Færanleg matvælastarfsemi

Undir færanlega matvælastarfsemi falla eiginlegir matsöluvagnar, önnur sölustarfsemi með matvæli á hjólum, sölubásar með matvæli og matvælamarkaðir.

Almenn skilyrði

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur samþykkt almenn skilyrði fyrir færanlega matvælastarfsemi:

Starfsleyfi

Færanleg matvælastarfsemi er starfsleyfisskyld hjá Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.  

Ef rekstraraðili hefur lögheimili í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur þarf hann að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  

Í umsókn um starfsleyfi þarf að gera ítarlega grein fyrir starfseminni, m.a. hvaða matvæli á að bjóða upp á, lagerhúsnæði, matvælaöryggiskerfi og fleira. Sjá nánar í almennum skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi.

Leyfi til götu- og torgsölu á borgarlandi

Ef ætlunin er að reka færanlega matvælastarfsemi á borgarlandi verður að liggja fyrir leyfi til götu- og torgsölu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.  Ef rekstraraðilinn er með lögheimili í Reykjavík verður vilyrði um götu- og torgsöluleyfi að liggja fyrir áður en sótt er um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  

Ef rekstraraðili er með lögheimili í öðru sveitarfélagi þarf hann samt sem áður að sækja um götu- og torgsöluleyfi en honum nægir að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um starfsemina og samhliða afhenda afrit af gildu starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðiseftirliti. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur metur hvort gildandi starfsleyfi sé í samræmi við starfsemina sem tilgreind er í umsókn um leyfi til götu- og torgsölu.  

Ef nauðsyn krefur fer Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að rekstraraðili sæki um tímabundið starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eða gefur neikvæða umsögn um götu- og torgsöluleyfi.

Vakin er athygli á að kennitala umsækjanda um götu- og torgsöluleyfi verður að vera sú sama og skráð er á umsókn um starfsleyfi.