Skipulagssaga Reykjavíkur í gegnum tíðina

Finnur Kristinsson tók saman bók sem var feikilega mikið notuð við skipulagsstörf. Hún var grunngagn sem nauðsynlegt var að leita og vísa í. Hún geymir upplýsingar um allar ákvarðanir og hverju var breytt í skipulags- og byggingamálum hjá Reykjavíkurborg.

Fróðleikur og vitneskja um skipulagsmál

Finnur Kristinsson hafði starfað við skipulagsmál hjá Reykjavíkurborg í 35 ár þegar hann hætti vegna aldursmarka 1993. „Eftir að hafa unnið með Finni við hlið mér sem skrifstofustjóra og skjalavörð í þann áratug sem við náðum saman var mér ljóst að hann lá inni með fróðleik um skipulagsmál og vitneskju um gögn sem hyrfi með honum,“ skrifar Þorvaldur S. Þorvaldsson skipulagsstjóri Reykjavíkur 1995. Hann réði Finn því í hlutastarf til að taka saman þau drög að skipulagssögu Reykjavíkur.

Skipulagssaga

Hér er ekki um eiginlega söguritun að ræða heldur ómetanlegan gagnabanka. Fjallað er í fyrstu um forsögu skipulags í borginni og síðan er rakinn ferill hvers máls eftir að eiginlegt form var komið á skipulagsmál og skipulagsnefnd stofnuð. 

Teikning af fólki við störf í skapandi þorpi í Gufunesi

Nauðsynlegt er að varðveita söguna

Stálskáparnir sem geymdu skipulagsuppdrættina sem Finnur hélt utan um eru enn til í vörslu Borgarskjalasafns með megninu af uppdráttunum. Borgarskjalasafn heldur sömuleiðis utan um aðra skipulagsuppdrætti sem margir eru nú aðgengilegir á tölvutæku formi. Nokkuð af þeim uppdráttum sem eru í bók Finns þurfti þó að ljósmynda en það gerði barnabarn hans Íris Stefánsdóttir ljósmyndari. Umhugsunarefni er hvernig þessi viðkvæmu gögn eru varðveitt óskráð í ófullnægjandi hirslum og umhverfi. Ekki þarf að fjölyrða um að í þeim felst mikil saga sem slæmt væri að fari forgörðum. Nauðsynlegt er að koma þessum gömlu uppdráttum í varanlegri og betri geymslu. Áhugavert væri að setja upp sögusýningar með uppdráttum og öðru efni þar sem skipulagssaga frá ólíkum tíma og frá einstökum hverfum borgarinnar væri rakin. 

Bókin var mikið notuð hjá skipulaginu 

Nikulás Úlfar Másson arkitekt og byggingafulltrúi Reykjavíkur gegndi starfi verkefnis- og teymisstjóra hjá skipulagsfulltrúa, skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkur 2001-2007. Hann segist hafa himinn höndum tekið þegar hann uppgötvaði verk Finns Kristinssonar. „Þetta verk sparaði okkur mikla vinnu, því þarna var allt komið saman á einn stað, allt sem við þurftum að leita í daglega,“ segir Nikulás Úlfar og að hann hafi látið ljósrita hana í 10 eintökum og dreift á starfsfólk skipulagsins.  

Samantekt Finns varð með þeim hætti grundvallartól, sem stöðugt var flett upp í þágildandi skipulagi í Reykjavík en þau höfðu ekki skipulagssjá á þessum árum. „Þetta einfaldaði málin varðandi ákvarðanir um áframhaldandi skipulagsvinnu,“ segir hann.  

Finnur finnur allt

Helga Bragadóttir arkitekt og fyrrverandi skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hóf störf að skipulagsmálum hjá borginni árið 1979 sem sumarstarfsmaður hjá Þróunarstofnun Reykjavíkur, síðar Borgarskipulagi Reykjavíkur. Þá var forstöðumaður Guðrún Jónsdóttur arkitekt, sem veitti borgarskipulaginu forstöðu til 1984, en þá tók Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt. Finnur Kristinsson var skrifstofustjóri á þeim tíma.  

