Á kortasíðunni sem opnast þegar farið er inn í Borgarvefsjá, eru þrír hnappar í efra, vinstra horni: “Opna Valglugga”, “Kort” og “Loftmynd”.

Hægra megin, ofan á kortrammanum, er tólastika, með níu hnöppum: “Heim”, “Hliðra”, “Leita”,“Þysja”, “Mæla”, “Geymsla”, “Prenta”, “Meira” og “Hjálp”.

Hægra megin, efst á sjálfu kortinu, eru sjö bláleitir smáhnappar. Fjórir þeirra mynda kross og eru til þess að færa kortið í smáskrefum upp, niður og til beggja hliða. Í miðju krossins er lítt áberandi hnappur sem er til að endurteikna kortið. Hann má einnig nota til að kalla aftur fram rauða heimilisfangapunktinn, en hann hverfur ef þysjað er eftir að heimilisfang hefur verið valið. Neðan við þessa hnappa eru tveir þysjunar­hnappar (zoom) sem þysja kortið inn (+) eða út (-) í allstórum stökkum.

Hnapparnir: “Opna Valglugga”, “Kort” og “Loftmynd”:

Ef smellt er á “Opna Valglugga” sprettur upp gluggi með ölllum upplýsingaþemum sem tiltæk eru á hverjum tíma. Þessi þemu eru útskýrð hér á eftir. Þemun er hægt að láta birtast með því að haka í gátreiti framan við viðkomandi þemanöfn. Með því að slökkva á glugganum birtast völdu þemun í kortglugganum þegar búið er að þysja (“zoom”) hæfilega mikið inn í kortið.

Upplýsingar úr tilteknu þema fást síðan með því að smella fyrst á upplýsingahnappinn “Meira” (2. frá hægri í tólastikunni), þá breytist bendillinn í hönd með útréttum vísifingri, og benda svo með þessum vísifingri á það atriði á valda staðnum sem menn vilja sækja sér upplýsingar um, t.d. lóð, hús, heitavatnsæð o.s.frv. Upplýsingarnar birtast þá í rauðum glugga, sem hægt er að grípa í og færa til og slökkva svo á með þar til gerðum rauðum x-hnappi efst til hægri á glugganum. Neðst í glugganum er boðið upp á að “geyma staðsetningu”. Ef smellt er á þann hnapp kemur lítill gluggi þar sem heiti staðarins er skráð, t.d. götunafn og húsnúmer eða annað tiltækt. Í síðarnefnda glugganum er svo hnappurinn “Geyma staðsetningu” sem smellt er á. Þá fer staðsetningin í sérstaka geymslu sem síðar er hægt að komast í með hjálp hnappsins “Geymsla” (4. frá hægri í tólastikunni). Ef smellt er á hann kemur lítill gluggi með lista yfir allar þær staðsetningar sem menn hafa sett í geymsluna. Með því að merkja í sérstakan gátreit framan við tiltekna staðsetningu og smella á hnappinn Sækja færist miðja kortgluggans á viðkomandi stað og á staðinn er kominn rauður depill. Á glugganum er einnig hnappurinn Eyða, sem eyðir valinni staðsetningu. Depillinn fer næst þegar þysjað er inn eða út.

Hnapparnir “Kort” og “Loftmynd” víxla á milli venjulegra korta (“vector”-korta) eins og upphafskortsins og hnitréttra loftmynda. Sjálfgefnar eru nýjustu loftmyndir, venjulega frá síðasta sumri ef búið er að ganga frá þeim. Í valglugganum er hægt að velja eldri myndir eins og ártölin segja til um.

Hnappar á tólastikunni:

“Heim” framkallar upphafskort Borgarvefsjár.

“Hliðra” gefur kost á að færa kortið til í kortglugganum með hjálp örvakrossins.

