Fjármálaskrifstofa | Reykjavíkurborg

Fjármálaskrifstofa

Fjármálaskrifstofa hefur yfirumsjón með fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. Skrifstofan hefur snertifleti við alla þætti rekstrar A-hluta borgarsjóðs og veitir stjórnendum upplýsingar, stuðning og aðhald. Fjármálastjóri Reykjavíkurborgar er Birgir Björn Sigurjónsson

Ráðhús Reykjavíkur

Fjármálaskrifstofa ber ábyrgð á skipulagi og vinnslu fjárhagsáætlunar A-hluta og samstæðunnar, hefur á hendi innra fjárhagslegt eftirlit, metur áhættur í rekstrarumhverfi A-hluta og veitir borgarstjóra og borgarráði upplýsingar um rekstur, sjóðsstreymi og stöðu eigna og skulda og aðra þætti sem geta haft áhrif á rekstur til lengri og skemmri tíma. Þá annast skrifstofan bókhald, uppgjör og uppsetningu ársreiknings A-hluta og samstæðu og fer með fjárreiðu- og eignastýringu, þar með talið lána-og lausafjárstýringu.

Fjármálaskrifstofa hefur yfirumsjón með innkaupamálum, ber ábyrgð á ráðgjöf á sviði innkaupamála, þjónustu við innkauparáð, framkvæmd innkaupa og útboðsmála ásamt verðkannana. Skrifstofan hefur eftirlit með innkaupum A-hluta. Þá hefur skrifstofan á hendi útreikninga og afgreiðslu launa og launatengdra gjalda, hefur eftirlit með launaþróun og framkvæmd kjarasamninga og sinnir ráðgjöf til stjórnenda því tengdu. 

Skrifstofan ber ábyrgð á túlkun kjarasamninga og vinnuréttar og fer með fyrirsvar þeirra mála gagnvart viðsemjendum og aðilum vinnumarkaðar auk þess að sinna ráðgjöf á sviði vinnuréttar og kjarasamninga.

Fjármálaskrifstofa hefur umsjón með fjárhagsbókhaldskerfi, uppgjörs- og skuldabréfakerfum og mannauðskerfi borgarinnar.

Áætlanir

Hlutverk áætlana- og greiningardeildar er að annast undirbúning fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar.

Fjárhagsáætlun afmarkar fjárheimildir sviða og stofnana til eins árs og er eitt helsta stjórntæki borgarstjórnar til að ná fram markmiðum sínum í rekstri og framkvæmdum.  Þriggja ára áætlun er ekki bindandi en hefur stefnumótandi hlutverki að gegna í hverjum málaflokki fyrir sig.  Deildin ber ábyrgð á greiningu rekstrar, eftirliti og eftirfylgni með framkvæmd fjárhagsáætlunar. Hlutverk deildarinnar er jafnframt að vera leiðandi í þróun og samhæfingu stjórnendaupplýsinga.

Bókhald

Hlutverk bókhaldsdeildar er að skipuleggja, byggja upp og reka bókhaldsþjónustu vegna A-hluta borgarsjóðs, það er Aðalsjóðs og Eignasjóðs.

Bókhaldsdeild sér um staðfestingu reikninga, bókun og afstemmingu við birgja og að þessir þættir séu í samræmi við reikningsskilastaðla og verklagsreglur. Það skapar yfirsýn yfir rekstrarþætti innan fyrirtækisins sem koma beint eða óbeint með upplýsingar inn í fjárhagsbókhald fyrirtækisins, þar með talið frá öðrum kerfum.  Bókhaldið hefur eftirlit með þessum þáttum og upplýsir ábyrgðaraðila um hugsanlega formgalla og skekkjur sem kunna að koma upp. Bókhaldsdeild hefur bókhaldslegt eftirlit með  milliviðskiptum milli Aðalsjóðs og Eignasjóðs. Ennfremur sér bókhaldið um uppgjör gagnvart opinberum aðilum. Hafa samband. Nánari upplýsingar um rafræna reikninga

Fjárstýring

Fjárstýringardeild ber ábyrgð á lána- og sjóðastýringu borgarsjóðs ásamt gerð greiðsluáætlunar. Fjárstýringardeild ber einnig ábyrgð á og hefur eftirlit með innheimtum borgarsjóðs, greiðslu reikninga, álagningarstofni fasteignagjalda og álagningu þeirra. Fjárstýringardeild starfar samkvæmt reglum um fjárstýringu og áhættustýringu sem borgarráð hefur sett.

