Öldungaráð

Öldungaráð Reykjavíkurborgar starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt fyrir öldungaráð, samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Öldungaráð Reykjavíkurborgar fer með verkefni samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Öldungaráðið fer einnig með verkefni samkvæmt ákvæðum laga 125/1999 um málefni aldraðra.

Öldungaráðið skal vera borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. Ráðið skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið þess.

Öldungaráðið er vettvangur samráðs borgarbúa sem eru 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og borgaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins. Öldungaráðið er ráðgefandi fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar í málaflokknum og stuðlar, í samstarfi við þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar, að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu borgarstofnana til borgarbúa sem eru 67 ára og eldri.

Öldungaráð skal ávallt í störfum sínum fylgja öllum stefnumarkandi og almennum samþykktum borgarstjórnar og borgarráðs.

Öldungaráðið er skipað sjö fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa, Félag eldri borgara tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara, Samtök aldraðra tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara, U3A Reykjavík tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara. Borgarstjórn kýs formann ráðsins en öldungaráðið sjálft kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar

Öldungaráð heldur að jafnaði einn fund í mánuði, annan miðvikudag í mánuði.

Mannréttinda- lýðræðisskrifstofa annast framkvæmd verkefna ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir.

Starfsmaður ráðsins er Elísabet Pétursdóttir, verkefnastjóri: elisabet.petursdottir1@reykjavik.is 

Netfang öldungaráðs: oldungarad@reykjavik.is