Klambratún

Útivistarsvæði

Klambratún
105 Reykjavík

Séð yfir Klambratún á sólríkum degi

Um Klambratún

Klambratún er með stærri almenningsgörðum í Reykjavík og setur mikinn svip á Hlíðahverfið. Klambratún, sem hefur einnig borið heitið Miklatún, afmarkast af Hringbraut, Rauðarárstíg, Flókagötu og Lönguhlíð en svæðið er nefnt eftir býlinu Klömbrum.

Klambratún er einn stærsti almenningsgarðurinn sem var sérstaklega hannaður sem hluti af aðalskipulagi borgarinnar en hönnun hans hófst upp úr 1960. Klambratún skiptist í stórar grasflatir, trjálundi og leik- og íþróttasvæði og er í dag vinsælt útivistarsvæði. Kjarvalsstaðir, sem hýsir sýningarrými Listasafns Reykjavíkur, er staðsett við norðurenda Klambratúns.

Grunnupplýsingar

Aldur: Klambratún hefur verið opið svæði innan byggðar frá því Norðurmýrin og Hlíðarnar byggðust upp snemma á 20. öldinni en varð ekki formlega almenningsgarður fyrr en á sjöunda áratugnum.

Stærð: Klambratún er um 10 hektarar á stærð.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Kjarvalsstaði, Rauðarárstíg og Flókagötu.
  • Strætóleiðir: 1-3-6-13. Stöðvar: Klambratún (1-3-6), Kjarvalsstaðir (13).

Þar er að finna: Listasafn – Kaffihús – Listaverk – Bekkir – Garðyrkja – Leiksvæði – Fótboltavöllur – Frisbígolfvöllur – Körfuboltavöllur - Strandblakvöllur - Arkitektúr.

Saga

  • Klambratún var áður hluti af landi þriggja bæja en það voru Háteigur, Sunnuhvoll og Klömbrur.
  • Fyrstu skólagarðar sem starfræktir voru í Reykjavík voru á Klambratúni um miðja 20. öldina.
  • Framkvæmdir við gerð almenningsgarðs á Klambratúni hófust 1964 og var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt aðalhönnuður garðsins.
  • Kjarvalsstaðir risu á árunum 1971-1972 en Hannes Kr. Davíðsson arkitekt hannaði bygginguna.
  • Meðal listaverka á Klambratúni eru Rek (1990) eftir Kristin E. Hrafnsson og Reykjavíkurvarðan (1970) eftir Jóhann Eyfells.
  • Klambratún heitir eftir bænum Klömbrum, en bæjarheitið Klambrar er dregið af orðinu "klömbur" sem merkir "þrengsli". Klambratún fékk heitið Miklatún haustið 1964 og hélst það heiti þar til 2010 er nafnið Klambratún var aftur tekið í almenna notkun.

Heimildir

  • Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.
  • Edvald B. Malmquist. 1953. „Skólagarðar“ í Lesbók Morgunblaðsins, 11. október, 1953.