Ráðhús Reykjavíkur

Virka daga kl. 8:00–18:00
Laugardaga kl. 10:00–18:00
Sunnudaga kl. 12:00–18:00

Tjarnargata 11
101 Reykjavík

""

Stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar

Stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar eru Ráðhús Reykjavíkur, Höfði, auk skrifstofuaðstöðu í Tjarnargötu 12 og Höfðatorgi við Borgartún. 

Ráðhús Reykjavíkur var vígt þann 14. apríl 1992. 

Ráðhúsið skiptist í tvær byggingar sem tengdar eru saman með gönguás á jarðhæð hússins. Annars vegar er það hús borgarstjórnar, vettvangur stjórnmálanna, sem er við Vonarstræti og svo skrifstofubygging, sem liggur að Tjörninni, sem er aðsetur stjórnsýslu borgarinnar, borgarstjóra og starfsmanna. Á jarðhæð er einnig Tjarnarsalurinn, salur fólksins, sem er nýttur fyrir viðburða- og fundahald.

Aðgangur að stjórnsýsluhúsum Reykjavíkur er heimill öllum með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í reglum um aðgengi og starfsemi í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar.

 

Tjarnarsalur

Tjarnarsalur Ráðhússins er salur fólksins, Reykvíkinga og gesta borgarinnar jafnt innlendra sem erlendra. Hann er hluti af opnu rými Ráðhússins sem ætlað er almenningi og þar eru haldnir ýmsir viðburðir sem gestir geta sótt.

 

Tjarnarsalur er leigður út fyrir fjölþætta starfsemi og er þar helst um að ræða ýmsa viðburði svo sem tónleika, listsýningar, ráðstefnur, smærri fundi, kynningar, móttökur og margt fleira.

Teikning af álft í tjörninni fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur.

Leiðsögn og heimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur

Viðburðastjórn tekur afstöðu til beiðna sem berast um leiðsögn og heimsóknir í Ráðhúsið. 

 

Leiðsögn og heimsóknir í Ráðhúsið eru almennt í boði mánudaga - fimmtudaga á milli kl. 10:00 og 15:00. Miðað er við að leiðsögn/heimsókn taki um 30 mínútur.

Mynd af svani að synda á tjörninni

Íslandslíkanið

Íslandslíkanið er í Tjarnarsal vestur nema þegar salurinn er leigður fyrir viðburði. Íslandslíkanið hefur í gegnum tíðina verið mikið aðdráttarafl fyrir bæði innlenda og erlenda gesti.

Íslandslíkanið er aðallega byggt  eftir kortum frá Bandaríska hernum (U.S. Army Map service series C762) frá árinu 1948 sem teiknuð voru eftir loftmyndum sem bandaríski herinn tók hér í ágúst og september árið 1945 og til október árið 1946. Í þessu kortasetti Bandaríkjamanna eru samtals 269 kort í mælikvarðanum 1:50.000, hvert kortablað þekur um 435 ferkílómetra lands. Hugmyndina að gerð þessa líkans átti Þórður P. Þorbjarnarson borgarverkfræðingur. 

Sagan

Byrjað var að smíða líkanið í ársbyrjun 1985. Það er smíðað úr 1 mm þykkum pappa sem skorinn er út eftir hæðarlínunum á kortunum. Einstök pappaþynna stendur því fyrir hverja 20 hæðarmetra í landinu. Frá sjó og upp á topp Öræfajökuls eru því 106 þynnur í líkaninu. Þær eru límdar hver ofaná aðra með venjulegu trélími og heftar og negldar eftir þörfum. Pappablokkirnar eru festar á tréplötur sem skrúfaðar eru á álramma. Þegar Ráðhúsið opnaði árið 1992 var Íslandslíkanið tilbúið og komið fyrir í Tjarnarsal Ráðhúss og þar hefur það verið til sýnis allar götur síðan.

Líkanið er smíðað á Modelverkstæði Reykjavíkurborgar. Að þessu verki unnu 5 líkansmiðir, þeir: Axel Helgason, Árni Hreiðar Árnason, Jónas Magnússon, Kristján Sigurðsson og Sigurður Halldórsson. Líkanið var síðan málað af Sigurði Pálssyni málarameistara.

Hvað er það stórt?

Íslandslíkanið er í mælikvarðanum 1:50.000 en yfirhækkað. Yfirhækkunin er tvöföld þannig að hæðarkvarðinn er 1:25.000. Heildarflatarmál líkansins er 76,4 fermetrar, 7.22x10,58m. Því er skipt niður á 57 fleka. Af þeim sýna 43 landið sjálft en 14 flekar sýna eingöngu hafsvæði umhverfis landið til þess að fylla út í ferninginn. Flekarnir eru dálítið mismunandi að stærð en eru á bilinu 80–180 cm á kant. Meðalflatarmál þeirra er um 1,35 fermetrar og þekur hver þeirra tæpa 3.000 ferkílómetra lands að meðaltali. 

Er hægt að skoða?

Íslandslíkanið hefur verið mjög vinsælt og haft mikið aðdráttarafl, jafnt meðal íslenskra og erlenda ferðamanna. Fáir staðir í Reykjavík, jafnvel á öllu landinu geta státað af fleiri ferðamönnum.

Hússtjórn starfar eftir þeirri meginreglu að Íslandslíkanið sé að jafnaði til sýnis í öðrum helmingi Tjarnarsalar og sýningar og aðrir viðburðir séu staðsettir í hinum hluta salarins. Í sérstökum tilvikum getur verið gerð undantekning frá þessari reglu.