Spurt og svarað hjá Matvælaeftirlitinu

Hér er að finna algengar spurningar og svör sem tengjast Matvælaeftirlitinu

Neysluvatn

Vatnið úr krananum hjá mér er brúnt, er vatnið drykkjarhæft? Hvað á ég að gera?

Neysluvatn skal ávallt vera tært og litlaust. Brúnn litur á neysluvatni getur verið merki um tæringu í lögnum og að tími sé kominn á viðhald neysluvatnslagna í húsinu og er það húseigandi sem ber ábyrgð á vatnslögnum frá inntaki. Til að tryggja öryggi neysluvatns til skemmri tíma uns hægt er að sinna nauðsynlegu viðhaldi þarf að láta vatnið renna til að tæma lagnir af stöðnu vatni með því að láta það renna í um 10-15 mínútur áður en það er notað. Þegar vatnið er orðið eins kalt og það getur orðið (þetta hitastig er breytilegt eftir árstíma og jafnvel frá húsi til húss, algengt lokahitastig er 5-8°C að vetri til en allt upp í 12-13°C á sumrin) er hreint vatn úr dreifikerfi Veitna komið inn í húsið. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni af neysluvatninu í dreifikerfinu tvisvar í viku. 

Birting á niðurstöðum

Fyrirtæki fékk 1 og er enn í rekstri. Hvernig getur það gerst?

Ef niðurstaða reglubundins eftirlits er 1 þýðir það að heilbrigðisfulltrúi hefur takmarkað starfsemi fyrirtækisins eða stöðvað hana að hluta eða rekstraraðili hefur axlað þá ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt lögum og gert þetta sjálfur.  Dæmi um þetta er krá með áfengisveitingar og steikingu á hamborgurum.  Í reglubundnu eftirliti kemur í ljós að kælar með hamborgurum eru í ólagi og því er hamborgarasteiking bönnuð en rekstraraðila heimilt að halda áfram að selja drykkjarvöru sem ekki er kælivara.  Í þessum tilfellum er rekstraraðila gefinn stuttur frestur til að bæta úr þeim atriðum sem ollu því að starfsemin var takmörkuð eða stöðvuð að hluta.  Þegar úrbótum er lokið þarf rekstraraðili að óska eftir því að heilbrigðisfulltrúi fari yfir úrbæturnar og ef þær eru fullnægjandi þá er rekstraraðila heimilt að hefja starfsemi að nýju.  

 

Stofna matvælafyrirtæki/leyfi

Hvað þarf að gera til að opna matvælafyrirtæki (s.s. veitingastað (t.d. kaffihús, veitingahús, skyndibitastað)/matsöluvagn/verslun/annað matvælafyrirtæki) eða gististað í Reykjavík?

Þarf ég rekstrarleyfi?

  • Ef ætlunin er að reka veitingastað og selja áfengi þá þarftu rekstrarleyfi.
  • Ef þú ætlar að reka gististað (ekki heimagisting) þá þarftu rekstrarleyfi.
  • Athugið að auk framangreindra rekstrarleyfa þá þarf starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd.
  • Sótt er um rekstrarleyfi hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. 

Hvað þarf marga vaska á veitingastað?

Það fer eftir starfseminni.

Ef þú þarft að skola ávexti, grænmeti eða önnur matvæli þá þarftu vask til þess, m.ö.o. svokallaðan matvælavask. Ef þú er með umfangsmikla starfsemi þá gæti verið að þú þurfir fleiri en einn matvælavask, t.d. einn fyrir kjöt og annan fyrir grænmeti og ávexti. Þú þarft vask til að þvo áhöld og annan búnað (áhalda- og tækjavask) og vask til að skola borðbúnað frá gestum (borðbúnaðarvask). Ef starfsemin er umfangslítil þá getur þetta verið sami vaskurinn.

