Smiðjan

Virknimiðuð stoðþjónusta

Bæjarflöt 17
112 Reykjavík

Ljósmynd af húsnæði Smiðjunnar

Um Smiðjuna

Smiðjan er vinna og virkni fyrir fatlað fólk. Smiðjan er líka samfélag þar sem tómstundaiðkun og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Þar er að finna skynörvunarherbergi, farið er í vettvangsferðir, sund og gönguferðir. Vinsælt er að halda diskóböll, söngstundir, sögustundir og auðvitað karaoke.

Markmiðið er að efla einstaklinginn með áherslu á tjáningu, samskipti og sjálfsmyndarvinnu. Þá er lögð áhersla á skipulögð vinnubrögð, skýra og sýnilega ramma og vel skilgreint og sjónrænt umhverfi. Í hvers kyns tómstundastarfi og vinnu tekur hver og einn þátt á sínum forsendum og í mis stórum hópum. Engin getur allt – allir geta eitthvað.

  • Forstöðumaður: Sigurbjörn Rúnar Björnsson
  • Deildarstjórar: Elva Hlín Harðardóttir og Sólrún Helga Örnólfsdóttir
  • Deildarstjóri listasmiðju: Melkorka E. Freysteinsdóttir
  • Iðjuþjálfi: Rakel Bærings Halldórsdóttir

Listasmiðjan

Í Smiðjunni er starfrækt listasmiðja þar sem unnið er með textíl, smíði, leir og myndlist. Smiðjan framleiðir mikið af handgerðum leirmunum til sölu eins og bolla, skálar og margt fleira.

Kaffi Söguheimur

Kaffihúsið er hjarta Smiðjunnar þar sem allir hittast, lesa, spjalla og gæða sér á veitingum. Skipst er á að baka og reiða fram ljúffengar veitingar.

Starfsþjálfunar verkefni - út á almennan vinnumarkað

Í samstarfi við Vinnumálastofnun er í gangi starfsþjálfunarverkefni í Smiðjunni. Þá fara fatlaðir starfsmenn með leiðbeinendum sínum út á almennan vinnumarkað. Nákvæm vinnutilhögun er í samstarfi við vinnuveitanda. Viðmiðið hefur verið einn til tveir dagar í viku og þá einn til tvo klukkutíma í senn. Verkefnið hefur mælst vel fyrir og skilað ríkum ávinningi bæði fyrir fatlaða starfsmenn og vinnusamfélagið.

Fyrir þau sem treysta sér ekki út á vinnumarkaðinn

Við vinnum stöðugt að því að fá verkefni í hús frá ólíkum fyrirtækjum og einyrkjum, t.d. pökkunar-, merkingar- og flokkunarverkefni. Þanni fá fatlaðir starfsmenn Smiðjunnar tækifæri til að skila sínu vinnuframlagi til samfélagsins. Verkefnin eru unnin í Smiðjunni.