Íslandskortið

Árið 1985 hófst á vegum Reykjavíkurborgar vinna við gerð líkans af hluta Íslands. Kortið var til sýnis á tæknisýningu í Borgarleikhúsinu sem haldin var í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur árið 1986 og vakti mikla athygli. 

Upphaflega átti líkanið að sýna nokkurn veginn landnám Ingólfs, en þegar líkansmíðin var komin vel á veg var ákveðið að líkanið næði til alls Íslands og því ætlaður staður í Ráðhúsi Reykjavíkur í tengslum við móttöku ferðahópa. 

Hugmyndina að smíði líkansins átti Þórður Þorbjarnarson þáverandi borgarverkfræðingur. Gerð þess tók tuttugu mannár en verkið unnu fjórir líkansmiðir á Módelverkstæði Reykjavíkurborgar, þeir Axel Helgason, Árni Hreiðar Árnason, Jónas Magnússon og Kristján Sigurðsson. Málameistari var Sigurður Pálsson.

Líkanið

Líkanið er byggt aðallega eftir kortum frá Bandaríska hernum (U.S. Army Map service series C762) frá árinu 1948 sem teiknuð voru eftir loftmyndum sem bandaríski herinn tók hér í ágúst og september árið 1945 og ágúst til október árið 1946. 

 

Í þessu kortasetti Bandaríkjamanna eru samtals 269 kort í mælikvarðanum 1:50.000, hvert kortablað þekur um 435 ferkílómetra lands.

 

Yfirhækkunin er tvöföld þannig að hæðarkvarðinn er 1:25.000. Heildarflatarmál líkansins er 76.4 fermetrar, 7.22x10,58m. Því er skipt niður á 57 fleka. Af þeim sýna 43 landið sjálft en 14 flekar sýna eingöngu hafsvæði umhverfis landið til þess að fylla út í ferninginn. 

Íslandskortið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur

Flekarnir eru dálítið mismunandi að stærð en eru á bilinu 80–180 cm á kant. Meðalflatarmál þeirra er um 1.35 fermetrar og þekur hver þeirra tæpa 3000 ferkílómetra lands að meðaltali. 

Byrjað var að smíða líkanið í ársbyrjun 1985. Það er smíðað úr 1 mm þykkum pappa sem skorinn er út eftir hæðarlínunum á kortunum. Einstök pappaþynna stendur því fyrir hverja 20 hæðarmetra í landinu. Frá sjó og upp á topp Öræfajökuls eru því 106 þynnur í líkaninu. Þær eru límdar hver ofan á aðra með venjulegu trélími og heftar og negldar eftir þörfum. Pappablokkirnar eru festar á tréplötur sem skrúfaðar eru á álramma. 

Þegar Ráðhúsið opnaði árið 1992 var Íslandslíkanið tilbúið og komið fyrir í Tjarnarsal Ráðhúss og þar hefur það verið til sýnis allar götur síðan. Íslandslíkanið er mjög vinsælt og hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn bæði Íslenska og erlenda.