“Leita” finnur valið heimilisfang á kortinu.Í gluggann sem opnast skráir notandi heimilisfang. Þegar byrjað er að slá inn götunafn birtast tillögur um nokkur heimilisföng sem hægt er að velja, en ef rétta heimilisfangið er ekki þar á meðal, er lokið við að slá það inn í fullri lengd. Þegar þessu er lokið þysjast kortið sjálfkrafa upp með valið heimilisfang á miðju korti og rauðum depli á viðkomandi lóð. Í glugganum gefst kostur á að “Geyma staðsetningu” og sé það gert kemur upp rauður smágluggi með fullu heimilisfangi og póstnúmeri í efri reit og hnappnum “Vista heimilisfang” í neðri reit. Sé smellt á hann fer heimilisfangið í geymsluhólfið, sjá hnappinn “Geymsla” að framan.

“Þysja” gefur kost á að þysja upp kortið eins og hentar best. Við notkun hans breytist bendillinn í lítinn kross. Til að hafa fulla stjórn á staðsetningu og stærð nýja kortgluggans er best að smella á valinn stað í jaðri nýja svæðisins, halda vinstri músarhnappi niðri og draga skáhallt í gagnstætt horn nýja kortgluggans. Einnig er hægt að smella einu sinni á einhvern stað en þá hefur notandi ekki stjórn á þysjuninni.Loks má nota hjólið á músinni en þá þysjast inn eða út í stökkum, eins og þegar bláleitusmáhnapparnir efst til hægri á kortinu (+ eða -) eru notaðir.

“Mæla” gefur kost á að mæla vegalengdir eða flatarmál. Í valglugga sem opnast er valið á milli þessara tveggja kosta.

“Geymsla”, sjá skýringar að framan.

“Prenta” gefur kost á að prenta kortið út.Á glugganum sem kemur upp er hnappurinn “Prentsýn”.Ef smellt er á hann kemur nýr vafragluggi með kortinu sem á að prenta út. Í þessum glugga eru ýmisleg tól til að stýra útprentuninni, m.a. að velja annan prentara eða fá "landscape" útprentun í stað "portrait", sjá ör til hliðar við prentaratáknið.

“Meira”, sjá skýringar að framan.

“Hjálp” veitir aðgang að þessu skjali.

Lýsing á einstökum þemum í efnisflokkum vallistans:

Á döfinni:

Í þessum efnisflokki eru birtar ýmsar landupplýsingar sem hafa tímabundið gildi, eins og staðsetningu áramótabrenna, sem nú er þarna inni, mörk kjörsvæða hverju sinni og staðsetningu kjörstaða eða leiðir í Reykjavíkurmaraþoni svo dæmi séu tekin.

Borgarskipting:

Í þessum flokki verða sýndar ýmsar skiptingar borgarinnar, en þær eru fjölmargar. Nú eru þarna inni Hverfaskipting, sem er hin opinbera skipting borgarinnar í 10 borgarhverfi, Hverfahlutar, en það er skipting eftir endingum götunafna, eins og t.d. Skjól, Melar, eða eftir örnefnum eins og t.d. Árbær, Selás. Því næst koma Grunnskólahverfi, sem eru "umdæmi" grunnskólanna, þá Póstnúmer, skipting í póstnúmerasvæði og loks Staðgreinar, skipting borgarinnar eftir 4 stafa staðgreini. Undir tveimur framangreindra skiptinga, Hverfaskipting og Grunnskólahverfi er hægt að fá fólksfjölda og aldursdreifingu íbúa á hverjum tíma. Fleiri skiptingar eru til í gagnagrunni LUKR, sem kunna að verða settar inn má nefna þjónustusvæði Gatnamálastofu og afmörkun deiliskipulagssvæða. Loks má benda á “byggðasvæði” og “byggðareiti” Svæðisskipulags undir flokknum "Svæðisskipulag".

Götur og stígar:

Eins og nafnið gefur til kynna er í þessum flokki ýmislegt sem varðar götur borgarinnar og stígakerfi. Þarna eru upplýsingar tengdar miðlínum gatna á völdum götuköflum, hvaða götur eru upphitaðar, um bæði malbikaða stíga og einnig hvar eru lagðar gönguslóðir utan byggðar, málaðar línur á malbiki og loks alls kyns málaðar merkingar á malbiki, s.s. örvar og stöðvunarstrik.Að öðru leyti skýrir þetta sig sjálft.

