Laugardalur
Útivistarsvæði
Laugardalur
104 Reykjavík
Um Laugardal
Laugardalurinn er án efa vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda er svæðið einstaklega heppilegt fyrir útiveru, skjólgott og gróðursælt með vel skipulagða göngu- og hjólastíga.
Laugardalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og er þar að finna íþróttamannvirki svo sem Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Laugardalurinn miðstöð garðyrkju og er Grasagarður Reykjavíkur staðsettur í hjarta dalsins. Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn í Laugardal er vinsæll meðal barna og fjölskyldufólks og er þar að finna öll íslensku húsdýrin og helstu villtu landspendýrin svo sem refir og hreindýr auk selanna sívinsælu. Í Laugardalnum er jarðhiti, einkum við Þvottalaugarnar þar sem Reykvíkingar þvoðu þvott sinn úr heitum jarðlaugum. Þá er aðaltjaldstæði Reykjavíkur í Laugardal og dalurinn því vinsæll viðkomustaður ferðalanga.
Grunnupplýsingar
Samgöngur:
- Laugardalur er mikilvæg samgönguæð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og liggja göngu- og hjólastígar um dalinn og tengja hann við nálæg íbúðahverfi.
- Bílastæði við Laugardalslaug, Laugardalsvöll, Laugardalshöll, Skautahöllina/Grasagarð/Húsdýragarð.
- Strætó: 2-14-17-19 – Stöðvar: Nordica /Laugardalshöll/ Orkuhúsið (2-17-19), Laugardalslaug/Laugarásvegur/Holtavegur/Glæsibær (14).
Þar má finna: Garðyrkju - Leiksvæði - Íþróttasvæði - Sundlaug - Göngustíga - Hjólastíga - Kaffihús - Veitingastað - Bekki - Pikknikkborð - Fuglalíf - Listaverk - Sögustað - Hátíðahöld - Dýragarð.
Saga
- Nafnið Laugardalur er ekki gamalt örnefni á þessu svæði þrátt fyrir að örnefnin Laugarnes og Laugamýri séu mun eldri. Eiríkur Hjartarson og Valgerður Halldórsdóttir reistu sér íbúðarhús árið 1929 á bletti skammt austan við Þvottalaugarnar og nefndu húsið Laugardal eftir Laugardal í Árnessýslu. Níu árum síðar stofnuðu þau Garðyrkjustöðina Laugardal sem var ein af fyrstu garðplöntustöðvum í Reykjavik og var seld til borgarinnar árið 1955.
- Mýrlendi í Laugardal sem var að mestu ræst fram við gerð skrúðgarða og Grasagarðs. Til stóð að stór akvegur myndi liggja um dalinn og það land þar sem Grasagarðurinn og Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn eru nú til að tengja Sundahöfn og Skeifuna en af því varð ekki.
Þvottalaugar
- Þvottalaugarnar voru heitar laugar sem staðsettar eru norðarlega í Laugardalnum í Laugamýri sem áður fyrr tilheyrði hinu forna Laugarnesbýli. Laugarnar voru notaðar til þvotta af vinnukonum og húsmæðrum í Reykjavík allt fram á 20. öld.
- Notkun lauganna lagðist af árið 1930 þegar Laugarveitan var virkjuð og hitaveita í Reykjavík hófst. Laugarnar eru nú þurrar en ummerki um þær hafa verið varðveitt og eru nú fræðsluskilti um sögu lauganna við hlið þeirra.
- Útilistaverkið Þvottakona (1958) eftir Ásmund Sveinsson stendur í Laugardalnum til heiðurs minningu þvottakvenna.
Íþróttaiðkun
Laugardalsvöllur
- Er heimavöllur íslensku landsliðanna í knattspyrnu. Þar fara einnig fram úrslitaleikir í bikarkeppni karla og kvenna og flestir Evrópuleikir félagsliða.
- Laugardalsvöllurinn var vígður 17. júní 1959 en fyrsti leikurinn var 2 árum fyrr gegn Norðmönnum.
- 1992 voru lögð hlaupabraut kringum fótboltavöllinn og hefur hann síðan verið notaður fyrir frjálsíþróttamót.
- Völlurinn rúmar 15 þúsund áhorfendur í tveimur stúkum auk stæða.
- Í húsnæðinu Baldurshaga hefur Skylmingasamband Íslands æfingaaðstöðu.
Laugardalshöllin
- Laugardalshöllin var vígð 6. desember 1965. Árið 2005 var stór viðbygging byggð sem hýsir m.a. frjálsíþróttasalinn.
- Laugardalshöllin er 20 þúsund fermetrar og í henni eru fimm íþróttasalir – auk Hallarinnar er frjálsíþróttasalur, lyftingasalur, ballettsalur og golfæfingasvæði. Auk þess eru þar fjöldi ráðstefnu- og veislusala.