Vaskur til að skola borðbúnað frá gestum er vanalega við hlið uppþvottavélar en slík vél er nauðsynleg þegar boðið er upp á borðbúnað, s.s. glös, hnífapör og diska. Fyrir utan framangreinda vaska þá þarftu að vera með handlaug sem eingöngu er ætluð fyrir handþvott. Handlaugin þarf að vera frístandandi, þ.e. ekki í borði, og við hana þurfa að vera veggfastir skammtarar fyrir hreinlætisgögn, þ.e. gerileyði, fljótandi handsápu og einnota pappírsþurrkur.

Blöndunartæki handlaugar þurfa að vera handfrjáls, þ.e. þú átt ekki að þurfa að snerta blöndunartækin með höndum við notkun. Fjöldi handlauga fer eftir starfsemi en í stórum eldhúsum geta verið margar handlaugar og í börum eða öðrum afgreiðslum þarf að vera hægt að þvo sér um hendur og þar gæti jafnframt þurft að vera með svokallaða þjónavaska sem eru vaskar sem ætlaðir eru til að ná í vatn fyrir viðskiptavini og skola ávexti/grænmeti. Í ræstiklefum eiga að vera vaskar til að hella óhreinu ræstivatni. 

Er í lagi að útbúa matvæli í heimahúsi og selja í verslunum, á mörkuðum eða á netinu (s.s. á Facebook), t.d. kökur, sörur, pottrétti, súpu? 

Ekki er heimilt að útbúa matvæli í heimahúsi og dreifa þeim á markaði.  Undantekning á þessu eru matvæli sem seld eru í góðgerðarskyni, þ.e. ekki í eigin hagnaðarskyni (t.d. jóla- og kökubasar Hringsins). Vakin er athygli á að matvælaöryggi þarf ávallt að vera tryggt. 

Má starfsfólk veitingastaða þvo vinnufatnað sinn heima? 

Nei. Ekki er heimilt að þvo vinnufatnað eða annan starfsmannafatnað í heimahúsi.  Starfsemi matvælafyrirtækja má ekki vera tengd við heimahús. 

Mig langar að flytja inn matvæli og selja í verslunum og í netverslun eða á samfélagsmiðlum. Hvað þarf ég að gera?

Þú þarft starfsleyfi.  Nánari upplýsingar um innflutning matvæla. Vakin er athygli á að viðskiptavinur á rétt á ítarlegum upplýsingum um matvælin á vefsíðunni/samfélagsmiðlinum til þess að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um kaup á vöru.  Almennar kröfur til matvælaupplýsinga eru í reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda

Þarf ég starfsleyfi ef ég ætla að flytja inn matvæli, svo sem áfengi og fæðubótarefni, og lagerinn verður hjá vöruhóteli?  

Já, þú þarft starfsleyfi. Nánari upplýsingar um innflutning matvæla. Ef þú ætlar að flytja inn áfengi þá þarftu jafnframt leyfi frá sýslumanni.

Ég ætla að flytja inn matvæli, kannski fæðubótarefni eða áfengi, og geyma matvælin í bílskúrnum heima. Má þetta? 

Innflutningur á matvælum sem ætluð eru til dreifingar á markaði, þ.m.t. áfengi og fæðubótarefni, er starfsleyfisskyld starfsemi.  Varðandi geymslu á matvælum í bílskúrnum eða öðrum rýmum sem tilheyra heimahúsi og sem ætluð eru til dreifingar á markaði þá er slíkt ekki heimilt. 

Matvælasnertiefni

Ég ætla að framleiða / flytja inn umbúðir fyrir matvæli.  Þarf ég leyfi?

Nei, en þú þarft að tilkynna starfsemina til heilbrigðisnefndar á þar til gerðu eyðublaði.

Ræktun grænmetis

Ég ætla að rækta grænmeti og selja á mörkuðum, í verslunum eða á netinu.  Þarf ég leyfi?