Hús og lóðir:

Í þessum flokki er ýmislegt sem varðar hús eða lóðir sérstaklega. Í þemanu Hús fæst landnúmer valinnar lóðar og matshlutanúmer bygginga á henni, byggingarár o.fl. Með þemað Húsnúmer valið fæst viðeigandi götuheiti, auk húsnúmers og póstnúmers, með þemað Íbúar valið fæst íbúafjöldi hvers húss, Útlínur húsa og Lóðamörk haldast sýnileg ef loftmyndir eru lagðar ofan á kortið, sjá síðar, með þemað Lóðir valið fæst landnúmer og staðgreinir hverrar lóðar, með Mæliblöð valið (einnig nefnd lóðablöð) fást skönnuð mæliblöð þar sem þau eru til, tilsvarandi með Hæðarblöð og loks með þemað Lausar lóðir valið fæst vitneskja um lausar lóðir til úthlutunar.

Lagnir:

Þarna eru birtar upplýsingar um lagnir, borholur o.fl. sem borgin eða Orkuveitan ber ábyrgð á auk lagna Mílu ehf (áður Símans). Hægt er að teikna lagnir á kortið auk þess að benda á einstaka lagnir og fá nánari upplýsingar um þær í sérstakan upplýsingaglugga. Athugið að ekki er leyfilegt að ráðast í framkvæmdir eingöngu á grundvelli upplýsinga úr Borgarvefsjá heldur skal haft samband við hlutaðeigandi stofnanir/fyrirtæki, sjá hnappinn: "Um notkun korta úr Borgarvefsjá" á textaforsíðu Borgarvefsjár.

Menningarminjar:

Þarna er að finna ýmsar upplýsingar um friðun eða verndun bygginga og gatna og um gömul hús, einnig um útilistaverk.Fornleifar í Laugarnesi eru þarna einnig og ýmis fróðleikur um þær, en smám saman munu bætast við fornleifar víðar í borgarlandinu. Pdf-skjöl veita nánari upplýsingar bæði um fornleifar og friðun.

Myndefni:

Í þessum flokki eru myndkort (orthomyndir) en þau eru hnitsettar myndir unnar eftir loftmyndum, teknum annars vegar af þéttbýli úr 850 til 950 m hæð ("Lágflugsmyndir), og hins vegar af stórum landsvæðum á höfuðborgarsvæðinu úr 9200 m hæð árið 2000 og 3700 m hæð árið 2005 ("Háflugsmyndir") og úr 2500 m hæð árið 2005. Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar á bæði myndkortin og loftmyndirnar og þar með útgáfu- og dreifingarrétt þeirra. Athugið að Útlínur húsa, Lóðamörk og Lagnir sjást ofan á myndkortinu en allt annað hverfur undir það. Lágflugsmynda eru endurnýjaður árlega milli- og háflug á nokkurra ára fresti. Elstu lágflugsmyndirnar (Árbær-Breiðholt og nágr.) eru frá árinu 2000. Hæðargrundvöllur húsa og myndkorta er yfirborð jarðar. Þar eð þök húsa standa þó nokkuð ofan jarðaryfirborðs hliðrast þau örlítið til í uppréttum loftmyndum, en af þeim sökum falla þakfletir á mynd ekki alltaf saman við útlínur húsa eins og þær koma úr húsasafni LUKR. Hlutir við jarðaryfirborð, s.s. götukantar eiga aftur á móti að falla ofan í myndirnar. Hringmyndir: Nú eru þarna inni s.k "hringmyndir" (panorama) eða 360 gráðu myndir sem teknar voru árið 2000 af Landmati ehf fyrir Reykjavíkurborg. Þegar þær eru valdar birtast þær sem punktar á kortinu sem sýna staðsetningu staða þar sem eknar hafa verið. Svo þarf að þysja inn og smella á mynd til að hún birtist. Nauðsynlegt er að hafa forritið Quick Time til að sjá hringmyndir, en það fæst ókeypis á Netinu.

