Aðgengi og viðhald sorptunna

Það er mikilvægt að sorphirðustarfsfólk komist óhindrað og örugglega að sorptunnum. Það sparar ekki bara tíma við tæmingu, heldur hefur áhrif á fjölda tjóna, heilbrigði starfsfólksins og tryggir þínu heimili betri og ódýrari þjónustu. Er aðgengið að þínum tunnum í lagi?

Tunna ekki tæmd

Sorphirðan skilur eftir límmiða þar sem merkt er við ástæðuna fyrir því að tunna var ekki tæmd. Slæmt aðgengi er ein ástæða og einnig er ekki tæmt ef það er ekki rétt flokkað til að tryggja gæði endurvinnsluefnanna. Ef of mikið sorp er í eða við tunnu er heldur ekki hægt að tæma. Eingöngu er fjarlægt sorp í tunnum en ekki í kringum þær.

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga um aðgengi

Tröppur

Það er sérlega erfitt að koma þungum tunnum upp tröppur. Skábrautir/sliskjur eru nauðsynlegar til að bæta aðgengið í tröppum. Einnig má kanna hvort önnur staðsetning sé möguleg.

Birta

Í skammdeginu skiptir góð lýsing á vinnusvæði starfsfólks við sorphirðu miklu máli.

Hindranir

Gætið þess að reiðhjól eða annað slíkt sé ekki í gangveginum fyrir tunnunum.

Snjór og hálka

Gætið þess að moka snjó úr gangvegi starfsfólks á losunardögum og sanda eða salta í hálku.

Hundar

Á losunardögum er betra að halda hundum fjarri. Ef hundur er tjóðraður á lóð er mikilvægt að hann verði ekki á vegi starfsfólks við sorphirðu.

Hurðir

Betra er ef dyr haldast opnar meðan starfsfólkið athafnar sig. Hurðapumpur og krókar sem halda hurðum opnum meðan losun fer fram gera vinnuna auðveldari.

Staðsetning

Athugið að samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík eiga allar tunnur hvers húss að vera geymdar á sama stað.

Undirlag

Það er mun auðveldara að draga tunnurnar eftir malbiki eða hellum en grasi og möl.

Lofthæð

Of lítil lofthæð í aðkomuleiðum gerir starfsfólki erfitt fyrir og eykur álag.

Efnisval

Klæðning, dyrakarmar, gólf og veggir þarf að vera þannig úr garði gert að það skemmist ekki vegna umgengni um tunnurnar.

Læstar geymslur

Ef íbúar vilja læsa sorpgeymslum þá þurfa þeir að gæta að því að læsingarnar gangi að lyklakerfi sorphirðunnar. Nánari upplýsingar fást hjá sorphirðunni.  

Athugaðu einnig að dýrara er að staðsetja ílát í meira en 15 metra fjarlægð frá sorphirðubíl.

Endurnýjun og viðhald sorptunna

Ílátin sem Reykjavíkurborg losar eru eign borgarinnar. Reykjavíkurborg sér því um endurnýjun og viðhald á skemmdum ílátum. Ef tjón á íláti er hægt að rekja til slæmrar umgengni kann íbúi að þurfa að greiða fyrir endurnýjun þess. Íbúar bera ábyrgð á að hreinsa ílátin.

Ef ílátið við heimilið þarfnast viðhalds eða endurnýjunar þá er hægt að óska eftir því í síma 411 1111 eða með tölvupósti á sorphirda@reykjavik.is. Ástand ílátsins verður skoðað og gert við það eða það endurnýjað ef þörf er á.