Ræktun grænmetis í atvinnuskyni er tilkynningarskyld starfsemi. Ræktendum ber að tilkynna starfsemi sína hjá heilbrigðiseftirlitinu áður en hún hefst með því að skila útfylltu og undirrituðu skjali til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.  

Ef ætlunin er að rækta spírur þá er starfsemin starfsleyfisskyld. Ræktendur spíra þurfa að sækja um starfsleyfi áður en starfsemin hefst með því að skila útfylltri og undirritaðri starfsleyfisumsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.   

Ef ætlunin er að meðhöndla grænmetið með einhverjum hætti og/eða pakka því í neytendaumbúðir þá er starfsemin starfsleyfisskyld.  Sala og dreifing matvæla í verslunum og á netinu er einnig starfsleyfisskyld.  Sækja þarf um starfsleyfi áður en starfsemin hefst með því að skila útfylltri og undirritaðri starfsleyfisumsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. 

Matarsjúkdómar

Ég varð veik/ur eftir að borða mat frá veitingahúsi, hvað á ég að gera?

Hafir þú grun um að hafa veikst eftir að borða mat á veitingastað er mikilvægt að tilkynna það til heilbrigðiseftirlits á því svæði sem veitingastaðurinn er staðsettur. Upplýsingar um heilbrigðiseftirlitssvæðin

Algengast er að um magapest sé að ræða og ráðlagt er að leita til læknis vari veikindin lengur en í 24 tíma. Frekari leiðbeiningar varðandi veikindi er að finna hjá heilsugæslustöðvum um allt land. 

Sé grunur um veikindi eftir neyslu á heimsendum mat eða eftir neyslu matvæla sem keypt eru í verslunum, skal tilkynna það á sama hátt. 

Mikilvægt er að lýsa nákvæmlega hvað var borðað, hvenær, hvenær fyrstu einkenna varð vart, hver einkennin voru, hversu langan tíma veikindin vöruðu og hversu margir veiktust.  Heilbrigðisfulltrúi eða fulltrúi sóttvarnalæknis geta þurft að spyrja ítarlegri spurninga í kjölfar tilkynningar. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur við tilkynningum um meintar matarsýkingar og aðrar ábendingar í síma 411 1111 en einnig er hægt að senda tölvupóst á heilbrigdiseftirlit[hja]reykjavik.is. 

Gististaðir

Mig langar að vera með heimagistingu, hvaða leyfi þarf ég?

Heimagisting er skilgreind sem útleiga á gistirými í 90 daga eða minna ár hvert og fellur í flokk I skv. reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hvorki þarf starfsleyfi heilbrigðiseftirlits né rekstrarleyfi sýslumanns fyrir slíka gistingu. Aðeins þarf að skrá heimagistingu hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að reka gistiheimili/hótel, hvaða leyfi þarf ég?

Þú þarft starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og rekstrarleyfi frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.  Kröfur um rekstur gististaða eru skilgreindar í reglugerð um hollustuhætti og reglugerð um  veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Ef boðið er upp á veitingar á gististöðum þá skal farið eftir reglugerð Evrópusambandsins um hollustuhætti sem varða matvæli.  Jafnframt þarf að uppfylla kröfur í reglugerð um hávaða og reglugerð um meðhöndlun úrgangs.

Þarf ég að vera búinn að fá starfsleyfi heilbrigðiseftirlits áður en ég get sótt um rekstrarleyfi sýslumanns fyrir gisti-og veitingastarfsemi sem krefst rekstrarleyfis?

Nei. Nýtt starfsleyfi er aldrei gefið út án rekstrarleyfis sýslumanns ef nýr rekstur krefst rekstrarleyfis.  Sótt er um starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur samhliða rekstrarleyfisumsókn sýslumanns.

Rekstrarleyfi

Hvar sækir maður um rekstrarleyfi? 

Sótt er um rekstrarleyfi hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að Hlíðarsmára 1 í Kópavogi. Þetta á við gistingu í flokki II, II og IV og fyrir veitingastaði í flokki II og III.