Tröllahvönn í Reykjavík

Tröllahvannir eru stórvaxnar, ágengar plöntur sem taka yfir annan gróður og geta valdið brunasárum. Þess vegna vill Reykjavíkurborg takmarka útbreiðslu þeirra. Hér verður farið yfir hvernig hægt er að þekkja þessar plöntur, hver hættan er og hvernig er best að losna við þær. Þrjár tegundir af tröllahvönn finnast í Reykjavík; bjarnarkló, tröllakló og húnakló.
Ef þú veist um tröllahvannir í borgarlandinu máttu endilega senda ábendingu í gegnum ábendingavef borgarinnar.
Hvernig þekki ég tröllahvannir?
Tröllahvannir eru stórgerðar, fjölærar plöntur sem líkjast til dæmis ætihvönn og geithvönn en eru yfirleitt mun stærri. Þær hafa verið vinsælar í görðum í gegnum tíðina en núna er óheimilt að flytja þær til landsins og rækta.
Þrjár tegundir
Þrjár tegundir tröllahvanna finnast í Reykjavík:
Bjarnarkló (Heracleum mantegazzianum) er algengust, er venjulega með einn, blómstöngul og getur orðið þrír metrar á hæð. Blöðin eru afar stórgerð og tvísagtennt.
Tröllakló (Heracleum persicum) er sjaldgæfari og fíngerðari en Bjarnarkló en verður líka yfir tveggja metra há. Hún myndar gjarnan fleiri en einn blómstöngul. Blöðin eru margskiptari en hjá bjarnarkló og tennur blaðrandarinnar eru ávalar. Tröllakló getur verið breytileg í útliti og því er ekki alltaf auðvelt að aðgreina hana frá bjarnarkló.
Húnakló (Heracleum sphondylium) er fíngerðust af tröllahvönnunum og er oft talsvert minni. Hún er algengust í Vesturbæ Reykjavíkur en finnst einnig í Grafarvogi og Breiðholti.

Hvernig er best að losna við tröllahvannir?
Hægt er að fjarlægja tröllahvannir á öruggan hátt. Mikilvægast er að forðast að safi úr plöntum snerti húð, með því að nota hanska og föt sem hylja líkamann. Hlífðargleraugu eða andlitshlíf er æskileg og bráðnauðsynleg ef plantan er mjög stór. Best er að klippa plönturnar varlega niður og grafa upp með rót, eða stinga á ská í gegnum rótina.
Ekki er mælt með notkun sláttuorfa þar sem þau dreifa plöntusafanum. Forðast skal að velja sólríkan dag því sólarljós eykur hættuna á bruna ef plöntusafinn berst á húð. Mælt er með að klippa blómmyndanir áður en þær mynda fræ ef ekki er farið í að fjarlægja plönturnar alveg. Fylgjast þarf vel með vaxtarstað plöntunnar næstu ár eftir að plantan er fjarlægð.
Hver er hættan?
Safinn í stönglum og blöðum tröllahvanna er eitraður. Í honum eru efni sem nefnast fúranókúmarín og eru í háum styrk í tröllahvönnum.
Þau virkjast í sólarljósi og geta valdið bruna á húð og skilið eftir sig varanleg ör. Einnig getur safinn valdið sjónskerðingu ef hann berst í augu.
Ef plöntusafi kemst í snertingu við húð
Komist safinn í snertingu við húð getur myndast bruni, sérstaklega í sól. Snerting við safann er sársaukalaus í fyrstu en bruninn hefst um 15 mínútum síðar. Flestir eru viðkvæmastir 30 mínútum til tveimur klukkustundum eftir snertingu. Eftir um sólarhring verður vart við roða á húð og síðar koma fram bólgur eða blöðrur á húð. Bruninn getur valdið varanlegu öri og svokölluðu ljósertnisexemi sem getur verið viðkvæmt fyrir sólarljósi sem árum skiptir.
Mikilvægt er að skola sýkta svæðið vel, þvo með mildri sápu og skýla frá sól í að lágmarki tvo sólarhringa.
Hvað á að gera við uppskorna plöntu?
Plantan er sett í plastpoka og skilað til dæmis á endurvinnslustöð Sorpu í garðaúrgang. Mikilvægt er að láta starfsfólk vita að þarna sé planta sem geti valdið bruna á húð.