- Laugardalshöllin er eitt mikilvægasta íþrótta- og tónleikahús landsins og hefur hýst ýmsa stórviðburði t.d. skákeinvígi Fischers og Spasskís 1972, Heimsmeistaramótið í handbolta 1995 og óteljandi tónleika heimsfrægra tónlistarmanna t.d. Led Zeppelin, David Bowie, Jethro Tull, Nick Cave, Coldplay og Norah Jones.
Laugardalslaugin
- Sund og böð voru iðkuð í Laugardalnum frá fornu fari. Kennt var sund fyrir pilta allt frá 1824 og 1907-1908 var hlaðið laugarker sem var líklega fyrsta íþróttamannvirki sem bæjarstjórn Reykjavíkur reisti.
- Bygging Laugardalslaugar hófst 1958 og var laugin vígð tíu árum síðar.
- Viðbygging við laugina var tekin í notkun 1986.
- Í Laugardalslaug er 50 m aðalútilaug, stór barnalaug, vaðlaug, iðulaug og fjórir heitir pottar, stór vatnsrennibraut og fleiri leiktæki auk sólbaðsaðstöðu.
- 50 m innilaug sem uppfyllir alþjóðlega keppnisstaðla var opnuð 2005 skömmu eftir að líkamsræktarstöðin World Class flutti í nýtt húsnæði við hlið Laugardalslaugar.
Skautahöllin
- Var vígð árið 1998. Hún er rúmlega 3700 fermetrar og þar af er skautasvellið 1800 fermetrar. Höllin tekur allt að þúsund manns í stæði.
- Í Skautahöllinni fara fram æfingar í íshokkí og listskautum.
Æfingasvæði Þróttar og Ármanns
- Glímufélagið Ármann og Knattspyrnufélagið Þróttur hafa sameiginlega æfingaaðstöðu að Engjavegi 7 í Laugardal sem tekin var í notkun árið 2007 og þar er æfingaaðstaða fyrir fimleika, frjálsar íþróttir, glímu, júdó, lyftingar, taekwondo o.fl. auk þess sem félögin nýta Laugardalsvöll, Laugardalshöll og Laugardalslaug fyrir æfingar í knattspyrnu,blak, handbolta, körfubolta og sund.
Grasagarður
- Stofnaður 1961 þegar Reykjavíkurborg fékk að gjöf 200 íslenskar plöntur frá þeim hjónum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Plöntunum var komið fyrir við Ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal.
- Sigurður Albert Jónsson var fyrsti forstöðumaður garðsins frá 1961 allt til 1999 og byggði garðinn upp frá grunni. Hann hóf einnig strax skráningu og merkingu plantna, fræskipti við útlönd og ýmsar ræktunartilraunir.
- Bærinn Laugatunga féll garðinum í skaut árið 1970.
- Garðurinn hefur stækkað í áföngum, hægt og rólega frá upphafi fram til 1990, þegar trjásafnið opnaði, og aftur 2011 þegar garðurinn stækkaði um 2,4 ha og er nú um 5,5 ha.
- Lystihús var flutt í garðinn árið 1980 og gróðurhúsið reis nokkrum árum síðar en þar er kaffihúsið Café Flóra til húsa.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
- Húsdýragarðurinn er eini dýragarðurinn í Reykjavík og var opnaður 19. maí 1990
- Í Húsdýragarðinum má finna öll íslensk húsdýr og alifugla sem og gæludýr líkt og naggrísi og kanínur. Leitast er við að sýna afbrigði, litbrigði, bæði kynin og afkvæmi þeirra.
- Þá eru villt spendýr – refir, minkar, hreindýr og landselir.
- Býflugur eru ræktaðar í býflugnabúum í garðinum.
- Garðurinn hefur umsjón með Þerney í Kollafirði og þar fá þau dýr sem eiga heimangengt sumarfrí.
- Í Húsdýragarðinum er aðstaða fyrir slasaða villta fugla. Þar hafa komið hafernir og fálkar og fengið aðhlynningu sem og sjófuglar sem hafa lent í olíu.
- Fjölskyldugarðurinn var opnaður 24. júní 1993. Í honum eru fjölbreytt leiktæki og aðstaða fyrir útiveru og tómstundir fyrir fjölskylduna. Hönnun garðsins hefur skírskotun í norræna goðafræði og víkingaöld. Þá er lögð áhersla á að nota umhverfisvænan búnað innan svæðisins.
- 2002 var Vísindaveröldin opnuð í tjaldi nálægt selatjörninni í Húsdýragarðinum og 2004 bættist Sjávardýrasafnið við þar inni.
Heimildir
- Eva G. Þorvaldsdóttir & Jóhanna Þormar. 2008. Um tildrög að stofnun Grasagarðs í Laugardal. Garðyrkjuritið.
- Hildur Arna Gunnarsdóttir. 2011. Grasagarður Reykjavíkur 50 ára. Viðtal við Sigurð Albert Jónsson fyrrverandi forstöðumann. Garðyrkjuritið.
- Vefur Knattspyrnusambands Íslands
- Vefur Fjölskyldu- og húsdýragarðsins