Listaverk á uppbyggingarsvæðum

Reykjavíkurborg hefur markað sér stefnu um gæði og gott umhverfi í borginni. Því er ákveðinni fjárhæð varið í listsköpun í almenningsrýmum á uppbyggingarsvæðum. Markmiðið er að áhugaverð listaverk séu hluti af almannarými og einkenni ný skipulagssvæði í borginni. 

Almennt um verkefnið

Listaverkin eru þáttur í þeirri heildarmynd sem umhverfi og byggingum er ætlað að skapa. Þau auðga mannlíf og skapa áhugavert umhverfi. Listaverkin sem um ræðir geta verið hluti mannvirkis eða sjálfstæð verk í eða við byggingarnar. Þau eru unnin af öðrum en hönnuði mannvirkisins. 

Í uppbyggingarsamkomulagi Reykjavíkurborgar við lóðarhafa kemur fram fjárhæð sem lóðarhafi skuldbindur sig til að leggja fram og Reykjavíkurborg leggur til jafnháa fjárhæð. Teymi á vegum borgarinnar sem samanstendur af fulltrúum Listasafns Reykjavíkur og skipulagsfulltrúa vinur að útfærslu verkefnanna.

Ljóslífun (Photorejuvenation)

Dagrún Aðalsteinsdóttir (2024)

Hús og speglalistaverk

Verkið Ljóslífun samanstendur af stórum speglum sem festir hafa verið hátt á nýbygginguna við Skipholt 1. Speglarnir fanga geisla kvöld- og morgunsólar og varpa birtu inni í inngarðinn. Verkið er til þess fallið að vekja áhorfendur til umhugsunar um mikilvægi sólarbirtu og sækir innblástur til þorpsins Viganella í ítölsku ölpunum, sem staðsett er í djúpum dal þar sem sólin nær ekki að skína árið um kring og var því gripið til þess ráðs að setja spegla í fjallshlíðarnar. Í undirgangi inn í inngarðinn má einnig sjá hringlaga form þar sem glittir í veggjakrot sem var að finna á staðnum þegar verkið var sett upp. 

Arkís arkitektar og Arnarhvoll ehf. völdu og núverandi eigandi er Húsfélagið Skipholti 1. 

  • Staðsetning: Skipholt 1 – Inngarður og undirgangur
  • Lóðarhafi: Arnarhvoll
  • Arkitektar: Arkís   

Fjársjóðskista (Treasure Chest)

Brynhildur Þorgeirsdóttir (2025)

Stórt listaverk úr steini

Verkið Fjársjóðskista er skúlptúr úr steinsteypu í lífrænu formi, einskonar hvalbaki, sem stendur á grasflöt fyrir framan nýbygginguna við Rofabæ 7-9. Verkið er steypt í mót og er notuð steypa með ljósum grátóni. Í efsta lagi verksins er Hornafjarðarmöl  sem inniheldur ýmis litbrigði steina auk þess sem listakonan hefur lagt þar litrík glerbrot og aðra skrautsteina úr steinasafni sínu. Yfirborðið hefur svo verið slípað niður og þá kemur í ljós litríkt ævintýri. 

Eigandi verksins er Húsfélagið Rofabæ 7-9 sem valdi verkið í samtali við lóðarhafa. 

  • Staðsetning: Rofabær 7-9
  • Lóðarhafi: Rofabær 7-9 ehf.
  • Arkitektar: Plúsarkitektar

Fortjald  (Curtain)

Steinunn Þórarinsdóttir (2025)

Stytta af mannneskju

Verkið Fortjald er skúlptúr steyptur úr endurunnu áli og er nokkurs konar andlit hússins en verkið er staðsett við aðalinngang nýbyggingarinnar við Sólvallagötu 79 Hringbrautarmegin. Staða líkamans er hlutlaus en um leið bíður verkið vegfarendur velkomna.  Verkið er tilvísun í hefð þar sem fígúrur eru hluti af arkitektúr fornra bygginga, samruni nútímabyggingarlistar og klassískrar nálgunar.

  • Staðsetning: Sólvallagata 79 
  • Lóðarhafi: Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson 
  • Arkitektar: Plúsarkitektar

Leiðni (Conductivity)

Helgi Már Kristinsson (2025)

Listaverk með appelsínugulum röndum.

Leiðni er veggverk sem staðsett er í undirgöngum sem liggja frá Seljavegi og inn í inngarðinn á Héðinsreit. Litir og form verksins sækja innblástur til hlutverks rýmisins sem leiðir gesti inn í bygginguna og inngarðinn en einnig til fyrra hlutverks byggingarinnar, sem hýsti málmsmiðjuna Héðinn. Einnig er vísað til þess þegar að veggjalistamenn fundu sér athvarf á svæðinu í því millibilsástandi sem skapaðist áður núverandi uppbygging hófst. 

  • Lóðarhafi: Center Hotels ehf. 
  • Arkitektar: Gláma/Kím
  • Staðsetning: Seljavegur 2, Center Hotels – Undirgangur á Héðinsreit

Leikur ljóss og skugga (Play of Light and Shadows)

Sigurður Árni Sigurðsson (2025)

Hús með gulu listaverki

Verkið Leikur ljóss og skugga í inngarði við Seljaveg 2 á Héðinsreit er stórt veggverk á gluggalausu stigahúsi. Veggurinn snýr í norðvestur og er í skugga eins og inngarðurinn sjálfur að stórum hluta. Hugmyndin að baki verkinu er að færa stöðuga birtu og sól á vegginn. Með gulum lit og einfaldri teikningu eru mynduð ímynduð göt sem varpa skugga á ómálaða sjónsteypu. Einföld sjónblekking myndar samtal og tengir við form lofttúðu sem stendur áberandi upp úr miðjum garðinum, grunnflöt garðsins og bogadregna bygginguna.

  • Staðsetning: Seljavegur 2, Center Hotels – Inngarður, Héðinsreitur

Teiknað í járn (Drawing in Iron)

Helgi Gíslason (2025)

Járnlistaverk

Verkið Teiknað í járn er 8 metra samfelld teikning fengin úr myndheimi höfundar. Myndin er gerð úr járni og þjónar bæði hlutverki skilrúms og sem ljósgjafi milli húss og gōtu. Járnið er mótað í lífræn form og línur, sem skapar ákveðna andstæðu við beinar línur byggingarinnar. Teikningin er einkum óhlutbundin en einnig má greina laufblöð og mannsmyndir. Verkið er staðsett í gönguhæð og munu vegfarendur sem eiga leið um Þverholt njóta þess. 

  • Lóðarhafi: Sérverk ehf.
  • Arkitektar: ASK arkitektar
  • Staðsetning: Þverholt 13 

Verk í vinnslu

Stanslaus

  • Höfundur: Rósa Gísladóttir
  • Staðsetning: Grensávegur 1

Rif

  • Höfundur: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
  • Staðsetning: Vesturvin – Inngarður

Pollar (vinnutitill)

  • Höfundur: Elísabet Brynhildardóttir
  • Staðsetning: Borgartún 41 – Inngarður