Uppgjör

Uppgjörsdeild skipuleggur og vinnur fjárhagsuppgjör í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar, gildandi lög, reglur og reikningsskilastaðla.  Um er að ræða mánaðarleg rekstraruppgjör, árshlutareikninga og ársreikninga.  Ennfremur sér deildin um uppgjör gagnvart opinberum aðilum.

Innkaup

Innkaupadeild hefur yfirumsjón með innkaupum Reykjavíkurborgar. Deildin ber ábyrgð á ráðgjöf á sviði innkaupamála, þjónustu við innkauparáð, verðfyrirspurnum og framkvæmd innkaupa-og útboðsmála. Innkaupadeild annast öll útboðs- og innkaupamál fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Deildin gætir þess að innkaup Reykjavíkurborgar séu í samræmi við lög og reglur sem um innkaup gilda. Deildin hefur frumkvæði að stefnumótandi ákvörðunum um innkaupaferli í samvinnu við málaflokka, leiðir þróunarstarf i innkaupamálum sem lítur að skipulagi innkaupa og einföldun innkaupaferla, sem lækka beinan og óbeinan innkostnað Reykjavíkurborgar. Leiðir í þessu þróunarstarfi er m.a. innleiðing rammasamninga, rafrænna innkaupa og útboða með þátttöku allra sem stunda innkaup hjá Reykjavíkurborg.
Innkaupadeild veitir þjónustu og fræðslu í tengslum við innkaup og innkaupaaðferðir og sér einnig um þjónustu við Innkauparáð Reykjavíkurborgar.

Kjaramál

Kjaradeild ber ábyrgð á og hefur eftirlit með framkvæmd kjarasamninga, túlkar kjarasamninga og vinnurétt, og hefur samskipti við stéttarfélög  fyrir hönd borgarinnar. Hún annast launaafgreiðslu og frádráttarskil, ber ábyrgð á mannauðsupplýsingakerfi (Öskju) og þróun þess, þar með talið viðveruskráningarkerfinu Vinnustund og VinnuUmsókn.

Launaafgreiðsla er miðlæg hjá Reykjavíkurborg. Deildin sér um að framkvæma launagreiðslur til allra starfsmanna borgarinnar á grundvelli þeirra gagna sem berast frá stjórnendum, svo sem ráðningarsamninga og upplýsingar um vinnutíma og viðveru.  Þá sér kjaradeild um að skila frádrætti og launatengdum gjöldum til fjölmargra aðila, m.a. innheimtustofnunar (skattstjóra), lífeyrissjóða, séreignasjóða, stéttarfélaga og fræðslusjóða.  Á kjaradeild eru skráð og vistuð öll nauðsynleg starfsmanna- og launagögn og deildin veitir ráðgjöf til stjórnenda um mál er snerta launaafgreiðslu.
Með innleiðingu Vinnustundar, rafræns viðveruskráningar- og vaktakerfis, fjölgar sífellt gögnum sem berast með rafrænum hætti frá vinnustöðum inn í launakerfið. 

Skipurit: 

Aðalskipurit Reykjavíkurborgar

Borgarstjóri Borgarritari Fjármálaskrifstofa Áhættumatsteymi Bókhaldsdeild Uppgjörsdeild Áætlana- og greiningadeild Fjárstýringardeild Kjaradeild Innkaupadeild Image Map

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 10 =