yfir Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2040. Einnig er hér að finna Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Þróunaráætlun miðborgar. Jafnframt eru gefnar leiðbeiningar um gerð deiliskipulags fyrir skipulagsráðgjafa og kort um húsvernd í Reykjavík.

Netfang: skipulag@reykjavik.is

Skrifstofa framkvæmda og viðhalds

Skrifstofan annast stofnframkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og sér um allt viðhald á eignasafni Reykjavíkurborgar  þ.e. húseignum, samgöngumannvirkjum og opnum svæðum. Skrifstofunni  er skipt upp í fjórar deildir; frumathuganir mannvirkja, byggingadeild, gatnadeild og deild opinna svæða.  

Á skrifstofunni fer fram vinna við frumathuganir vegna mannvirkjagerðar sem og forsagnar- og greiningarvinna. Skrifstofan gerir kostnaðar- og framvinduáætlanir, sér um útboðsgerð og samninga, stýrir hönnun og framkvæmd verkefna auk þess að hafa eftirlit með verklegum framkvæmdum. Skrifstofan sér einnig um allt viðhald eigna borgarinnar.

Skrifstofa borgarlandsins

Skrifstofa borgarlandsins sér um allan daglegan rekstur og umhirðu á borgarlandinu og fer með hlutverk veghaldara í Reykjavík. Verkefni skrifstofunnar er rekstur hverfastöðva gatnamála og verkbækistöðva garðyrkju.

Meginverkefnin eru vetrarþjónusta, garðyrkja, umsjón með útmörk Reykjavíkur, grassláttur, hreinsun á borgarlandinu, umferðarljós, umferðarskilti, gatnalýsing, rekstur á strætóskýlum í eigu borgarinnar, umhirða opinna svæða, útgáfa afnotaleyfa á borgarlandinu og eftirlit með þeim, götu- og torgsala og veghald vegna viðburðar í borgarlandinu.

Skrifstofa umhverfisgæða

Á skrifstofunni eru tvær starfseiningar; náttúra og garðar og umhverfis- og úrgangsstjórnun.  Á skrifstofunni fer fram stefnumótun, gerð forathuganna og forsagna varðandi garða, græn svæði, gróður og leiksvæði.

Skrifstofa umhverfisgæða sinnir umhverfis- og náttúruvernd og vinnur að umhverfisstjórnun í borginni og rekstri borgarinnar. Grasagarður, Vinnuskóli, sorphirða Reykjavíkurborgar, Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar og Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar heyra undir skrifstofuna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem fer með hollustuhátta-, matvæla- og mengunarvarnareftirlit í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, í umboði heilbrigðisnefndar, fer með stjórnsýsluleg málefni hunda og hundahalds innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sbr. lög nr. 7/1998 og samþykkt um hundahald í Reykjavíkurborg, og framfylgir þeim samkvæmt umboði frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.

Heilbrigðiseftirlitið gefur út starfsleyfi fyrir allan starfsleyfisskyldan atvinnurekstur og sinnir reglubundnu eftirliti með honum, annast skráningu og eftirlit með atvinnurekstri sem er skráningarskyldur og tekur á móti tilkynningum og hefur eftirlit með atvinnurekstri sem er tilkynningarskyldur. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skiptist í deildir matvælaeftirlits og umhverfiseftirlits og einingu vöktunar.

Skipurit