Úlfarsárdalur

Útivistarsvæði

Úlfarsárdalur
113 Reykjavík

""

Um dalinn

Úlfarsárdalur er stórt útivistarsvæði sunnan Úlfarsfells. Úlfarsá fellur um dalinn í vesturátt úr Hafravatni til sjávar í Blikastaðakró. Dalurinn er langur og breiður og þar er mikið undirlendi, einkum nálægt ánni. Samnefnd íbúðabyggð liggur í norðvesturhluta dalsins en sunnan dalsins er Grafarholt. Notkun svæðisins til útivistar fer ört vaxandi. Gróðrarstöðin Lambhagi er vestast í dalnum og setur mikinn svip á svæðið.

Grunnupplýsingar

Samgöngur:
Strætó: Leiðir 18-26. Stöðvar: Reynisvatnsvegur – Katrínarlind - Úlfarsbraut

Þar er að finna: Göngustígar - Hjólastígar - Íþróttasvæði - Skógrækt - Landbúnaður - Fuglalíf - Verndarsvæði

Gróður og dýralíf

Graslendi er ríkjandi gróður í Úlfarsárdal, einkum á bökkum Úlfarsár. Ræktuð tún eru þar mjög áberandi, bæði gömul tún og tún sem enn eru nýtt til grasnytja eða sem beitarland. Votlendi fannst víða á svæðinu á árum áður en hefur að mestu verið ræst fram og breitt í tún en þó finnast enn mýrlendisblettir á stöku stað og er þá óvenju mikið um flóagróður. Skógræktarsvæði er norðan Úlfarsár í grennd við sumarbústaðasvæði. Meðfram Úlfarsá er mikið um gulvíði enda engin beit á því svæði. Stórar blómplöntutegundir eins og mjaðjurt, fjalldalafífill og vallhumall eru einnig áberandi á bökkum Úlfarsár.

Úlfarsá er laxveiðiá og gengur í ána bæði lax og urriði. Bitmý er algengt við ána og er mikilvæg fæðulind fyrir fiska og fugla. Fuglalíf í Úlfarsárdal er fjölbreytt, einkum við ána en einnig eru þar varplönd fyrir mólendis- og votlendisfugla. Grágæsir, stokkendur og urtendur eru allt algengar varptegundir á votlendissvæðum nálægt Úlfarsá. Algengar mófuglategundir eins og heiðlóa, hrossagaukur, spói, stelkur og þúfutittlingur verpa víða á svæðinu einkum í austurhluta þess. Rjúpur verpa víða á holtum umhverfis ána, einkum fjarri byggð. Þá er mikið um stara og skógarþresti eins og víða annars staðar í Reykjavík. Minkar eru algengir Í Úlfarsárdal enda Úlfarsá mikil fæðukista fyrir minkinn.

Úlfarsá og bakkar hennar eru á Náttúruminjaskrá og falla undir hverfisvernd Reykjavíkurborgar.