Spurt og svarað um Leikskólareikninn
Hér finnur þú algengar spurningar og svör um leikskólareikninn.
Listi spurninga
Hvað er Leikskólareiknirinn?
Leikskólareiknirinn er tól til að skoða áætlaðar biðlistatölur í borgarreknum leikskólum í Reykjavík.
Hvernig virkar Leikskólareiknirinn?
- Veldu fæðingardag barns.
- Veldu hverfi.
- Leikskólareiknirinn reiknar út áætlaða stöðu barnsins á biðlistum í leikskóla í hverfinu sem þú valdir.
- Niðurstaðan er byggð á fæðingardeginum sem þú valdir, umsóknum sem nú þegar hafa borist, fjölda barna sem hætta um haustið til að byrja í grunnskóla og fleiri breytum.
- Niðurstaða er aðeins áætluð tala og gefur ekki loforð um pláss.
Hvað þýðir fyrsta, annað, þriðja, fjórða og fimmta val?
Hægt er að sækja um í fimm leikskólum í einu. Sá leikskóli sem helst er óskað eftir er settur í fyrsta val, næsti í annað val og svo framvegis. Hver leikskóli er með sinn biðlista, svo hvert barn getur verið á allt að fimm biðlistum í einu.
Hvað segja þessar tölur mér?
Leikskólareiknirinn ætti að gefa þér grófa mynd af mögulegri stöðu á biðlistum í borgarreknum leikskólum. Dæmi: Barn er númer fimm á lista í ákveðnum leikskóla. Það þýðir að fjögur börn þurfa að fá pláss í einhverjum leikskóla eða draga umsóknina sína til baka áður en það barn fær pláss í þessum tiltekna skóla.
Það er ekki hægt að lofa því að um endanlegar tölur sé að ræða, því biðlistar geta breyst hratt.
Hvers vegna Leikskólareiknir?
Hingað til hefur fólk þurft að skrá sig inn í Völu og sækja um, hringja í þjónustuver borgarinnar eða í leikskólana sjálfa til að fá þessar upplýsingar. Markmiðið er að vera gagnsæ í upplýsingamiðlun og sýna stöðuna eins og hún er hverju sinni svo að foreldrar og forsjáraðilar geti sjálf flett upp og skoðað biðlistatölur án þess að þurfa að hringja mörg símtöl.
Hvað getur breytt stöðunni minni á biðlista?
Plássum er úthlutað í kennitöluröð og biðlistatölur eru reiknaðar út frá þeim umsóknum sem nú þegar hafa borist. Pláss losna þegar barn sem er á undan þér á listanum samþykkir boð um vistun í einhverjum leikskóla eða dregur umsókn sína til baka. Þú getur færst aftar á biðlistann ef ef eldra barn eða barn með samþykktan forgang sækir um.
Hvað þýðir dálkurinn Börn að útskrifast?
Börn að útskrifast er sá fjöldi barna sem er að hætta í leikskóla til að byrja í grunnskóla. Sú tala er því lágmarksfjöldi plássa sem mun losna um haustið.
Gætu fleiri pláss losnað yfir árið?
Ef barn flytur í annað sveitarfélag eða óskar eftir flutningi milli borgarrekinna leikskóla losnar pláss. Erfitt er að spá fyrir um hvort, hvenær eða hversu mörg pláss losna af þessum ástæðum.
Hvers vegna get ég ekki fengið að vita hvort barnið mitt fái pláss?
Biðlistar breytast hratt og þess vegna er ekki hægt að fullyrða hvort að barni fái pláss eða ekki fyrr en það gerist. Biðlistar breytast meðal annars vegna þess að:
- Foreldrar breyta umsóknum
- Börn fá pláss í einhverjum leikskóla
- Nýjar umsóknir berast
- Barn flytur
- Eldra barn sækir um sem færir yngra barn neðar á lista.
- Eldra barn fær boð sem færir yngra barn ofar á lista.
Af hverju breytast tölurnar? Ég var númer 5 seinast þegar ég skoðaði en nú er ég númer 10!
Biðlistar breytast hratt og þess vegna er ekki hægt að lofa því að staðan þín í reikninum breytist ekki. Ástæður breytinga á biðlistum eru margar, meðal annars:
- Foreldrar breyta umsóknum
- Börn fá pláss í einhverjum leikskóla
- Nýjar umsóknir berast
- Barn flytur
- Eldra barn sækir um sem færir yngra barn neðar á lista.
- Eldra barn fær boð sem færir yngra barn ofar á lista.
Hvað get ég gert ef barnið mitt raðast ekki vel inn miðað við þau börn sem eru að útskrifast?
Við mælum alltaf með því að sækja líka um hjá dagforeldrum og sjálfstætt starfandi leikskólum. Einnig er hægt að skoða stöðuna í öðrum hverfum, til dæmis nálægt vinnu foreldra.
Hvað þýðir að vera á úthlutunaraldri?
Þegar úthlutun plássa fyrir haustið hefst er „opið” fyrir börn fædd í febrúar árið á undan og fyrr. Það eru börn sem verða orðin 18 mánaða 1. september. Þetta er byggt á reglum um leikskólaþjónustu.
Barnið mitt er ekki á úthlutunaraldri. Hafið þið önnur úrræði fyrir mig?
Sumir sjálfstætt starfandi leikskólar eru ungbarnaleikskólar, einnig bendum við á dagforeldra.
Eru einhverjir leikskólar sem munu ekki taka þátt í næstu úthlutun?
Ítarlegar upplýsingar varðandi næstu úthlutun liggja ekki fyrir á þessum tímapunkti. Hægt að hafa samband við þjónustuver í síma 4111111 eða með tölvupósti innritun.leikskolar@reykjavik.is til að fá frekar upplýsingar.
Hvenær er næsta úthlutun?
Úthlutun hefst í mars 2024 því mælum við með því foreldrar skoði umsóknir sínar um leikskóla fyrir þann tíma því ekki verður hægt að breyta umsóknum eftir að úthlutun hefst.
Skiptir uppröðun/val leikskóla máli?
Já. Í stóru úthlutuninni er reynt að bjóða fyrsta val á meðan það eru laus pláss í þeim skóla. Ef fyrsta val er orðið fullt þá er boðið í annað val og svo framvegis. Ef úthluta á plássi á öðrum árstíma þá skiptir val minna máli því líklegast er fullt í flesta skóla. Boðið er í pláss þar sem þau losna t.d. vegna flutninga alveg óháð því hvort viðkomandi skóli er í fyrsta eða þriðja vali.
Eru meiri líkur á að fá pláss ef ég sæki um á fleiri leikskólum?
Já, en mælt er með að sækja eingöngu um þá skóla sem foreldrar myndu samþykkja boð um pláss í.
Er unnið með persónuupplýsingar í Leikskólareikninum?
Nei, eingöngu er notaður fæðingardagur og ár til að sjá stöðuna. Upplýsingarnar eru ekki tengdar ákveðnu barni. Leikskólareiknirinn sækir biðlistatölur úr leikskólakerfi borgarinnar, en engar persónugreinanlegar upplýsingar.