Skil á endurvinnsluefnum

Þegar við leggjum okkar að mörkum og flokkum rétt erum við að stuðla að því að hægt sé að endurvinna og nýta áfram það sem nýtist okkur ekki lengur. 

Grenndarstöðvar

Það eru tugir grenndarstöðva á höfuðborgarsvæðinu þangað sem hægt er að fara með allan úrgang frá heimilinu. Á vef Sorpu getur þú fengið ítarlegri upplýsingar um alla flokkun og endurvinnslu. 

Ert þú klár á því hvar þú skilar sorpinu þínu?

Endurvinnslustöðvar

Sex endurvinnslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af þrjár í Reykjavík, við Sævarhöfða, Ánanaust og Jafnasel. Endurvinnslustöðvar eru bæði fyrir úrgang frá íbúum og rekstraraðilum. Gjald vegna reksturs endurvinnslustöðva er innheimt með fasteignagjöldum. Endurvinnslustöðvarnar taka á móti 32 úrgangsflokkum og eru ætlaðar til losunar smærri farma, undir tveimur rúmmetrum.

Aðrir sem taka á móti úrgangi

Hægt er að skila hlutum til endurnotkunar og endurvinnslu víðs vegar um borgina. Sem dæmi tekur Rauði krossinn við fatnaði, skóm og öðrum textílvörum í söfnunargáma á grenndarstöðvum og endurvinnslustöðvum SORPU bs. Á höfuðborgarsvæðinu er einnig hægt að skila fatnaði, skóm og nytjavörum á nytjamarkað Hjálpræðishersins auk þess sem Mæðrastyrksnefnd og Konukot taka við framlögum sem nýtast hér á landi. Á mörgum grenndarstöðvum stendur Bandalag Íslenskra Skáta (BÍS) fyrir söfnun á skilagjaldsskyldum umbúðum.

Samhjálp og ABC barnahjálp reka einnig nytjamarkaði þar sem tekið er við hvers kyns nytjavöru. Úreltum lyfjum og lyfjaafgöngum skal skilað til starfsmanna í apótekum. Vissar gleraugnaverslanir taka á móti gömlum gleraugum.

Fleiri spurningar?

Hafðu samband: upplysingar@reykjavik.is

Frekari upplýsingar má nálgast hjá þjónustuveri í síma 411 1111