Akstursþjónusta fyrir fötluð börn

Forsjáraðilar fatlaðra barna geta sótt um akstursþjónustu t.d. vegna tómstunda, læknisferða, sjúkraþjálfunar eða til að rjúfa félagslega einangrun. Börn yngri en 6 ára skulu alltaf vera í fylgd með fullorðnum einstaklingi. Pant sér um akstursþjónustu fyrir fötluð börn.

Hvaða börn eiga rétt á akstursþjónustu?

Til að eiga rétt á þjónustunni þarf barn að eiga lögheimili í Reykjavík og uppfylla eitt eða fleiri af eftirfarandi skilyrðum: 

  • Vera hreyfihamlað og nota hjólastól. 
  • Geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar. 
  • Vera blint. 

Börn yngri en sex ára verða alltaf að vera í fylgd fullorðins einstaklings og þurfi þau bílstól er það á ábyrgð forsjáraðila að útvega hann.

Hvernig sæki ég um þjónustuna? 

Þú sækir um akstursþjónustu fyrir barn í þinni forsjá á rafrænan hátt á Mínum síðum.

Einnig er hægt að mæta á miðstöð í þínu hverfi og fylla út umsókn.

Hvað gerist næst? 

Umsóknin er metin út frá skilyrðum og möguleikum barns til að nýta sér aðra ferðamöguleika. Barn getur fengið akstursþjónustu hluta úr ári ef þörf er á. 

Þú færð skriflega tilkynningu um hvort umsókn er samþykkt eða synjað. Almennt er þjónustan samþykkt til tveggja ára. 

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Ég hef fengið samþykkta akstursþjónustu, hvað svo? 

Þegar þú hefur fengið akstursþjónustu samþykkta hefur þú samband við Pant sem veitir þjónustuna.