Spurt og svarað um hverfisskipulag
Hér finnur þú algengar spurningar og svör við því sem tengist skipulagsmálum og hverfisskipulagi.
Listi spurninga
Hvað er skipulag?
Skipulag (eða skipulagsáætlun) er formleg, bindandi áætlun sveitarfélags um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis langt inn í framtíðina.
Í skipulagi er ákveðið hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðarbyggð, frístundabyggð, verslun, þjónustu eða náttúruvernd. Þar eru einnig teknar ákvarðanir um fyrirkomulag gatna og lóða og settar reglur um hönnun einstakra bygginga, svo sem hæðafjölda, fjöldi íbúða, byggingarefni og þakform.
Samkvæmt íslenskum lögum á skipulag að tryggja að land sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Hvernig mun hverfisskipulagið líta út?
Í grunninn er hverfisskipulag eitt stórt deiliskipulag fyrir hvert hverfi borgarinnar. Reykjavík skiptist í 10 borgarhluta en innan hvers hluta er 3–4 hverfi sem hvert um sig fær sitt eigið hverfisskipulag.
Í heildina verða 29 hverfisskipulagsáætlanir í Reykjavík sem munu koma í staðinn fyrir þúsundir deiliskipulagsáætlana sem eru gildandi um ýmsa reiti og götur innan Reykjavíkur.
Hverfisskipulagið verður sett fram í stefnumiðuðum texta og skipulagsuppdráttum, þar sem koma fram almennar reglur og skilmálar fyrir hverfið: yfirbragð byggðar, byggingarheimildir, hæðir húsa, samgöngumynstur og ýmislegt fleira. Hvert hverfisskipulag verður einstakt því hverfi borgarinnar eru ólík og með mismunandi þarfir og áherslur til framtíðar.
Hvers vegna þurfum við hverfisskipulag?
Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru lagðar stóru línurnar að mótun borgarinnar til langs tíma. Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er sú stefna að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbærari og mannvænni og gæði hins manngerða umhverfis verði sett í öndvegi.
Hverfisskipulagið gegnir afar mikilvægu hlutverki við að innleiða stefnu aðalskipulagsins og útfæra nánar markmið þess. Með einu heildarskipulagi fyrir hvert hverfi borgarinnar verður einfaldara fyrir íbúa og fyrirtæki að sækja um ýmsar framkvæmdir og breytingar á eigin húsnæði innan ramma hverfisskipulagsins, án þess að þurfa að fara í kostnaðarsamar og tímafrekar breytingar á gildandi skipulagi. Um leið sameinar hverfisskipulag gildandi deiliskipulagsáætlanir og skilmála í eitt heildarskipulag fyrir hvert hverfi borgarinnar. Slíkt einfaldar til muna gerð og eftirfylgni áætlana fyrir hvert og eitt hverfi.
Hverfin í Reykjavík standa misvel að vígi eftir því hvaða málaflokkar eru metnir, svo sem aðgengi að verslun og þjónustu, almenningssamgöngur, opin rými, fjölbreytilegt húsnæði og svo framvegis. Við gerð hverfisskipulags fyrir hverfin er lögð áhersla á að draga fram styrkleika hvers hverfis og draga úr þeim veikleikum sem gætu verið til staðar í gildandi skipulagi.
Hver er ávinningurinn?
Áskoranirnar í hverfunum eru ólíkar en hverfisskipulagið tekur mið af þörfum íbúa í hverju hverfi. Leitað er til íbúa um þátttöku í skipulagsferlinu enda má segja að þeir séu sérfræðingar í sínu hverfi á sinn hátt og hafi hag hverfisins að leiðarljósi.
Hverfisskipulaginu er ætlað að gera íbúum auðveldara um vik með hverskyns framkvæmdir á eignum sínum. Þetta er gert með því að einfalda skipulags- og byggingarheimildir fyrir hverfi borgarinnar og bæta aðgengi að upplýsingum um gildandi skipulagsheimildir.
Hverfisskipulag getur einnig haft margvísleg jákvæð áhrif á daglegt líf íbúa. Mikilvægur hluti af hverfisskipulaginu er að styrkja hverfiskjarna sem skapa tækifæri fyrir blómlega verslun og þjónustu í göngufæri innan hvers hverfis. Þannig verða samgöngur betri, hverfin líflegri og sérstaða hvers hverfis styrkist.
Hvernig er hverfisskipulag unnið?
Hverfisskipulagið er unnið í nánu samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Í hverjum borgarhluta er hópur skipulagsráðgjafa sem vinnur með sérfræðingum borgarinnar að því að móta tillögur að hverfisskipulagi.
Í grófum dráttum má skipta skipulagsvinnunni upp í þrjá fasa. Í fyrsta fasa er leitað hugmynda hjá íbúum og hagsmunaaðilum og niðurstöður þeirrar vinnu notaðar til að þróa fyrstu hugmyndir að skipulagstillögum. Í öðrum fasa eru kynntar vinnutillögur og auglýst eftir athugasemdum við þær áður en lokatillögur eru mótaðar og kynntar í þriðja fasa skipulagsvinnunnar.
Hvernig virkar hverfisskipulagið?
Hverfisskipulagið er deiliskipulag sem nær til heils hverfis og allra skipulagsþátta sem taka þarf á innan hverfisins. Það leysir af hólmi eldra deiliskipulag sem sum hver eru orðin 60 ára gömul og löngu úrelt. Hverju hverfi er skipt upp í einingar sem kallaðar eru skilmálaeiningar.
Skilmálaeiningar eru þyrping húsa, lóða og/eða borgarumhverfi á afmörkuðu landsvæði innan hverfis sem heyrir saman annað hvort af sögulegum, landfræðilegum, byggingartæknilegum og/ eða fagurfræðilegum ástæðum, sjá lykilhugtök hverfisskipulags. Skilmáleiningar innan hvers hverfis geta verið margar. Sérstakar skilmálaeiningar eru fyrir skóla og leikskóla, opin svæði og þjónustusvæði. Hverri skilmáleiningu er lýst og settir skilmálar um helstu atriði s.s. starfsemi, byggingarmagn, útfærslu lóða, viðhald, tæknibúnað, byggðavernd (þar sem við á), meðhöndlun úrgangs/sorps, gróður, hljóðvist og mengun, ljósvist, samgöngur og svo framvegis.
Hvað eru leiðbeiningar hverfisskipulags?
Mikilvægur hluti af hverfisskipulaginu eru leiðbeiningar en í þeim er ítarleg umfjöllun um hugtök og efnisatriði sem fjallað eru um í skipulagsskilmálum hverfiskipulags. Þeim er ætlað að miðla nánari útfærslu á skilmálum og stefnu borgaryfirvalda en líka að vera leiðbeinandi og fræðandi um einstakar útfærslur. Leiðbeiningar eru ekki tengdar einstökum skilmálaeiningum heldur eru þær algildar og ná til allra hverfa.