Ferli umsóknar um NPA

Fyrsta skref er að bóka símtal. Í símtalinu er farið yfir stöðu þína og þarfir. Í framhaldi af því færðu boð í viðtal hjá ráðgjafa þar sem tekin er sameiginleg ákvörðun um hvaða stuðningur hentar og umsókn undirrituð. Umsókn um NPA skal fylgja staðfesting á fötlunargreiningu, sjálfsmat, örorkumat og SIS-mat ef við á. 

Hvað gerist næst? 

Þegar undirrituð umsókn liggur fyrir er næsta skref formlegt mat á stuðningsþörf. Matið tekur mið af stöðu þinni með tilliti til eftirfarandi þátta: 

  • Færni, geta og styrkleikar 
  • Félagslegar aðstæður og tengslanet 
  • Virkni og þátttaka í samfélaginu 
  • Hugsanlegar afleiðingar sem töf á stuðningi hefur  
  • Annar stuðningur 

Ef formlegt mat leiðir í ljós að stuðningsþörf þín er minni en 15 klukkustundir á viku eða að þú uppfyllir ekki öll skilyrði er umsókn synjað og þér bent á annan stuðning sem stendur til boða.

Sé umsókn samþykkt vinnur ráðgjafi samkomulag um vinnustundir í samvinnu við þig. Samþykktar umsóknir fara á bið eftir úthlutun. Á biðtíma er haft reglulegt samráð við þig og upplýst um stöðu mála og þá þjónustu sem stendur til boða á biðtímanum. 

Hvernig er nýjum NPA samningum úthlutað? 

Sérstakt teymi úthlutar nýjum NPA samningum. Í kjölfarið er gerður einstaklingssamningur við notanda sem byggir á samkomulagi um vinnustundir. Einnig er gerður samstarfssamningur við umsýsluaðila sem hefur lokið námskeiði um NPA og fengið starfsleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF). Notandi getur sjálfur verið umsýsluaðili.