Tónlistarborgin - Samstarfsverkefni

 

Samstarfsverkefni

Tónlistarborgin styður við ýmis minni tónlistartengd verkefni allt árið um kring, hvort sem það er stuðningur við tónlistarhátíðir, tónlistartengdar ráðstefnur, staka tónlistarviðburði eða tónlistartengda fræðslu.

 

Vinnustofur með tónlistarhátíðum

Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN og Íslandsstofa standa fyrir árlegri, lokaðri vinnustofu fyrir skipuleggjendur íslenskra tónlistarhátíða.

 

Með vinnustofunni er leitast eftir því að skapa vettvang fyrir aðstandendur íslenskra hátíða til að kynnast og koma saman, deila þekkingu, spyrja spurninga og fá upplýsingar um stuðningsmöguleika.

 

Öll sem koma að skipulagningu íslenskra tónlistahátíða eru velkomin og þátttakan er gjaldfrjáls.

Hljómsveit á sviði á Iceland Airwaves.

Hitakassinn

Tónlistarborgin Reykjavík í samstarfi við Hitt Húsið og ÚTÓN bjóða árlega því listafólki sem kemst áfram í úrslit á Músíktilrauna til þátttöku í Hitakassanum.

Hitakassinn er námskeið um tónlistariðnaðinn ætlað til valdeflingar þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í tónlistarsenunni. Námskeiðið byggir á skemmtilegum gestafyrirlesurum úr íslensku tónlistarlífi, pallborðsumræðum og hagnýtum verkefnum. Ása Dýradóttir verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar leiðir námskeiðið Hitakassann, en hún er með um 20 ára reynslu af tónlistarbransanum innan sem utan landsteinanna, bæði sem listamaður og af störfum í tónlistariðnaði.

Þátttakendur fá aðstoð við markaðssetningu, kynningu og gerð kynningarpakka, sem og hjálp við skilgreiningu á markhóp sínum, leiðslu í fjármálarekstri tónlistartengdra verkefna, úrlausn tækniatriða með fagfólki og fleira. Einnig verður mikil áhersla lögð á að efla tengslanet þátttakenda innan íslenska tónlistariðnaðarins með þekktum gestafyrirlesurum.

Í lok Hitakassans er svo blásið til tónleika þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að spila fyrir lykilfólk innan íslenska tónlistariðnaðarins og láta reyna á það sem kennt var á námskeiðinu.

Korda Samfónía

Korda Samfónía er samfélagslegt tónlistaverkefni sem kalla má óhefðbundnustu hljómsveit landsins, þar sem meðlimir sveitarinnar eru ýmist sprenglært og starfandi tónlistarfólk, nemendur úr Listaháskóla Íslands og svo fólk sem er á mismunandi stöðum í endurhæfingarferli, sum með reynslu af tónlistarsköpun en önnur ekki. Stórsveitin skipar 35 manns á öllum aldri með ólíka bakgrunna en sameiginlegt markmið; að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar og nýta hana sem valdeflandi kraft í líf sitt.

 

Til þess að fólki vegni vel í lífinu þarf það að upplifa sig sem gjaldgenga og virka meðlimi samfélagsins sem hlustað er á. Korda einkennist af jafnrétti og stuðningi í skapandi andrúmslofti þar sem fólk vinnur saman, styrkist og vex.

 

Kordu Samfóníu er stýrt af Sigrúnu Sævarsdóttur-Griffiths og breska framleiðslufyrirtækinu hennar Metamorphonics og er verkefnið er stutt af Tónlistarborginni Reykjavík, starfsendurhæfingarstöðvum, Listaháskóla Íslands og Hörpu.

Simfoníuhljómsveit á sviðinu í Eldborgarsal Hörpu.

Firestarter / Innovation Waves

Tónlistarborgin og ÚTÓN og Icelandic Startups hafa stutt við nýsköpun í íslenskum tónlistarbransa gegnum verkefni eins og tónlistartengda viðskiptahraðalinn Firestarter.

Árið 2023 var hraðlinum breytt í vinnusmiðjuna Innovation Waves í samstarfi við Nýsköpunarviku, þar sem lögð er áhersla á að innleiða, þróa og framkvæma nýjar viðskiptahugmyndir í íslensku tónlistarumhverfi.

Elskum Plötubúðir

Elskum Plötubúðir er lifandi tónlistarveisla á vegum Tónlistarborgarinnar og plötubúða miðbæjarins; 12 Tónar, Smekkleysa, Lucky Records og Reykjavík Record Shop.

 

Elskum Plötubúðir fer fram tvisvar á ári, síðsumars í samstarfi við Sumarborgina, og sem hluti af off-venue dagskrá á Iceland Airwaves.  

 

Markmiðið með verkefninu er að varpa ljósi á mikilvægu sögu og starfsemi plötubúðanna okkar og blása lífi í miðbæinn, en uppsetning á Elskum Plötubúðir miðar að því að gestir geti labbað milli plötubúðanna í rólegheitum til að fylgja dagskránni.

Hljómsveit spilar í 12 Tónum.

Listamannadvöl

Tónlistarborgin Reykjavík heldur utan um einu tónlistartengdu skiptivinnudvöl landsins, í samstarfi við borgina Nantes í Frakklandi og tónlistarklasann Trempo. Árlega tökum við á móti listamanni frá Nantes sem fær aðstöðu í skapandi rýminu Hafnarhaus í þrjár vikur, kemur fram á Iceland Airwaves off venue og á lokatónleikum, heldur vinnusmiðju í Alliance Francaise og fer á bólakaf í reykvískt tónlistarumhverfi. Á móti sendum við íslenskan listamann yfir til Nantes í þriggja vikna vinnudvöl í september ár hvert, þar sem aðilinn tekur sambærilegan þátt í tónlistarumhverfi Nantes borgar og fær íbúð til afnota og aðstöðu í Trempo til vinnu, þar sem allt er til alls hvað varðar tækni og tengiliði.

Vinnudvölin er skipulögð af Tónlistarborginni, en opnað er fyrir umsóknir í marsmánuði ár hvert. Einungis er tekið við umsóknum frá einstaklingum, þar sem vinnudvölin er ekki ætluð hljómsveitum.

Aðrir stuðningsaðilar skiptivinnudvalarinnar eru ÚTÓN, Stef, Franska Sendiráðið á Íslandi, Alliance Francaise, Trempo, L’institut Francais og Nantes borg.

Upprásin

Upprásin er mánaðarleg tónleikaröð tileinkuð grasrót íslensks tónlistarlífs á vegum Tónlistarborgarinnar, Hörpu og Rásar 2.

 

Tónleikaröðin fer fram í Kaldalóni, Hörpu, eitt þriðjudagskvöld í mánuði yfir vetrartímann, frá september til apríl.

 

Markmiðið með tónleikaröðinni er tvíþætt; annars vegar að bæta aðgengi grasrótar og ungs fólks þvert á tónlistarstefnur að tónlistarhúsinu Hörpu og hinsvegar að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra nýja íslenska tónlist beint úr grasrótinni, flutta í kjöraðstæðum í tónlistarhúsi þjóðarinnar.

Kona leikur á saxófón á sviði.

Hafa samband

Ása Dýradóttir verkefnastjóri og tónlistarkona rekur Tónlistarborgina Reykjavík. Þú getur haft samband með að senda tölvupóst á netfangið asa.dyradottir@reykjavik.is

Almennar fyrirspurnir má senda á tonlistarborgin@reykjavik.is