Ásláttarhljóðfæri
Ásláttarhljóðfærafjölskyldan er gríðarlega stór. Til hennar telst aragrúi hljóðfæra víðs vegar að úr heiminum. Hljóðfærin eru af afar ólíkum stærðum og gerðum og krefjast mörg sérhæfðrar leiktækni.
Fá hljóðfæri eiga sér eins langa sögu og ásláttarhljóðfærin. Þau hafa frá öndverðu verið burðarás í alþýðutónlist ólíkra heimshorna en jafnframt gegnt mikilvægu hlutverki í klassískri tónlist um langa hríð. Þá hafa ásláttarhljóðfæri um áratuga skeið verið burðarás í rokk-, popp- og djasstónlist.
Að hefja nám
Til að nám geti hafist á ásláttarhljóðfæri þarf nemandi að hafa líkamlega burði til að valda auðveldlega trommukjuðum og hljómborðssleglum. Í flestum tilfellum geta 6-7 ára börn hafið nám á ásláttarhljóðfæri þó að algengara sé að nemendur hefji nám 8-9 ára eins og á flest önnur hljóðfæri. Frá upphafi náms þarf nemandi að eiga sneriltrommu og æfingaplatta og fljótlega er nauðsynlegt að hafa undir höndum ásláttarhljómborð til heimaæfinga. Í miðnámi þarf nemandi að hafa yfir að ráða ásláttarhljómborði með að lágmarki tveggja og hálfrar áttundar tónsviði. Frá upphafi framhaldsnáms þurfa nemendur hins vegar að hafa yfir að ráða fjögurra áttunda ásláttarhljómborðshljóðfæri.
Aðalhljóðfæri í grunnnámi á ásláttarhljóðfæri samkvæmt námskrá eru sneriltromma og ásláttarhljómborð. Nauðsynleg aukahljóðfæri eru bassatromma, symbalar, þríhorn og tambúrína. Auk þess er æskilegt að nemendur kynnist pákum ef aðstæður eru til. Aðalhljóðfæri í mið- og framhaldsnámi eru sneriltromma, ásláttarhljómborð og pákur en æskilegt er að nemendur kynnist auk þess sem flestum hljóðfærum þessarar litskrúðugu fjölskyldu eftir því sem tök eru á.