Náttúrufar:

Þarna er s.k. “grunnmynd”, en hún hefur að geyma ýmsar viðbótarupplýsingar sem ekki fást annarsstaðar, s.s. um girðingar, skurði og aðstæður inni á lóðum, upplýsingar um hitafar á nokkrum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu, hæðarlínur með 1 m hæðarbili í þéttbýli, jarðskjálftaupplýsingar, upplýsingar um úrkomu, vatnsverndarsvæðin og loks upplýsingar um vindafar (“vindrósir”).

Saga og þróun:

Sýnd eru lögbýli 1703 í núverandi borgarlandi, þó ekki á Kjalarnesi (byggt að mestu á bókinni Reykjavík, Sögustaður við Sund, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf 1989), þá er ógegnsætt kort herforingjaráðsins danska af Reykjavík skv. mælingu 1902, birt 1903, kort af Reykjavík 1947, loftmynd af vesturhluta borgarinnar frá 1954, kortið frá 1902 í gegnsærri útgáfu undir heitinu "Samanburður við 1902" sem gefur kost á að bera gömlu byggðina saman við núverandi byggð, þá kemur Strönd 1900, 2024, sem sýnir ströndina á annars vegar fyrrnefndu korti frá 1902 og hins vegar væntanlega strönd 2024 skv. núgildandi Aðalskipulagi, loks þróun lögsögu borgarinnar frá stofnun kaupstaðar í Reykjavík 1786.

Svæðisskipulag:

Höfuðborgarsvæðinu er skipt í 230 byggðareiti og er upplýsingar um hvern reit að finna í þessum flokki. Undirflokkar eru þessir: Fjöldi fyrirtækja, Gólfflötur fyrirtækja, Húsaupplýsingar og Aldursdreifing íbúa. Í fyrsta flokknum er gefinn fjöldi fyrirtækja á hverju hinna 11 starfsemissviða, sem skipulagið fjallar um og í öðrum flokknum heildargólfflötur flokkaður á sama hátt. Í húsaupplýsingunum er gefinn heildargólfflötur og rúmmál húsa í hverjum byggðareit, fasteigna-, brunabóta- og lóðamat, fjöldi íbúða og gólfflötur íbúða. Í síðasta flokknum eru heildaríbúatala og íbúatölur fyrir hvern aldursflokk, skv. tiltekinni aldursskiptingu. Loks er grófari skipting, s.k. “byggðasvæði” sem gefur framangreindar upplýsingar meira samanteknar.

Íþróttir:

Hér má sjá staðsetningar á íþróttahúsum og sundlaugum auk íþróttaaðstöðu af ýmsu tagi.

Umferð og aðgengi:

Í þessum flokki er ýmislegt sem varðar umferðar- og aðgengismál:Aðgengi fatlaðra að þjónustustofnunum borgarinnar, einstefnugötur, gönguljós, götumálning, götumerkingar, hámarkshraði, hraðahindranir, umferðartalningar í punktum eða sniðum og umferðarljós.

Þjónusta:

Undir þessum flokki er hægt að fá upplýsingar um ýmsa þjónustu sem borgin veitir. Þær byggingar sem hýsa viðkomandi þjónustu fá sérstakan lit og hægt er að fá frekari upplýsingar um þær í sérstakan upplýsingaglugga. Í mörgum tilfellum er hægt að komast þaðan inn á vefsíður viðkomandi stofnana, t.d. skóla.

Þungamiðjur búsetu:

Þungamiðjurnar eru tvær, önnur fyrir Höfuðborgarsvæðið, hin fyrir Reykjavík.Miðjurnar eru reiknaðar út árlega, í byrjun apríl, út frá staðsetningarhnitum heimila í borginni, þar sem tekið er tillit til hvers heimilismanns. Þungamiðjan er meðaltal hnita allra íbúa. Sjá nánar >>>

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

5 + 6 =