Fimm listamenn valdir til að vinna tillögur fyrir Orkureit

Listamennirnir fimm eru Emma Heiðarsdóttir, Eva Ísleifsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson og Unndór Egill Jónsson. Hilmar Ágústsson, lóðarhafi og framkvæmdastjóri Safírs, og Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt tóku á móti hópnum.
fólk á svölum með landslag í baksýn

Fimm listamenn hafa verið valdir til þess að vinna tilllögur að listaverkum í almannarými á Orkureitnum við Suðurlandsbraut. Þau fimm sem forvalsnefnd hefur valið til að vinna tillögur eru Emma Heiðarsdóttir, Eva Ísleifsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson og Unndór Egill Jónsson. 

Til að auka gæði og gott umhverfi

Reykjavíkurborg og lóðarhafar sameinast um listsköpun á svæðinu til að auka gæði og gott umhverfi í borginni og er heildarfjárhæð sem um ræðir allt að þrjátíu og tvær milljónir króna.

Orkureitur afmarkast af Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Ármúla og Dalsmúla og er samkeppnissvæðið sjálfar byggingarnar, inngarðar þeirra og nánasta umhverfi. 

Myndlistarfólki var boðið í sumar að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni um listaverk í almannarými á reitnum. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með samkeppninni sem fer fram eftir samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), það er lokuð samkeppni með opnu forvali.

fólk í vinnufötum með hjálm og blokk í byggingu í baksýn

Listamennirnir hafa nú farið í heimsókn til að kynna sér aðstæður á staðnum. Hilmar Ágústsson, lóðarhafi og framkvæmdastjóri Safírs, og Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt tóku á móti hópnum og voru meðfylgjandi myndir teknar við það tilefni.