Helga man vel eftir Finni. „Ég fletti mikið upp í Finni sjálfum, sem hafði „sett í system“ alla stóru uppdrættina og teikningarnar og skipulagt á aðgengilegan hátt í  þremur miklum stálskápum. Yfir þessum skápum og geymslu gagna þar sem allar teikningar voru geymdar hafði Finnur umsjón,“ segir Helga. „Hann var með þetta allt í kollinum og vissi hvar gögn væri að finna.“ 

Hún bætir við að Finnur hafi verið sannkallaður fagurkeri með glæsilegt tekkskrifborð sem hann vann við smekklega klæddur og með lindarpenna! Hann hafði mikinn sögulegan áhuga og fannst Helgu gaman að spjalla við hann. Viðkvæðið var „Finnur finnur allt“ þegar spurt var um skilmála- og skipulagsuppdrætti. 

Hún hefur eftir Þorvaldi S. sem sagði að „fæla“ þyrfti þekkingu Finns áður en hann hætti störfum. Finnur tók öll gögnin saman í „rauðu bókina með gormunum“ og nú birtist hún aftur á vefnum sem drög að skipulagssögu. Í bókinni voru allar samþykktir í skipulagsnefndum og borgarráði og ljósmyndir af uppdráttunum. „Þessi bók var mjög mikilvæg við störf á vinnustaðnum áður en rafræn gögn komu til sögunnar." 

„Eftir að skipulagslögin voru sett 1997 varð krafan um deiliskipulag sterkari og á þeim árum nýttist rauða bókin einstaklega vel og var góð heimild" segir Helga, sem var deildarstjóri deiliskipulags og sviðsstjóri málsmeðferðar á Borgarskipulagi, áður en hún varð skipulagsfulltrúi Reykjavíkur á skipulags – og byggingarsviði, en því embætti gegndi hún 2002 til 2007, þar til hún hóf störf hjá Kanon arkitektum.   

 

Starf Finns Kristinssonar

Finnur er fæddur árið 1919 og fór á eftirlaun 1989, hann lést í nóvember 2009. Eftir nám í tæknilegum leikhúsfræðum við State University of Iowa 1943 og 1944 hóf hann störf fyrir Leikfélag Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu, auk blaðamennsku á Þjóðviljanum og Vísi.

Finnur byrjaði sem teiknari hjá skipulaginu árið 1958 en var skrifstofustjóri á Borgarskipulagi þegar hann fór á eftirlaun. Hann hafði einnig umsjón með skjalasafninu. Hann verður því lykilmaður í borgarskipulaginu og var iðulega leitað til hans eftir upplýsingum, þannig treysti m.a. Zóphónías Pálsson skipulagsstjóri ríkisins (1954-1985) á hans þekkingu í þessum efnum.

Finnur var ritari skipulagsnefndarinnar um langa hríð. Hann tekur saman í byrjun bókarinnar alla helstu skipulagsuppdrætti borgarinnar og aðdraganda þeirra og rekur allar samþykktir til ársins 1993 en fyrstu skipulagsuppdrættir í Reykjavík voru gerðir um 1919.

Finnur tók þetta allt saman í bók sem var feikilega mikið notuð við störf. Hún var grunngagn sem nauðsynlegt var að leita og vísa í. Hún geymir upplýsingar um allar ákvarðanir og hverju var breytt.

Stefán Agnar Finnsson bjó efnið til birtingar

Stefán Agnar sonur Finns tók það svo að sér við eigin starfslok að búa bókina undir birtingu á vef borgarinnar. Stefán hafði verið yfirverkfræðingur á skrifsstofu borgarverkfræðings og síðar samgöngustjóra.

„Það er mikið af uppdráttum í verkinu og ég skannaði alla uppdrætti í lit sem ég fann og vistaði í betri gæðum,“ segir hann. „Við teljum gott að hafa efnið aðgengilegt fyrir almenning, starfsfólk og áhugafólk um skipulag.“ Hægt er að leita í bókinni og sjá hvenær hugmyndir um breytingar koma fram og úr hvaða hugmyndum var unnið.