Um Norðlingaskóla
Starfs- og kennsluhættir Norðlingaskóla byggja á hugmyndum um skóla án aðgreiningar og áherslum Menntastefnu Reykjavíkur þar sem lögð er áhersla á samkennslu, einstaklingsmiðun og teymisvinnu starfsfólks.
Hverjum námshópi er stýrt af kennarateymi; umsjónarkennurum ásamt sérkennara/þroskaþjálfa/félagsráðgjafa, sem hafa samráð um skipulag á námi og kennslu og almennri velferð nemenda í skólanum. Eftirfarandi árgöngum er kennt saman: 1.-2. bekk, 3.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.
Auk þess starfa teymi kennara sem stýra list- og verkgreinum og íþróttakennslu. Þá vinna teymi frístundastarfsmanna, mötuneytis- og ræstingafólks sem og stjórnenda við skólann. Í Norðlingaskóla er lögð áhersla á öfluga skólaþróun, mikla samvinnu milli kennara og almennra starfsmanna auk þess sem rík áhersla er lögð á samvinnu meðal nemenda en hún er talin stuðla að auknum árangri nemenda bæði náms- og félagslega. Þá leggur skólinn ríka áherslu á gott samstarf við foreldra nemenda.
Fyrstu sex starfsárin fór starf skólans fram í færanlegum skólastofum, skálum, sem reistir voru í útjaðri væntanlegrar skólalóðar. Bætt var við þetta færanlega húsnæði eftir því sem nemendum fjölgaði. Haustið 2011 hóf skólinn starfsemi í hluta af nýju skólahúsi (aðalbyggingu). Skólahús (aðalbygging) Norðlingaskóla rúmar í dag 450 grunnskólanemendur. Auknir möguleikar á fjölbreyttu skólastarfi jukust til muna við frágang skólalóðar sem lauk að mestu í janúar 2013. Þá mynduðust góðar aðstæður til útiveru, útináms og fjölbreyttari kennsluhátta t.d. á sviði íþróttakennslu og frístundastarfs. Hluti af starfi skólans fer fram í Björnslundi en þar hefur skólinn aðstöðu ásamt leikskólanum Rauðhóli.