Verkefni og vinnuvernd

Við leggjum áherslu á að starfsumhverfið sé hvetjandi og gefandi og vinnum að því með markmiðasetningu með nemendum, auk þess sem þeir fá umsagnir um sín störf í lok sumars. 

Verkefnin

Vinnuskólinn er útiskóli og flest öll verkefni skólans snúast um umhirðu gróðurs og beða víðs vegar í borgarlandinu og á stofnanalóðum. Málningarverkefni eru einkum hugsuð fyrir nemendur með gróðurofnæmi.

Helstu verkfæri sem notuð eru í starfi eru ýmis smá handverkfæri til beðavinnu, skóflur, hrífur og hjólbörur auk sláttuvéla og -orfa. 

Vinnuskólinn vekur athygli á því að áfram verður haldið með það verkefni að auka fjölbreytni starfa hjá nemendum úr 10. bekk. Hluta þeirra nemenda sem hafa áhuga á að starfa við annað en garðyrkju og umhirðu í hefðbundnu hópastarfi skólans mun bjóðast að starfa við m.a. aðstoð á leikskólum, inni á söfnum og á fleiri starfsstöðum borgarinnar. 

Ekki er ljóst hversu mikið framboð verður af störfum eða hver eftirspurnin verður en skráningartími mun ráða því hverjir veljast í þessi verkefni.

Markmið

Markmið með stofnun Vinnuskólans árið 1951 voru þau að tryggja að unglingar í borginni hefðu þroskandi vinnu yfir sumartímann og að ala með þeim almennar dyggðir eins og reglusemi, stundvísi og ábyrgðartilfinningu. Þessi markmið hafa lítið breyst í gegnum tíðina.

Öryggismál, áhættumat og vinnuvernd

Í reglugerð um vinnu ungmenna undir 18 ára aldri er kveðið á um að leggja beri áherslu á að öryggi og andlegu og líkamlegu heilbrigði ungmenna sé ekki hætta búin. Jafnframt að vinnan hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska. 

Vinnuskólinn vinnur eftir áhættumati þar sem tilgreindar eru þær hættur sem mögulega eru fyrir hendi, bæði með tilliti til álags og líkamsbeitingar sem og vinnu með tæki eða við sérstakar aðstæður. Hjálpar þetta til við að stuðla að færri slysum og meiðslum.

Nemendur fá jafnframt þjálfun í beitingu verkfæra og tækja og leiðbeiningar varðandi líkamsbeitingu.

  • Allir nemendur sem vinna með sláttuvélar og- eða orf þurfa að klæðast viðeigandi öryggisbúnaði.
  • Í þeim tilvikum sem nemendur vinna nálægt umferð klæðast þeir vestum með endurskini.
  • Sérstök viðbragðsáætlun er til varðandi sprautunálar sem finnast í beðum borgarinnar eða á víðavangi.

 

Slys

Slys er nokkur á hverju ári en fæst þeirra alvarleg. Flest tengjast þau íþróttaiðkun eða leikjum í matar- eða kaffitímum. Vinnuskólinn leggur metnað í að skapa nemendum öruggt vinnuskjól. 

Teikninga af skokkara á hlaupum

Skóla- og starfsreglur

Skóla- og starfsreglum er ætlar að stuðla að festu og vellíðan nemenda í starfi. Í vinnuskóla Reykjavíkur gilda eftirfarandi reglur: 

  • Nemendur fara eftir fyrirmælum leiðbeinanda og sýna samstarfsfólki og öðrum kurteisi og tillitssemi í starfi
  • Nemendur eru stundvísir
  • Nemendur skulu mæta til vinnu klæddir eftir veðri og með nesti við hæfi
  • Nemendur bera ábyrgð á eigin eigum í vinnutíma
  • Farsímanotkun er óheimil nema með samþykki leiðbeinanda
  • Vinnuskólinn er tóbakslaus vinnustaður

Aðgerðir vegna brota á reglum

Verði misbrestur á að nemandi fylgi reglum Vinnuskólans er hann áminntur. Verði áfram misbrestur á hegðun nemanda er samband haft við foreldra og er skólanum heimilt að vísa nemendum úr starfi, tímabundið eða varanlega eftir eðli brots. 

Óásættanleg hegðun er

  • Óhlýðni, ókurteisi, óstundvísi, leti og kæruleysi
  • Notkun tóbaks
  • Skemmdarverk
  • Að veitast að öðrum með meiðingum eða hættulegu atferli